Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fyrirgefið hvert öðru fúslega

Fyrirgefið hvert öðru fúslega

„Umberið hvert annað og fyrirgefið hvert öðru.“ – KÓL. 3:13.

1, 2. Af hverju er ástæða til að hugleiða hvort maður sé fús til að fyrirgefa?

AF BIBLÍUNNI lærum við hvernig Jehóva lítur á syndir og hvernig hann bregst við þegar við syndgum. Þar segir líka margt um fyrirgefningu. Í greininni á undan var bent á að Jehóva fyrirgaf Davíð og Manasse vegna þess að þeir sýndu rétt hugarfar. Þeir hörmuðu sárlega það sem þeir höfðu gert, og það varð til þess að þeir játuðu syndir sínar, sneru baki við þeim og iðruðust í einlægni. Þannig endurheimtu þeir velþóknun Jehóva.

2 Við skulum nú líta á fyrirgefningu frá öðrum sjónarhóli. Hvernig heldurðu að þú hefðir litið á Manasse ef hann hefði átt sök á því að náinn ættingi þinn beið bana? Hefðirðu getað fyrirgefið honum? Það er ástæða til að velta því fyrir sér vegna þess að við búum í löglausum og eigingjörnum heimi þar sem ofbeldi veður uppi. Af hverju ættu kristnir menn að vera fúsir til að fyrirgefa? Og hvernig geturðu haft hemil á tilfinningum þínum ef þú ert lítilsvirtur eða ranglæti beittur? Hvað geturðu gert til að bregðast við eins og Jehóva vill að þú gerir og vera fús til að fyrirgefa?

AF HVERJU EIGUM VIÐ AÐ VERA FÚS TIL AÐ FYRIRGEFA?

3-5. (a) Hvaða dæmisögu sagði Jesús til að sýna fram á að við þurfum að vera fús til að fyrirgefa? (b) Hvað var Jesús að kenna með dæmisögunni í Matteusi 18:21-35?

3 Við verðum að vera fús til að fyrirgefa þeim sem gera eitthvað á hlut okkar, hvort sem þeir tilheyra kristna söfnuðinum eða ekki. Það auðveldar okkur að eiga friðsamleg samskipti við ættingja, vini, fólk almennt og við Jehóva. Í Biblíunni kemur fram að kristinn maður verði að vera fús til að fyrirgefa öðrum, óháð því hve oft þeir brjóta gegn honum. Til að sýna fram á að það sé ekki nema sanngjörn krafa sagði Jesús dæmisögu um þjón sem skuldaði óheyrilega fjárhæð.

4 Þjónninn skuldaði konungi sínum jafnvirði 60 milljón daglauna verkamanns en konungur felldi niður skuldina. Skömmu síðar rakst þjónninn á samþjón sinn sem skuldaði honum jafnvirði 100 daglauna. Sá síðarnefndi sárbændi hinn um að gefa sér greiðslufrest en sá sem hafði fengið háu skuldina gefna upp var ófús til þess og lét varpa samþjóni sínum í fangelsi. Konungur reiddist þegar hann frétti af þessu. „Bar þér þá ekki . . . að miskunna samþjóni þínum eins og ég miskunnaði þér?“ spurði hann. „Konungur varð reiður og afhenti hann böðlunum uns hann hefði goldið allt sem hann skuldaði honum.“ – Matt. 18:21-34.

Hver er kjarninn í þessari dæmisögu Jesú?

5 Hvað var Jesús að kenna með þessari dæmisögu? „Þannig mun og faðir minn himneskur gera við yður nema þér fyrirgefið af hjarta hvert öðru,“ sagði hann. (Matt. 18:35) Niðurstaðan er augljós. Við erum ófullkomin og drýgjum svo margar syndir á ævinni að það er greinilega vonlaust að við getum uppfyllt mælikvarða Jehóva. Hann er samt fús til að fyrirgefa okkur og fella niður syndaskuld okkar. Öllum sem þrá vináttu Jehóva ber því að fyrirgefa meðbræðrum sínum það sem þeim verður á. Jesús sagði þetta berum orðum í fjallræðunni: „Ef þér fyrirgefið mönnum misgjörðir þeirra þá mun og faðir yðar himneskur fyrirgefa yður. En ef þér fyrirgefið ekki öðrum mun faðir yðar ekki heldur fyrirgefa misgjörðir yðar.“ – Matt. 6:14, 15.

