Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

FORSÍÐUEFNI

Hvað varð eiginlega um agann?

Hvað varð eiginlega um agann?

Fjölskyldulífið hefur breyst gríðarlega á Vesturlöndum síðustu áratugina. Áður fóru foreldrarnir með völdin og börnin lutu stjórn þeirra. Nú virðast hlutverkin hins vegar hafa snúist við á sumum heimilum. Líttu á eftirfarandi dæmi sem eru öll byggð á algengum aðstæðum daglegs lífs.

  • Fjögurra ára drengur er úti í búð með mömmu sinni. Hann teygir sig í leikfang. Mamma hans reynir að rökræða við hann og segir: „En þú átt alveg nóg af dóti, er það ekki?“ Um leið og hún sleppir orðinu áttar hún sig á að hún hefði ekki átt að enda á spurningu. „En mig langar í þetta!“ volar hann. Hún gefur eftir því að hún óttast frekjukast, bragð sem hann grípur oft til.

  • Fimm ára stúlka grípur fram í þegar pabbi hennar er að tala við annan mann. „Mér leiðist,“ segir hún. „Ég vil fara heim!“ Pabbi hennar stoppar í miðri setningu, beygir sig niður og segir blíðlega: „Bara smástund í viðbót, elskan. Er það ekki í lagi?“

  • Eina ferðina enn hefur Jakob, sem er 12 ára, verið sakaður um að hafa öskrað á kennarann sinn. Pabbi hans er reiður, en ekki við son sinn heldur út í kennarann. „Hún leggur þig í einelti,“ segir hann við Jakob. „Ég þarf að tala við skólastjórann út af henni.“

Þetta eru tilbúin dæmi en ekki svo óraunhæf. Þau lýsa vanda sem er mjög raunverulegur á heimilum þar sem foreldrar þola börnum sínum dónaskap, láta eftir þeim það sem þau heimta og „bjarga“ þeim frá afleiðingum slæmrar hegðunar. „Það er orðið stöðugt algengara að foreldrar gefi ungum börnum völdin,“ segir í bókinni The Narcissism Epidemic. „Það er ekki svo langt síðan börn vissu hver réði – og það voru ekki þau.“

Auðvitað gera margir foreldrar sitt besta til að kenna börnum sínum góð gildi, bæði með því að sýna þeim gott fordæmi og aga þau af kærleika og festu þegar þess gerist þörf. En þeir sem skilja gildi þess að aga börnin sín þannig „synda á móti straumnum í samfélaginu“, eins og það er orðað í bókinni sem vitnað var í hér á undan.

Af hverju er ástandið orðið svona? Hvað varð eiginlega um agann?

Foreldravaldið veikist

Sumir segja að foreldravaldið hafi byrjað að veikjast á sjöunda áratug síðustu aldar þegar sérfræðingar þess tíma hvöttu foreldra til að vera ekki eins strangir við börnin sín. Þeir sögðu: „Verið vinir þeirra, ekki yfirvald“ og „hrós er betra en agi“. „Reynið að benda á það góða, sem börnin ykkar gera, frekar en að leiðrétta þau þegar þau eru óþekk.“ Í staðinn fyrir að finna jafnvægi á milli þess að hrósa og leiðrétta virtust sérfræðingar gefa í skyn að það myndi skaða viðkvæmt tilfinningalíf barnanna að setja ofan í við þau og að þau yrðu gröm út í foreldrana síðar á ævinni.

Áður en langt um leið voru sérfræðingar farnir að lofa hástöfum mikilvægi þess að hafa gott sjálfsálit. Það var eins og að loksins væri búið að finna leyndardóminn að baki góðu uppeldi. Hann var einfaldlega þessi: Gefið börnunum gott sjálfsálit. Að sjálfsögðu er mikilvægt að byggja upp sjálfstraust hjá börnunum. En upp spratt nokkurs konar sjálfsálitshreyfing sem fór út í öfgar. Sérfræðingar sögðu foreldrum: „Forðist að nota orð eins og nei og óþekkur. Segið börnunum ykkar stöðugt að þau séu einstök og að þau geti orðið hvað sem þau vilja.“ Það var rétt eins og að líða vel væri mikilvægara en að hegða sér vel.

Sjálfsálitshreyfingin hefur skilað litlu öðru en að börnum finnist þau eiga rétt á öllu mögulegu.

Nú segja sumir að þessi sjálfsálitshreyfing hafi skilað litlu öðru en að börnum finnist þau eiga rétt á öllu mögulegu, rétt eins og veröldin stæði í skuld við þau. Mörg ungmenni eru því „illa búin undir gagnrýni og mistök sem fylgja lífinu óneitanlega“, segir í bókinni Generation Me. Haft er eftir einum föður í bókinni: „Það er engin sjálfálitshreyfing á vinnumarkaðinum ... Ef þú skilar af þér illa unninni skýrslu á skrifstofunni á yfirmaðurinn ekki eftir að segja: ,Flottur litur á pappírnum!‘ Það gerir krökkum óleik að gefa þeim slíkt veganesti fyrir lífið.“

Síbreytilegar skoðanir

Í gegnum tíðina hafa ríkjandi uppeldisaðferðir endurspeglað síbreytilegar skoðanir mannanna. „Agi tekur stöðugum breytingum,“ skrifar kennslufræðingurinn Ronald G. Morrish. „Hann endurspeglar breytingar í þjóðfélaginu.“ * Það er auðvelt fyrir foreldra að „hrekjast og berast fram og aftur af hverjum kenningarvindi“ eins og segir í Biblíunni. – Efesusbréfið 4:14.

Slakur agi, eins og er algengur í barnauppeldi núna, hefur greinilega sínar neikvæðu hliðar. Hann hefur ekki aðeins veikt foreldravaldið heldur líka rænt börn þeirri leiðsögn sem þau þurfa til að geta tekið góðar ákvarðanir og haft raunverulegt sjálfstraust þegar þau ganga út í lífið.

Er til betri leið?

^ gr. 15 Úr bókinni Secrets of Discipline: 12 Keys for Raising Responsible Children. Leturbreyting er okkar.