Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Örugg von látinna

Örugg von látinna

KONA, sem var 25 ára, skrifaði: „Fósturmóðir mín dó úr krabbameini árið 1981. Dauði hennar var mjög erfiður fyrir mig og fósturbróður minn. Ég var 17 ára og bróðir minn var 11. Ég saknaði hennar svo mikið. Mér hafði verið kennt að hún væri á himni og mig langaði þess vegna til að svipta mig lífi til að vera hjá henni. Hún var besti vinur minn.“

Það virðist svo ósanngjarnt að dauðinn skuli hafa vald til að ræna mann ástvini. Og þegar það gerist getur sú tilhugsun að geta aldrei aftur talað við ástvin sinn, hlegið með honum eða haldið utan um hann verið næstum óbærileg. Þótt manni sé sagt að ástvinurinn sé núna á himni er ekkert víst að það lini sársaukann.

Vonin, sem Biblían býður fram, er hins vegar gerólík. Eins og við höfum áður vakið athygli á, gefur Ritningin til kynna að það sé mögulegt fyrir okkur að sameinast ástvinum okkar á ný í náinni framtíð, ekki á ókunnum himni heldur hér á jörðinni við friðsamar og réttlátar aðstæður. Og þá verða framtíðarhorfur mannanna þær að njóta fullkominnar heilsu og aldrei þurfa að deyja aftur. ‚En það er bara hrein óskhyggja,‘ kunna sumir að segja.

Hvað þyrfti til að sannfæra þig um að þetta sé örugg von? Til að trúa fyrirheiti þyrftir þú að vera viss um að sá sem gefur fyrirheitið sé bæði fús til og fær um að standa við það. Hver er það þá sem lofar því að látnir muni lifa á ný?

Vorið 31 lofaði Jesús Kristur djarflega: „Eins og faðirinn vekur upp dauða og lífgar, þannig lífgar og sonurinn þá, sem hann vill. Undrist þetta ekki. Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans [Jesú] og ganga fram.“ (Jóhannes 5:21, 28, 29) Já, Jesús Kristur lofaði að milljónir, sem núna eru látnar, muni lifa aftur á jörðinni og eiga þær framtíðarhorfur að vera áfram á henni að eilífu við friðsælar aðstæður, í paradís. (Lúkas 23:43; Jóhannes 3:16; 17:3; samanber Sálm 37:29 og Matteus 5:5.) Úr því að Jesús gaf þetta fyrirheit er óhætt að telja víst að hann sé fús til að standa við það. En er hann fær um að gera það?

Innan tveggja ára frá því að Jesús gaf þetta fyrirheit sýndi hann á áhrifaríkan hátt að hann er bæði fús til og fær um að reisa upp dána.

„Lasarus, kom út!“

Það var áhrifarík sjón sem bar fyrir augu. Lasarus var fársjúkur. Systur hans tvær, María og Marta, gerðu Jesú orð en hann var staddur handan árinnar Jórdan: „Herra, sá sem þú elskar, er sjúkur.“ (Jóhannes 11:3) Þær vissu að Jesú þótti mjög vænt um Lasarus. Ætli Jesús myndi ekki vilja koma og vitja síns sjúka vinar? En svo undarlegt sem það var hélt Jesús ekki þegar af stað til Betaníu heldur dvaldist næstu tvo daga á sama stað og hann var. — Jóhannes 11:5, 6.

Lasarus dó einhvern tíma eftir að boðin um veikindi hans voru send. Jesús vissi hvenær Lasarus dó og hann ætlaði að láta málið til sín taka. Þegar Jesús loks kom til Betaníu hafði vinur hans verið dáinn í fjóra daga. (Jóhannes 11:17, 39) Gæti Jesús lífgað við mann sem hafði verið látinn svo lengi?

Marta, sem var atorkusöm kona, hljóp til móts við Jesú er hún frétti að hann væri á leiðinni. (Samanber Lúkas 10:38-42.) Jesús var snortinn af sorg hennar og sagði henni: „Bróðir þinn mun upp rísa.“ Þegar hún lét í ljós trú sína á upprisu seinna meir sagði Jesús henni berum orðum: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi.“ — Jóhannes 11:20-25.

