Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vissir þú?

Vissir þú?

Hver var faðir Jósefs?

Jósef, smiður í Nasaret, var fósturfaðir Jesú. En hver var faðir Jósefs? Í ættartölu Jesú í Matteusarguðspjalli er faðir Jósefs kallaður Jakob en í Lúkasarguðspjalli er Jósef sagður vera ,sonur Elí‘. Hér virðist heimildum ekki bera saman. Hver er ástæðan? – Lúkas 3:23; Matteus 1:16.

Í frásögn Matteusar stendur: „Jakob gat Jósef.“ Hann notar þar grískt orð sem gefur greinilega til kynna að Jakob hafi verið kynfaðir Jósefs. Matteus rekur því ætt Jósefs til Davíðs konungs og sýnir þannig fram á að Jesús, fóstursonur hans, eigi lagalegt tilkall til konungdómsins.

Í frásögn Lúkasar er hins vegar talað um ,Jósef, son Elí‘. Orðið „sonur“ má einnig skilja sem „tengdasonur“. Áþekkt dæmi er að finna í Lúkasi 3:27 þar sem Sealtíel er sagður vera ,sonur Nerí‘ þótt kynfaðir hans héti Jekonja. (1. Kroníkubók 3:17; Matteus 1:12) Sealtíel var sennilega kvæntur ónafngreindri dóttur Nerí og var þar af leiðandi tengdasonur hans. Jósef var ,sonur‘ Elí í sama skilningi því að hann kvæntist Maríu, dóttur hans. Lúkas rekur því ætt Jesú „að holdinu“, það er að segja ætt Maríu, kynmóður hans. (Rómverjabréfið 1:3, Biblían 1981) Í Biblíunni er því að finna tvær aðskildar ættarskrár Jesú, en þær eru báðar gagnlegar.

Hvers konar litir og vefnaðarvara voru til á biblíutímanum?

Litað ullarefni sem fannst í helli við dauðahaf, talið vera eldra en frá árinu 135 e.Kr.

Ull af sauðfé og geita- og úlfaldahár voru mikið notuð í vefnað í Mið-Austurlöndum til forna. Algengasta vefnaðarvaran var úr ull, og Biblían minnist oft á sauðfé, rúningu og ullarfatnað. (1. Samúelsbók 25:2; 2. Konungabók 3:4; Jobsbók 31:20) Hör var ræktaður til vefnaðar í Egyptalandi og Ísrael. (1. Mósebók 41:42; Jósúabók 2:6) Óvíst er að Ísraelsmenn hafi ræktað bómull á biblíutímanum en í Biblíunni kemur fram að bómullarefni hafi verið notað í Persíu. (Esterarbók 1:6) Silki var dýr munaðarvara og sennilega fékkst það aðeins hjá farandkaupmönnum frá Austurlöndum fjær. – Opinberunarbókin 18:11, 12.

„Ullin var í ýmsum náttúrlegum litum, hvítum lit, mórauðum og allt þar á milli,“ segir í bókinni Jesus and His World. Auk þess var algengt að lita ullina. Dýr purpuralitur var unninn úr ákveðinni tegund lindýra og ýmsar jurtir, rætur, lauf og skordýr voru notuð til að búa til rauð, gul, blá og svört litarefni.