Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

FORSÍÐUEFNI | BIBLÍAN – HVERNIG HEFUR HÚN VARÐVEIST?

Varðveisla Biblíunnar skiptir þig máli

Varðveisla Biblíunnar skiptir þig máli

Biblían er einstök meðal trúarrita. Engin önnur bók hefur mótað trú jafnmargra í aldanna rás. En þó hefur engin önnur bók sætt jafnmikilli gagnrýni og verið rannsökuð eins rækilega og Biblían.

Til dæmis efast sumir fræðimenn um að biblíurnar, sem við höfum undir höndum í dag, séu nákvæm afrit af frumtextanum. „Við getum hreinlega ekki verið viss um að textinn hafi verið afritaður nákvæmlega eftir frumtextanum,“ segir prófessor í trúfræðum. „Það eru eingöngu til afrit sem eru full af villum og flest þeirra voru gerð mörgum öldum eftir að frumtextinn var færður í letur. Þau eru eflaust frábrugðin frumritunum á ótal vegu.“

Aðrir draga trúverðugleika Biblíunnar í efa vegna trúarlegs bakgrunns síns. Tökum Faizal sem dæmi en hann er ekki alinn upp í kristinni trú. Honum var kennt að Biblían væri heilög bók en að búið væri að breyta henni. „Ég var þar af leiðandi tortrygginn þegar fólk ræddi við mig um Biblíuna,“ segir hann. „Bókin, sem þau voru með, var ekki sú sama og upprunalega Biblían. Henni hafði verið breytt.“

En skiptir einhverju máli hvort Biblíunni hafi verið breytt? Hugleiddu eftirfarandi: Geturðu treyst huggunarríkum loforðum Biblíunnar um framtíðina ef þú veist ekki hvort þau voru í frumtextanum? (Rómverjabréfið 15:4) Myndirðu fara eftir meginreglum Biblíunnar þegar þú tekur mikilvægar ákvarðanir varðandi vinnu, fjölskylduna eða tilbeiðslu þína ef hún er aðeins gallað afrit manna af frumtextanum?

Jafnvel þótt upprunalegar bækur Biblíunnar séu glataðar getum við skoðað ævaforn afrit af þeim, þar á meðal mörg þúsund handrit. Hvernig var þessum handritum forðað frá skemmdum? Og hvernig varðveittist Biblían þrátt fyrir tilraunir manna til að ryðja henni úr vegi eða breyta boðskap hennar? Hvernig getur varðveisla handritanna byggt upp traust þitt á að boðskapur Biblíunnar sé sá sami nú og í upphafi? Skoðaðu svörin við þessum spurningum í eftirfarandi greinum sem fjalla um hvernig Biblían hefur varðveist.