Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig voru innsigli notuð til forna?

Hvernig voru innsigli notuð til forna?

 Innsigli voru litlir stimplar og notuð til að skilja eftir sig merki, venjulega á leir eða vaxi. Þau voru ólík að lögun. Þau gátu verið keilulaga, ferköntuð, sívöl eða jafnvel eftirmynd af dýrshöfði. Merki eftir innsigli gat sýnt hver væri eigandi einhvers eða staðfest að skjal væri ófalsað. Innsigli voru líka sett á poka, dyr og grafir til að hindra óviðkomandi aðgang.

Sívalt innsigli sem sýnir Daríus I persakonung á veiðum og merki eftir innsiglið í leir.

 Innsigli voru gerð úr ýmsum efnum, þar á meðal beini, kalksteini, málmi, hálfeðalsteini eða tré. Stundum var nafn eiganda innsiglis eða föður hans grafið í það. Á sumum innsiglum voru titlar eigendanna.

 Til að staðfesta að skjal væri ekta þrýsti eigandi innsiglisins því niður í leir, vax eða annað mjúkt efni sem var fest við skjalið. (Jobsbók 38:14) Þegar efnið hafði harðnað var vonast til að það kæmi í veg fyrir að einhver myndi eiga við skjalið.

Innsigli voru stundum notuð til að fela öðrum vald

 Eigandi innsiglis gat fengið það öðrum og falið honum þannig vald sitt. Dæmi um það er faraó í Egyptalandi til forna og hebreskur maður að nafni Jósef, sonur ættföðurins Jakobs. Jósef hafði verið þræll í Egyptalandi. Seinna var hann settur saklaus í fangelsi. Um síðir leysti faraó hann úr fangelsinu og útnefndi hann forsætisráðherra. Biblían segir: „[Faraó] tók innsiglishring sinn af hendi sér og dró á hönd Jósefs.“ (1. Mósebók 41:42) Á hringnum var opinbert innsigli þannig að Jósef hafði nú það vald sem hann þurfti til að inna mikilvægt starf sitt af hendi.

 Jesebel drottning í Ísrael til forna notaði innsigli eiginmanns síns þegar hún lagði á ráðin um að láta drepa mann að nafni Nabót. Hún skrifaði tilteknum öldungum bréf í nafni Akabs konungs þar sem hún bað þá að ákæra Nabót fyrir guðlast þótt hann væri saklaus. Hún setti innsigli konungs á bréfin og úr varð að illt ráðabrugg hennar bar árangur. – 1. Konungabók 21:5–14

 Ahasverus persakonungur notaði innsiglishring til að staðfesta opinberar skipanir. – Esterarbók 3:10, 12.

 Biblíuritarinn Nehemía segir frá því að leiðtogar Ísraels, Levítar og prestar hafi samþykkt skriflegan sáttmála með því að setja innsigli sín á hann. – Nehemíabók 1:1; 10:1.

 Biblían nefnir tvö dæmi um að innsigli voru sett á innganga. Þegar Daníel spámanni var kastað í ljónagryfju ,sóttu menn stein og lögðu yfir gryfjuopið‘. Síðan innsiglaði Daríus, konungur Meda og Persa, „hann með innsiglishring sínum og innsiglishringum yfirhöfðingja sinna svo að engu yrði breytt um þá ráðstöfun sem gerð hafði verið vegna Daníels“. – Daníel 6:18.

 Þegar lík Jesú Krists var lagt í gröf „gengu [óvinir hans] tryggilega frá gröfinni og innsigluðu steininn“ sem velt var fyrir grafarmunnann til að hindra aðgang. (Matteus 27:66) Ef um var að ræða opinbert innsigli rómverskra yfirvalda hefur „innsiglið verið úr leir eða vaxi og því þrýst inn í rifuna milli ... steinsins og grafarmunnans“, segir í biblíuskýringarriti um Matteus eftir David L. Turner.

 Þar sem forn innsigli geta varpað ljósi á liðinn tíma hafa fornleifafræðingar og sagnfræðingar mikinn áhuga á þeim. Reyndar hefur það að rannsaka innsigli orðið stór fræðigrein en hún nefnist innsiglafræði.