6. Af hverju er ekki alltaf auðvelt að fyrirgefa?

6 Þetta hljómar allt saman gott og blessað en það er nú hægara sagt en gert, segirðu kannski. Ástæðan er sú að tilfinningarnar ráða oft ferðinni hjá okkur þegar einhver gerir á hlut okkar. Við reiðumst ef til vill, finnst við hafa verið svikin, viljum að réttlátið nái fram að ganga eða langar jafnvel til að hefna okkar. Sumum líður eins og þeir geti aldrei fyrirgefið þeim sem gerði á hlut þeirra. Ef þér er þannig innanbrjósts, hvernig geturðu þá lært að fyrirgefa eins og Jehóva vill að þú gerir?

ÁTTAÐU ÞIG Á TILFINNINGUM ÞÍNUM

7, 8. Hvað getur auðveldað okkur að fyrirgefa ef einhver hefur komið illa fram við okkur?

7 Tilfinningaviðbrögðin geta verið afar sterk þegar einhver gerir á hlut okkar eða ef okkur finnst við hafa verið ranglæti beitt. Tökum sem dæmi viðbrögð ungs manns sem lýst er í fræðigrein um reiði: „Einu sinni gekk ég út úr húsinu . . . í reiðikasti og strengdi þess heit að snúa aldrei aftur. Þetta var fagur sumardagur og ég gekk langa leið eftir fallegum götum. Kyrrðin og fegurðin róuðu mig og sefuðu reiðina, og nokkrum stundum síðar sneri ég til baka iðrunarfullur og var næstum búinn að jafna mig.“ Eins og sjá má af þessu dæmi er gott að gefa sér tíma til að róa sig niður og horfa yfirvegað á málið. Það getur komið í veg fyrir að maður geri eitthvað sem maður sér eftir síðar. – Sálm. 4:5; Orðskv. 14:29; Jak. 1:19, 20.

8 En segjum nú að þú hafir gefið þér tíma til að róa þig niður en sért enn sár. Reyndu þá að átta þig á hvers vegna þú ert í uppnámi. Er það af því að einhver var ósanngjarn við þig eða jafnvel dónalegur? Eða heldurðu að viðkomandi hafi beinlínis ætlað sér að særa þig? Var þetta virkilega eins slæmt og þú ímyndar þér? Ef þér tekst að átta þig á hvers vegna þú bregst við eins og raun ber vitni hefurðu tækifæri til að íhuga hvernig best sé að bregðast við miðað við meginreglur Biblíunnar. (Lestu Orðskviðina 15:28; 17:27.) Það er auðveldara að fyrirgefa ef maður íhugar málið hlutlægt í stað þess að láta tilfinningarnar ráða ferðinni. Það er hægara sagt en gert að bregðast þannig við en með því að gera það skoðar þú „hugsanir og hugrenningar hjartans“ í ljósi Biblíunnar og það auðveldar þér að líkja eftir Jehóva og vera fús til að fyrirgefa. – Hebr. 4:12.

ÆTTIRÐU AÐ TAKA ÞAÐ NÆRRI ÞÉR?

9, 10. (a) Hvernig bregstu við ef þér finnst eitthvað gert á hlut þinn? (b) Hvaða áhrif hefur það að vera jákvæður og fús til að fyrirgefa?

9 Margt getur komið upp í lífinu sem reitir fólk til reiði. Segjum að það sé næstum ekið á þig úti í umferðinni. Hvernig bregstu við? Þú hefur eflaust lesið um svipuð atvik þar sem ökumaður reiðist svo heiftarlega að hann ræðst á hinn ökumanninn. Þar sem þú ert kristinn myndirðu auðvitað ekki gera neitt slíkt.