Þá er Jesús kom að grafhvelfingunni bað hann menn um að taka frá steininn sem var fyrir innganginum. Eftir að hann hafði beðist fyrir upphátt skipaði hann: „Lasarus, kom út!“ — Jóhannes 11:38-43.

Augu allra voru límd við grafaropið. Þá birtist mannvera út úr myrkrinu. Hún var vafin líkblæjum á höndum og fótum og um andlitið var bundinn dúkur. „Leysið hann og látið hann fara,“ skipaði Jesús. Síðasta bindið, sem vafið var utan af, féll til jarðar. Já, þetta var Lasarus, maðurinn sem hafði verið dáinn í fjóra daga! — Jóhannes 11:44.

Gerðist það í raun og veru?

Jóhannesarguðspjall segir frá upprisu Lasarusar sem sannsögulegri staðreynd. Smáatriðin eru of ljóslifandi til þess að hér geti einungis verið um líkingasögu að ræða. Sé sannsögulegt gildi hennar dregið í efa er verið að véfengja öll kraftaverk Biblíunnar, þar á meðal upprisu Jesú Krists sjálfs. Og að afneita upprisu Jesú jafngildir því að afneita kristinni trú í heild sinni. — 1. Korintubréf 15:13-15.

Ef þú viðurkennir tilvist Guðs ættir þú í rauninni ekki að eiga í neinum erfiðleikum með að trúa á upprisuna. Lýsum því með dæmi: Maður getur lesið erfðaskrá sína inn á myndband og að honum látnum geta ættingjar hans og vinir nánast séð hann og heyrt greina frá því hvernig eignum hans skuli ráðstafað. Fyrir hundrað árum var slíkt óhugsandi. Og fyrir sumt fólk á mjög afskekktum stöðum á jörðinni er myndbandstæknin svo langt fyrir ofan skilning þess að hún virðist kraftaverk. Ef menn geta notað náttúrulögmál, sem skaparinn setti, til að sjá og heyra þannig aftur slíkan atburð, ætti skaparinn þá ekki að geta gert langtum meira? Er það því ekki skynsamleg ályktun að sá sem skapaði lífið sé fær um að endurskapa það?

Hin undraverða upprisa Lasarusar varð til þess að auka trúna á Jesú og upprisuna. (Jóhannes 11:41, 42; 12:9-11, 17-19) Á hjartnæman hátt leiðir hún einnig í ljós fúsleika og löngun Jehóva og sonar hans til að reisa fólk upp frá dauðum.

‚Guð mun þrá verk handa sinna‘

Viðbrögð Jesú við dauða Lasarusar sýna okkur mjög blíðlega hlið á syni Guðs. Hinar djúpu tilfinningar hans við þetta tækifæri gefa skýrt til kynna brennandi löngun hans til að reisa upp dána. Við lesum: „María kom þangað, sem Jesús var, og er hún sá hann, féll hún honum til fóta og sagði við hann: ‚Herra, ef þú hefðir verið hér, væri bróðir minn ekki dáinn.‘ Þegar Jesús sá hana gráta og Gyðingana gráta, sem með henni komu, komst hann við í anda og varð hrærður mjög og sagði: ‚Hvar hafið þér lagt hann?‘ Þeir sögðu: ‚Herra, kom þú og sjá.‘ Þá grét Jesús. Gyðingar sögðu: ‚Sjá, hversu hann hefur elskað hann!‘“ — Jóhannes 11:32-36.

Innilegri samúð Jesú er hér lýst með þrenns konar orðalagi: Hann ‚komst við‘, „varð hrærður mjög“ og „grét“. Orðin, sem eru á frummálinu notuð til að segja frá þessum hjartnæma atburði, gefa til kynna að Jesús hafi verið svo djúpt snortinn vegna dauða hins ástkæra vinar síns, Lasarusar, og að sjá systur Lasarusar gráta, að augu hans flóðu í tárum. *

Það sem er svo eftirtektarvert er að Jesús hafði áður reist tvo einstaklinga upp frá dauðum og hann ætlaði sér sannarlega að gera það sama við Lasarus. (Jóhannes 11:11, 23, 25) Samt „grét“ hann. Það er því ekki eins og vanaverk fyrir Jesú að vekja menn upp til lífs. Blíðar og djúpar tilfinningar hans, sem birtust við þetta tækifæri, bera glögglega vitni um brennandi löngun hans til að bæta að fullu það tjón sem dauðinn hefur valdið.

