Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Við vorum snortin að sjá slíkan kærleika“

„Við vorum snortin að sjá slíkan kærleika“

LAUGARDAGINN 25. apríl 2015 reið jarðskjálfti yfir Nepal en landið liggur í Himalajafjöllum norður af Indlandi. Skjálftinn mældist 7,8 stig og upptök hans voru um 80 kílómetra norðvestur af höfuðborginni Katmandú. Þetta voru mannskæðustu náttúruhamfarir í sögu Nepals en yfir 8.500 manns fórust í skjálftanum. Meira en hálf milljón heimila eyðilagðist. Yfir 2.200 vottar Jehóva búa í Nepal, flestir á jarðskjálftasvæðinu. Ein móðir, sem fórst því miður ásamt tveimur börnum sínum í skjálftanum, var vottur Jehóva.

„Þegar jarðskjálftinn reið yfir var samkoma hjá flestum söfnuðunum á skjálftasvæðinu,“ segir Michelle sem er vottur Jehóva. „Ef flestir hefðu verið heima á þeim tíma hefðu án efa fleiri látið lífið.“ Hvers vegna lifðu allir af sem voru á samkomu? Hönnun ríkissalanna átti stóran þátt í því.

„NÚNA SJÁUM VIÐ KOSTINA“

Nýlegir ríkissalir í Nepal eru hannaðir til að standast jarðskjálfta. Man Bahadur, sem tekur þátt í að byggja ríkissali, segir: „Við höfum oft verið spurð hvers vegna við leggjum svona sterkbyggðan grunn að frekar smáum byggingum. Núna sjáum við kostina.“ Eftir skjálftann var veitt leyfi til að nota ríkissalina sem neyðarskýli. Þrátt fyrir eftirskjálfta fannst vottunum og nágrönnum þeirra að þeim væri óhætt þar.

Vottar Jehóva og nágrannar þeirra leituðu skjóls í ríkissölum.

Öldungar safnaðanna tóku strax að leita að þeim safnaðarmönnum sem var saknað. „Öldungarnir tóku velferð safnaðarins fram yfir eigin þarfir,“ segir Babita en hún er vottur Jehóva. „Við vorum snortin að sjá slíkan kærleika.“ Daginn eftir skjálftann hófu allir þrír í nefndinni, sem hefur umsjón með starfi Votta Jehóva í Nepal, að heimsækja söfnuðina í samstarfi við farandumsjónarmenn safnaðarins. Þeir könnuðu þarfirnar og veittu safnaðaröldungunum stuðning.

Gary Breaux frá aðalstöðvum Votta Jehóva heimsótti hamfarasvæðið.

Sex dögum eftir jarðskjálftann kom Gary Breaux frá aðalstöðvum Votta Jehóva í Bandaríkjunum til Nepals ásamt Ruby, eiginkonu sinni. „Við vissum ekki hvort bróðir Breaux kæmist hingað vegna eftirskjálftanna og ringulreiðarinnar í Katmandú,“ segir Reuben, einn bræðranna í nefndinni sem getið var hér á undan. „En hann var staðráðinn í að komast hingað – og gerði það. Vottarnir í Nepal voru mjög þakklátir fyrir að hann skyldi koma.“

,VIÐ HÖFUM ALDREI VERIÐ EINS NÁIN‘

Silas starfar á skrifstofu Votta Jehóva í Nepal. Hann segir: „Síminn hringdi dag og nótt eftir að símasamband komst á að nýju. Trúsystkini okkar um allan heim höfðu áhyggjur af okkur. Sum þeirra töluðu tungumál sem við skildum ekki orð í en við fundum að þau elskuðu okkur og vildu endilega verða að liði.“

Lækna- og hjúkrunarteymi úr hópi votta Jehóva í Evrópu hlúði að fólki.

Vottar á svæðinu komu með matvæli í ríkissalina dögum saman eftir skjálftann handa þeim sem þörfnuðust aðstoðar. Skipuð var hjálparstarfsnefnd og fljótlega tóku hjálpargögn að streyma að, einkum frá Bangladess, Indlandi og Japan. Stuttu eftir skjálftann kom á staðinn teymi lækna og hjúkrunarfræðinga úr hópi votta Jehóva í Evrópu og setti upp miðstöð í einum ríkissalnum. Teymið hófst handa þegar í stað að kanna líkamlegt ástand fólks á skjálftasvæðinu og veita því áfallahjálp.

Kona, sem heitir Uttara, endurómaði tilfinningar margra þegar hún sagði: „Jarðskjálftinn var hræðilegur og ógnvekjandi. En við trúsystkinin höfum aldrei verið eins náin og eftir skjálftann.“ Þessar náttúruhamfarir veiktu sannarlega ekki kærleikann sem þjónar Jehóva bera til hans og hver til annars heldur styrktu þær hann.