10 Það er miklu betra að gefa sér smástund til að gera sér grein fyrir því sem gerðist. Varstu ef til vill annars hugar og áttir sjálfur einhverja sök á því? Var kannski eitthvað að hinum bílnum? Kjarni málsins er sá að það er hægt að draga úr reiði, vonbrigðum og sárindum með því að vera skilningsríkur, víðsýnn og fús til að fyrirgefa. „Vertu ekki auðreittur til reiði því að gremja hvílir í brjósti heimskra manna,“ segir í Prédikaranum 7:9. Taktu hlutina ekki of nærri þér. Við ímyndum okkur oft að eitthvað sé gert á hlut okkar af ásettu ráði en í rauninni er ekkert slíkt á ferðinni heldur má rekja það sem gerðist til ófullkomleika eða misskilnings. Reyndu að vera víðsýnn og hafa í huga að þú veist ekki alltaf hvað hinum gekk til. Vertu fús til að fyrirgefa. Þér líður betur ef þér tekst það. – Lestu 1. Pétursbréf 4:8.

FRIÐUR YKKAR HVERFI AFTUR TIL YKKAR

11. Hvernig ættum við að bregðast við óháð því hvernig fólk kemur fram við okkur í boðunarstarfinu?

11 Hvernig geturðu sýnt sjálfstjórn ef einhver er dónalegur við þig þegar þú ert í boðunarstarfinu? Þegar Jesús sendi út 70 boðbera sagði hann þeim að óska friðar hverju heimili sem þeir kæmu á. „Sé þar nokkurt friðarins barn mun friður yðar hvíla yfir því, ella hverfa aftur til yðar,“ sagði hann. (Lúk. 10:1, 5, 6) Það er ánægjulegt þegar fólk tekur vel á móti boðskap okkar því að þá getur það notið góðs af honum. En stundum eru viðbrögðin allt annað en vinsamleg. Hvað gerum við þá? Jesús sagði að friðurinn, sem við óskuðum öðrum, ætti að hverfa aftur til okkar. Við ættum að minnsta kosti að geta farið frá hverju heimili með frið í hjarta, óháð viðbrögðum fólks. Ef við komumst í uppnám þegar fólk kemur illa fram við okkur getum við ekki haft innri frið.

12. Hvað erum við hvött til að gera í Efesusbréfinu 4:31, 32?

12 Reyndu að halda ró þinni undir öllum kringumstæðum, ekki aðeins í boðunarstarfinu. Þó að þú sért fús til að fyrirgefa merkir það ekki að þú verðir að sætta þig við ranga hegðun annarra eða láta sem ekkert sé. Að fyrirgefa merkir þó að vera ekki gramur yfir því sem gert var á hlut þinn heldur hafa innri frið. Sumir geta ekki hætt að hugsa um það sem miður hefur farið og hve illa hafi verið komið fram við sig. Þannig láta þeir aðra ræna sig gleðinni. Láttu ekki slíkar hugsanir ná tökum á þér. Mundu að þú getur ekki verið ánægður ef þú elur með þér gremju. Vertu því fús til að fyrirgefa. – Lestu Efesusbréfið 4:31, 32.

GERÐU EINS OG JEHÓVA VILL AÐ ÞÚ GERIR

13. (a) Hvernig getur kristinn maður safnað „glóðum elds“ á höfuð óvini sínum? (b) Hverju geturðu hugsanlega komið til leiðar með því að svara mildilega?

13 Verið getur að einhver utan safnaðarins hafi gert á hlut þinn. Ef til vill geturðu þá vakið áhuga hans á boðskap Biblíunnar. Páll postuli skrifaði: „,Ef óvin þinn hungrar þá gef honum að eta, ef hann þyrstir þá gef honum að drekka. Með því að gera þetta safnar þú glóðum elds á höfuð honum.‘ Lát ekki hið illa sigra þig en sigra þú illt með góðu.“ (Rómv. 12:20, 21) Með því að halda ró þinni þegar aðrir koma illa fram geturðu ef til vill kallað fram hið góða í fari þeirra. Hugsanlegt er að þú getir hjálpað þeim að kynnast sannleika Biblíunnar með því að setja þig í spor þeirra og sýna þeim skilning og jafnvel umhyggju. Ef þú svarar mildilega gefurðu þeim að minnsta kosti tækifæri til að taka eftir góðri breytni þinni. – 1. Pét. 2:12; 3:16.

