Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hverjir munu erfa jörðina?

Hverjir munu erfa jörðina?

Hverjir munu erfa jörðina?

„Ég ímynda mér að náttúrunni verði umbreytt og henni komið í samt lag. . . . Ekki í fyrramálið heldur í fjarlægri framtíð þegar kominn verður nýr himinn og ný jörð.“ — Jean-Marie Pelt, franskur sérfræðingur í umhverfismálum.

MÖRGUM þykir skelfilegt að horfa upp á ástandið í umhverfismálum og þjóðfélagsmálum. Þeir myndu fagna því að sjá jörðina breytast í paradís. En þessi löngun er ekki ný af nálinni. Því var heitið endur fyrir löngu í Biblíunni að paradís yrði endurreist á jörð. Orð Jesú, „sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa“, og „verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni,“ eru meðal þekktustu versa Biblíunnar. (Matteus 5:5; 6:10) En núorðið eru þeir ekki margir sem trúa á jarðneska paradís byggða hógværum mönnum. Flestir, sem kalla sig kristna, hafa misst paradísarvonina.

Franska vikuritið La Vie varpar ljósi á það hvers vegna fólk hefur misst trúna á paradís — hvort heldur á himni eða jörð — að minnsta kosti innan kaþólsku kirkjunnar. Þar segir: „Eftir að hafa haft sterk áhrif á kennisetningar kaþólsku kirkjunnar í að minnsta kosti 19 aldir hefur [hugmyndin um] paradís horfið úr sunnudagsprédikunum, kyrrðarstundum, guðfræðinámskeiðum og barnafræðslu.“ Sjálft orðið er sagt vera hjúpað „dulúð og óvissu“. Sumir prédikarar forðast það vegna þess að það „vekur of margar hugmyndir um jarðneska sælu.“

Hugmyndirnar um paradís eru orðnar að „klisjum“, segir Frédéric Lenoir en hann er félagsfræðingur sem sérhæfir sig í trúarbragðafræði. Jean Delumeau tekur í sama streng en hann er sagnfræðingur og hefur gefið út nokkrar bækur um málið. Hann telur að fyrirheit Biblíunnar uppfyllist aðallega á táknrænan hátt og skrifar: „Við spurningunni: ‚Hvað er orðið um paradís?‘ gefur kristin trú eftirfarandi svar: Svo er upprisu frelsarans fyrir að þakka að einn góðan veðurdag munum við öll verða sameinuð og líta hamingjuna.“

Á boðskapurinn um paradís á jörð enn þá erindi til okkar? Hvaða framtíð á jörðin eiginlega fyrir sér? Er framtíðarsýnin óljós eða er hægt að skerpa hana? Þessum spurningum er svarað í eftirfarandi grein.