Blíðar tilfinningar Jesú, þegar hann reisti Lasarus upp frá dauðum, endurspegluðu brennandi löngun hans til að bæta að fullu það tjón sem dauðinn hefur valdið.

Þar sem Jesús er ‚ímynd veru Jehóva Guðs‘ getum við með réttu vænst síst minna af himneskum föður okkar. (Hebreabréfið 1:3) Hinn trúfasti maður Job sagði um fúsleika Jehóva sjálfs til að reisa menn upp frá dauðum: „Þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur? . . . Þú mundir kalla, og ég — ég mundi svara þér, þú mundir þrá verk handa þinna.“ (Jobsbók 14:14, 15) Orðið á frummálinu, sem þýtt er „þú mundir þrá“, merkir hér einlæga löngun Guðs og þrá. (1. Mósebók 31:30; Sálmur 84:3) Jehóva horfir greinilega til upprisunnar með mikilli eftirvæntingu.

Getum við í raun og veru trúað fyrirheitinu um upprisuna? Já, á því leikur enginn vafi að Jehóva og sonur hans eru bæði fúsir til og færir um að uppfylla það. Hvaða þýðingu hefur það fyrir þig? Þú átt kost á því að sameinast látnum ástvinum þínum hér á jörðinni en við aðstæður sem eru mjög frábrugnar þeim sem nú eru.

Jehóva Guð, sem lét mannkynið hefja göngu sína í yndislegum garði, hefur lofað að endurreisa paradís á þessari jörð undir stjórn síns himneska ríkis í höndum Jesú Krists sem nú hefur öðlast mikla dýrð. (1. Mósebók 2:7-9; Matteus 6:10; Lúkas 23:42, 43) Í þeirri endurreistu paradís á mannkynið í vændum að njóta lífsins endalaust án allra veikinda og sjúkdóma. (Opinberunarbókin 21:1-4; samanber Jobsbók 33:25; Jesaja 35:5-7.) Þá verður einnig horfið allt hatur, kynþáttafordómar, ofbeldi milli þjóðabrota og efnahagsleg kúgun. Það er til að lifa á slíkri hreinsaðri jörð sem Jehóva Guð mun fyrir milligöngu Jesú Krists reisa upp hina látnu.

Upprisan, sem byggð er á lausnarfórn Jesú Krists, mun færa öllum þjóðum fögnuð.

Núna er þetta sú von sem kristna konan, er nefnd var í upphafi þessa kafla, hefur. Allnokkrum árum eftir að móðir hennar dó hjálpuðu vottar Jehóva henni að nema Biblíuna vandlega. Hún segir: „Ég grét eftir að hafa lært um upprisuvonina. Það var dásamlegt að vita að ég sæi móður mína aftur.“

Ef þú þráir einnig innilega að sjá ástvin aftur munu vottar Jehóva með ánægju aðstoða þig við að fræðast um hvernig þú getur öðlast þessa öruggu von. Hví ekki að hafa samband við þá í þeim ríkissal sem er næstur þér eða skrifa þeim. Nota má það heimilisfang á blaðsíðu 32 sem næst er.

^ gr. 20 Gríska orðið, sem þýtt er „komst við“, er af sagnorði (embrimaomai) sem merkir að vera sárlega eða djúpt snortinn. Biblíufræðingur segir: „Hér getur það aðeins merkt að Jesús hafi verið gripinn svo djúpstæðum tilfinningum að ósjálfráð stuna hafi komið frá hjarta hans.“ Orðið, sem þýtt er „hrærður“, er komið af grísku orði (tarasso) sem lýsir geðshræringu. Að sögn orðabókar þýðir það „að valda manni innra uppnámi, . . . að valda miklum sársauka eða sorg“. Orðið „grét“ er komið af grísku sagnorði (dakryo) sem þýðir „að tárfella, gráta í hljóði“.