14. Af hverju ættirðu ekki að ala með þér gremju þó að einhver hafi farið mjög illa með þig?

14 Í vissum tilvikum er ekki við hæfi að umgangast ákveðið fólk. Í þeim hópi er fólk, sem þjónaði Jehóva einu sinni en syndgaði, iðraðist ekki og var vikið úr söfnuðinum. Ef einhver í þeim hópi hefur sært þig getur verið ákaflega erfitt að fyrirgefa honum, jafnvel þótt hann iðrist, því að tilfinningalegu sárin geta verið lengi að gróa. Þá skaltu halda áfram að biðja Jehóva að hjálpa þér að fyrirgefa þeim sem gerði á hlut þinn en iðrast nú. Þú veist ekki hvað býr í hjarta annarrar manneskju en Jehóva veit það. Hann rannsakar innstu tilhneigingar mannsins og er þolinmóður við þá sem brjóta boð hans. (Sálm. 7:10; Orðskv. 17:3) Þess vegna segir í Biblíunni: „Gjaldið engum illt fyrir illt. Stundið það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna. Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á ykkar valdi. Leitið ekki hefnda sjálf, mín elskuðu, látið reiði Guðs um að refsa eins og ritað er: ,Mín er hefndin, ég mun endurgjalda,‘ segir Drottinn.“ (Rómv. 12:17-19) Við erum ekki þess umkomin að dæma aðra. (Matt. 7:1, 2) Þú mátt hins vegar treysta að Jehóva sé réttlátur.

15. Hvað getur hjálpað okkur að sjá í réttu ljósi þá sem gera á hlut okkar?

15 Ef þér finnst þú hafa verið ranglæti beittur og átt erfitt með að fyrirgefa hinum brotlega þótt hann iðrist er gott að hafa hugfast að hann er líka fórnarlamb. Hann á einnig við að glíma ófullkomleikann sem allir hafa tekið í arf. (Rómv. 3:23) Jehóva ber umhyggju fyrir öllum ófullkomnum mönnum. Þess vegna er viðeigandi að biðja fyrir hinum brotlega. Það er ólíklegt að við getum verið reið lengi við manneskju sem við biðjum fyrir. Og ljóst er af orðum Jesú að við ættum ekki að ala með okkur gremju í garð þeirra sem koma illa fram við okkur. „Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður,“ sagði hann. – Matt. 5:44.

16, 17. Hvernig ættirðu að bregðast við ef öldungar safnaðarins meta það svo að syndari iðrist? Hvers vegna?

16 Öldungar safnaðarins hafa fengið það verkefni frá Jehóva að ganga úr skugga um hvort þeir sem drýgja alvarlega synd iðrist. Þeir vita ekki allt sem Guð veit um málið en þeir reyna að byggja ákvarðanir sínar á þeim leiðbeiningum sem er að finna í Biblíunni og hún er skrifuð undir leiðsögn heilags anda. Öldungarnir leita líka leiðsagnar Jehóva í bæn. Þess vegna endurspegla ákvarðanir þeirra í slíkum málum sjónarmið hans. – Matt. 18:18.

Þjónar Guðs verða að vera fúsir til að fyrirgefa.

17 Hollusta skiptir miklu máli í slíkum tilvikum. Geturðu fyrirgefið og sýnt hinum brotlega kærleika ef öldungarnir meta það svo að hann iðrist? (2. Kor. 2:5-8) Það getur verið þrautin þyngri, ekki síst ef synd hans hefur komið niður á þér eða nánum ættingja þínum. En þú breytir viturlega ef þú treystir á Jehóva og þá leið sem hann hefur valið til að taka á málinu í söfnuðinum. Þá sýnirðu að þú sért fús til að fyrirgefa. – Orðskv. 3:5, 6

18. Hvaða blessun fylgir því að vera fús til að fyrirgefa?

18 Sálfræðingar og geðlæknar benda á að það sé fólki til góðs að vera fúst til að fyrirgefa. Það losar um innibyrgðar og jafnvel lamandi tilfinningar sem eru skaðlegar heilsunni, og það stuðlar að góðum samskiptum við aðra. Ef við erum ekki fús til að fyrirgefa getur það hins vegar valdið streitu, heilsuleysi, stirðum samskiptum og vinaslitum. Verðmætasta blessunin, sem við hljótum ef við erum fús til að fyrirgefa, er þó sú að eiga gott samband við Jehóva, föður okkar á himnum. – Lestu Kólossubréfið 3:12-14.