Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fæðuofnæmi og fæðuóþol – hver er munurinn?

Fæðuofnæmi og fæðuóþol – hver er munurinn?

Emily: „Ég lagði frá mér gaffalinn því að mér var farið að líða illa. Mig klæjaði í munninn og tungan var byrjuð að bólgna. Mig svimaði og ég átti erfitt með að anda. Ofnæmisútbrot spruttu út á handleggjum og hálsi. Ég reyndi að vera róleg en vissi að ég þyrfti að komast undir læknishendur. Og það strax!“

FLESTIR njóta þess að borða. Sumir neyðast þó til að líta á ákveðnar fæðutegundir sem „óvini“. Þeir þjást af fæðuofnæmi eins og Emily sem minnst var á hér að ofan. Svæsin ofnæmisviðbrögð hennar eru lífshættuleg og kallast ofnæmislost. Sem betur fer er fæðuofnæmi sjaldnast svona alvarlegt.

Á síðustu árum hefur umræða um fæðuofnæmi og fæðuóþol aukist. Rannsóknir benda hins vegar til að aðeins lítill hluti þeirra sem telja sig vera með fæðuofnæmi greinist með það.

Hvað er fæðuofnæmi?

„Ekki er til nein algild skilgreining á fæðuofnæmi,“ segir í skýrslu sem hópur vísindamanna undir stjórn dr. Jennifer J. Schneider Chafen birti í The Journal of the American Medical Association. Flestir sérfræðingar telja þó að það sé fyrst og fremst ónæmiskerfið sem kveiki ofnæmisviðbrögðin.

Ofnæmisviðbrögð við ákveðnum mat eru að jafnaði viðbrögð líkamans við prótíni í honum. Ónæmiskerfið skilgreinir prótínið ranglega sem skaðlegt efni. Þegar þetta prótín kemur inn í líkamann framleiðir ónæmiskerfið mótefni sem kallast IgE (ónæmisglóbúlín E) sem gerir „skaðvaldinn“ óvirkan. Þegar matar með þessu prótíni er neytt í annað sinn getur þetta mótefni losað efni á borð við histamín.

Undir venjulegum kringumstæðum er histamín gagnlegt fyrir ónæmiskerfið. En af einhverjum ástæðum valda IgE mótefni, sem losa histamín, ofnæmisviðbrögðum hjá þeim sem eru sérstaklega viðkvæmir fyrir ákveðnu prótíni í fæðunni.

Þess vegna fær fólk kannski ekki ofnæmisviðbrögð í fyrsta sinn sem það borðar ákveðna tegund matar en getur fengið þau næst þegar það borðar hana.

Hvað er fæðuóþol?

Fæðuóþol getur birst í harkalegum viðbrögðum líkamans við ákveðinni fæðutegund, ekki ósvipað og fæðuofnæmi. En fæðuóþol er ólíkt fæðuofnæmi að því leyti að það eru viðbrögð frá meltingarkerfinu en fæðuofnæmi tengist mótefnum sem ónæmiskerfið virkjar. Sá sem er með fæðuóþol getur átt erfitt með að brjóta niður fæðuna vegna þess að hann skortir ensím eða vegna efna í fæðunni sem hann á erfitt með að vinna úr. Til dæmis er mjólkuróþol komið til vegna þess að meltingarvegurinn framleiðir ekki nauðsynleg ensím til að brjóta niður mjólkursykur.

Mótefni tengjast ekki fæðuóþoli og því getur óþol komið fram í fyrsta sinn sem fæðu er neytt. Magn fæðunnar getur skipt máli – lítið magn einhverrar fæðutegundar getur verið í lagi en mikið af henni valdið óþoli. Þetta er ólíkt alvarlegu fæðuofnæmi en þá getur jafnvel örlítið af fæðunni vakið lífshættuleg viðbrögð.

Hver eru einkennin?

Sá sem er með fæðuofnæmi getur fundið fyrir kláða, útbrotum, ógleði, uppköstum, niðurgangi eða bólgum í hálsi, tungu eða augum. Í verstu tilfellum getur blóðþrýstingurinn fallið, maður fundið fyrir svima, fallið í yfirlið eða jafnvel fengið hjartaáfall. Ofnæmislost getur gerst hratt og það er lífshættulegt.

Hvaða matur sem er getur valdið ofnæmi en alvarlegasta ofnæmið er oftast af völdum fáeinna fæðutegunda. Það eru mjólk, egg, fiskur, skelfiskur, jarðhnetur, sojabaunir, hnetur og hveiti. Ofnæmi getur byrjað hvenær sem er ævinnar. Rannsóknir sýna að ofnæmi getur verið arfgengt. Barn er líklegra til að fá ofnæmi ef annað eða báðir foreldrar eru með það. Ofnæmi eldist oft af börnum.

Almennt eru einkenni fæðuóþols mildari en alvarleg ofnæmisviðbrögð. Fæðuóþol getur valdið magaverk, uppþembu, vindgangi, magakrampa, höfuðverk, útbrotum, þreytu og sleni. Óþol getur tengst fleiri en einni fæðutegund. Mjólkurvörur, hveiti, glúten, áfengi og ger eru einna algengastar.

Greining og meðferð

Ef maður telur sig vera með fæðuofnæmi eða fæðuóþol er ágætt að láta sérfræðing athuga það. Það getur verið skaðlegt að sjúkdómsgreina sig sjálfan og ákveða upp á eigin spýtur að sleppa ákveðnum fæðutegundum. Þá getur maður óafvitandi misst af nauðsynlegum næringarefnum.

Ekki er til nein viðurkennd meðferð við alvarlegu fæðuofnæmi önnur en að forðast algerlega fæðuna sem kveikir ofnæmisviðbrögðin. * Við mildara ofnæmi eða fæðuóþoli dugir stundum að borða fæðuna sjaldnar eða borða minna af henni. Stundum getur þó verið nauðsynlegt að neita sér alveg um fæðuna annaðhvort tímabundið eða til frambúðar.

Ef þú ert með fæðuofnæmi eða fæðuóþol geturðu huggað þig við að margir sem þjást af því hafa lært að lifa með því og njóta þess að borða fjölbreyttan og góðan mat.

^ gr. 19 Gjarnan er mælt með að þeir sem þjást af alvarlegu ofnæmi hafi á sér adrenalínpenna sem þeir geta gripið til í neyð. Heilbrigðisstarfsfólk mælir stundum með því að börn með ofnæmi beri á sér nauðsynlegar upplýsingar fyrir kennara og aðra sem annast þau.