Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KAFLI 16

Hvað gerði Jesús þegar hann var á jörðinni?

Hvað gerði Jesús þegar hann var á jörðinni?

Margir hugsa um Jesú sem ósjálfbjarga ungbarn, vitran spámann eða deyjandi mann. En getum við kynnst honum betur með því að fræðast um líf hans á jörðinni? Í þessum kafla skoðum við sumt af því mikilvægasta sem Jesús gerði og hvernig það snertir þig.

1. Hvert var aðalstarf Jesú?

Aðalstarf Jesú var að „flytja … fagnaðarboðskapinn um ríki Guðs“. (Lestu Lúkas 4:43.) Hann boðaði þann fagnaðarboðskap að Guð ætti eftir að stofnsetja ríki, eða stjórn, sem myndi leysa öll vandamál mannkyns. a Í þrjú og hálft ár lagði Jesús sig allan fram við að flytja fólki þennan jákvæða boðskap. – Matteus 9:35.

2. Hvers vegna gerði Jesús kraftaverk?

Biblían segir frá mörgum „máttarverkum, undrum og táknum sem Guð lét [Jesú] gera“. (Postulasagan 2:22) Guð gaf Jesú mátt til að hafa stjórn á veðrinu, gefa mörg þúsund manns að borða, lækna veika og jafnvel reisa látna til lífs á ný. (Matteus 8:23–27; 14:15–21; Markús 6:56; Lúkas 7:11–17) Það var ljóst af kraftaverkum Jesú að Guð hafði sent hann. Þau sýndu auk þess að Jehóva hefur mátt til að leysa öll vandamál okkar.

3. Hvað getum við lært af lífsstíl Jesú?

Jesús hlýddi Jehóva í einu og öllu. (Lestu Jóhannes 8:29.) Þrátt fyrir andstöðu gerði Jesús samviskusamlega það sem faðir hans bað hann um alla ævi sína hér á jörðinni. Hann sannaði að fólk getur þjónað Guði þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Þannig ,lét Jesús okkur eftir fyrirmynd til að við skyldum feta náið í fótspor hans‘.1. Pétursbréf 2:21.

KAFAÐU DÝPRA

Kynntu þér hvernig Jesús flutti fagnaðarboðskapinn og vann kraftaverk.

4. Jesús flutti fagnaðarboðskap

Jesús gekk mörg hundruð kílómetra eftir rykugum vegum til að segja sem flestum frá fagnaðarboðskapnum. Lesið Lúkas 8:1 og ræðið síðan eftirfarandi spurningar:

  • Talaði Jesús aðeins við fólk sem safnaðist saman til að hlusta á hann?

  • Hvað lagði Jesús á sig til að ná til fólks?

Guð spáði að Messías myndi flytja gleðilegan boðskap. Lesið Jesaja 61:1, 2 og ræðið síðan eftirfarandi spurningar:

  • Hvernig uppfyllti Jesús þennan spádóm?

  • Finnst þér að fólk nú á dögum þurfi að fá að heyra þennan gleðilega boðskap?

5. Jesús kenndi dýrmæt sannindi

Auk þess að boða fagnaðarboðskapinn um ríki Guðs gaf Jesús fólki hagnýt ráð. Skoðum nokkur dæmi úr fjallræðunni. Lesið Matteus 6:14, 34 og 7:12 og ræðið síðan eftirfarandi spurningar:

  • Hvaða hagnýtu ráð gaf Jesús í þessum versum?

  • Telur þú að þessi ráð eigi enn við?

6. Jesús vann kraftaverk

Jehóva gaf Jesú mátt til að vinna mörg kraftaverk. Lesið Markús 5:25–34 eða spilið MYNDBANDIÐ til að sjá eitt dæmi. Ræðið síðan eftirfarandi spurningar:

  • Hvað var veika konan sannfærð um?

  • Hvað við þetta kraftaverk snertir þig?

Lesið Jóhannes 5:36 og ræðið síðan eftirfarandi spurningu:

  • Hvað bera kraftaverk Jesú vitni um varðandi hann?

Vissir þú?

Flest af því sem við vitum um Jesú er að finna í biblíubókunum fjórum sem eru kallaðar guðspjöllin – Matteusi, Markúsi, Lúkasi og Jóhannesi. Guðspjallaritararnir nefna ólík atriði um Jesú. Saman gefa þau okkur heillandi mynd af lífi hans.

  • MATTEUS

    skrifaði guðspjall sitt fyrstur. Hann leggur áherslu á kennslu Jesú, sérstaklega það sem hann kenndi um ríki Guðs.

  • MARKÚS

    skrifaði stysta guðspjallið. Frásögn hans er hröð og spennandi.

  • LÚKAS

    beinir athyglinni sérstaklega að bæninni og hvernig Jesús kom fram við konur.

  • JÓHANNES

    segir frá mörgum samtölum sem Jesús átti við nána vini sína og aðra. Það gefur okkur skýra mynd af persónuleika Jesú.

SUMIR SEGJA: „Jesús var bara góður maður.“

  • Hver er þín skoðun?

SAMANTEKT

Jesús boðaði ríki Guðs, vann kraftaverk og hlýddi Jehóva í einu og öllu.

Upprifjun

  • Hvert var aðalstarf Jesú þegar hann var á jörðinni?

  • Hvað sanna kraftaverk Jesú?

  • Hvaða hagnýtu ráð gaf Jesús?

Markmið

KANNAÐU

Lestu um hvers vegna við getum treyst því að Jesús hafi í raun unnið kraftaverk.

„Kraftaverk Jesú – hvað segir Biblían?“ (Varðturninn 1. september 2004)

Lestu um hvaða áhrif fordæmi Jesú í fórnfýsi hafði á mann nokkurn.

„Líf mitt snerist eingöngu um mig“ (Varðturninn 1. nóvember 2014)

Sjáðu helstu atriði í þjónustu Jesú í tímaröð.

„Helstu æviatriði Jesú á jörð“ (Handbók biblíunemandans, 4. kafli)

a Kaflar 31–33 fjalla nánar um ríki Guðs.