Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Farsælt fjölskyldulíf

Þegar barnið þitt efast um trúna sem þú kenndir því

Þegar barnið þitt efast um trúna sem þú kenndir því

Margir unglingar kjósa að fylgja sömu trú og foreldrar þeirra þegar þeir vaxa úr grasi. (2. Tímóteusarbréf 3:14) Það á þó ekki við um alla. Hvað geturðu tekið til bragðs ef barnið þitt fer að efast um trúna sem þú kenndir því? Í þessari grein er rætt um hvernig vottar Jehóva takast á við slíka áskorun.

„Ég vil ekki fylgja trú foreldra minna lengur. Mig langar bara til að hætta.“ – Cora, 18 ára. *

ÞIÐ eruð sannfærð um að trú ykkar kenni sannleikann um Guð. Þið trúið því í einlægni að Biblían hafi bestu leiðbeiningarnar fyrir lífið. Það er því eðlilegt að þið reynið að kenna barninu ykkar sömu lífsgildi og þið fylgið. (5. Mósebók 6:6, 7) En hvað getið þið gert ef barnið missir áhugann á andlegum málum þegar það vex og þroskast? Hvað ef það fer að draga í efa trúna sem það virtist meðtaka svo vel þegar það var yngra? – Galatabréfið 5:7.

Ef þetta er staðan í þinni fjölskyldu skaltu ekki hugsa sem svo að þér hafi mistekist uppeldið. Það getur fleira búið að baki eins og við munum sjá. Mundu samt að viðbrögð þín við efasemdum unglingsins geta haft áhrif á það hvort hann tileinki sér trú þína eða fjarlægist hana enn frekar. Ef þú segir unglingnum stríð á hendur áttu í vændum erfiða baráttu. Og það er næsta víst að þú munir tapa henni. – Kólossubréfið 3:21.

Það er mun vænlegra til árangurs að fylgja ráðum Páls postula. Hann sagði: „Þjónn Drottins á ekki að eiga í ófriði heldur á hann að vera ljúfur við alla, góður fræðari, þolinn í þrautum.“ (2. Tímóteusarbréf 2:24) Hvernig geturðu reynst „góður fræðari“ ef unglingurinn dregur trúna, sem þú kenndir honum, í efa?

Sýndu góða dómgreind

Til að byrja með skaltu reyna að koma auga á hvað liggur að baki skoðunum unglingsins:

  • Er hann einmana og á enga vini í söfnuðinum? „Mig langaði til að eignast vini og vingaðist þess vegna við nokkra skólafélaga. Það hindraði mig í mörg ár að eignast náið samband við Guð. Ég missti áhuga á andlegum málum, aðallega vegna þess að ég var í slæmum félagsskap. Ég sé eftir mörgu núna.“ – Lenore, 19 ára.

  • Skortir hann sjálfstraust og á erfitt með að tala um trú sína? „Þegar ég var í skóla átti ég erfitt með að vitna um trú mína fyrir skólafélögunum. Ég óttaðist að þeir myndu álíta mig skrítinn eða kalla mig ,englabarn‘. Þeir ýttu frá sér krökkum sem voru eitthvað öðruvísi og ég vildi ekki að það kæmi fyrir mig.“ – Ramón, 23 ára.

  • Óar hann við ábyrgðinni sem fylgir því að lifa eftir Biblíunni? „Mér finnst eins og loforð Biblíunnar um eilíft líf sé efst uppi í háum stiga og ég er ekki einu sinni komin á fyrsta þrepið. Ég er ótrúlega langt í burtu. Það er svo ógnvekjandi tilhugsun að klifra upp stigann að ég hef hugleitt að gefast upp á trúnni.“ – Renee, 16 ára.

Ræðið málin

Hugleiddu hvað það er sem barnið þitt er að kljást við. Best er að spyrja það beint. Gættu þess samt að láta ekki umræðurnar breytast í rifrildi. Fylgdu heldur áminningunni í Jakobsbréfinu 1:19: „Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði.“ Ekki gefast upp. Vertu þolinmóður þegar þú fræðir barnið þitt eins og þú myndir vera við fólk utan fjölskyldunnar. – 2. Tímóteusarbréf 4:2.

Segjum sem svo að unglingurinn færist undan því að mæta á safnaðarsamkomur. Reyndu þá að finna út hvað sé að angra hann. En vertu samt þolinmóður. Foreldrinu í eftirfarandi dæmi verður ekki mikið ágengt:

Unglingurinn: Ég vil ekki fara með á samkomurnar lengur.

Pabbinn: [reiðilega] Hvað meinarðu með að þú viljir ekki koma með?

Unglingurinn: Mér finnst það bara leiðinlegt.

Pabbinn: Er það þannig sem þú lítur á Guð? Finnst þér hann leiðinlegur? Það er bara verst fyrir sjálfan þig. Eins lengi og þú býrð hér kemurðu með okkur – hvort sem þér líkar betur eða verr.

Guð ætlast til þess að foreldrar fræði börnin um hann og að börnin hlýði foreldrunum. (Efesusbréfið 6:1) En þú vilt auðvitað að unglingurinn geri meira en að fylgja þér af gömlum vana og komi með þér á safnaðarsamkomur af illri nauðsyn. Auðvitað væri langbest að hugur fylgdi máli og að hann hefði áhuga á trúnni.

Þú átt auðveldara með að ná til hans ef þú reynir að skilja hvað hann er að hugsa og sjá hvaða áhrif það hefur á hann. Hugsaðu um samtalið hér á undan. Hefði ekki verið hægt að ná betri árangri ef þetta hefði verið haft í huga?

Unglingurinn: Ég vil ekki að fara með á samkomurnar lengur.

Pabbinn: [mildilega] Af hverju langar þig ekki lengur til þess?

Unglingurinn: Mér finnst það bara leiðinlegt.

Pabbinn: Það getur verið leiðinlegt að sitja kyrr í einn eða tvo klukkutíma. En hvað finnst þér erfiðast við það?

Unglingurinn: Ég veit það ekki. Ætli mig langi bara nokkuð að vera þar.

Pabbinn: Hugsa vinir þínir líka svona?

Unglingurinn: Það er málið. Ég á enga vini lengur. Síðan besti vinur minn flutti finnst mér ég ekki geta talað við neinn. Ég er svo einmana en allir hinir eru að gera eitthvað skemmtilegt.

Pabbinn í dæminu fær unglinginn til að tjá sig og nær þannig að komast að því hvað býr að baki, að hann er einmana. En hann byggir einnig upp traust hjá honum og heldur opinni leið að frekari umræðum. – Sjá rammann  „Verið þolinmóð“.

Með tímanum komast margir unglingar að því að takist þeir á við það sem hindrar þá í að dafna í trúnni bera þeir yfirleitt meiri virðingu fyrir sjálfum sér og trú sinni. Tökum sem dæmi Ramón sem var nefndur fyrr í greininni. Hann óaði við tilhugsuninni að vera þekktur sem vottur Jehóva í skólanum. Hann komst að raun um að það var alls ekki eins hættulegt og hann ímyndaði sér að tala við aðra um trú sína, ekki einu sinni þegar aðrir gerðu grín að honum. Hann segir:

„Einu sinni var strákur í skólanum að gera grín að mér út af trúnni. Ég varð mjög stressaður og fann að allir í bekknum voru að hlusta. Þá ákvað ég að snúa dæminu við og spyrja hann um trú hans. Það kom mér á óvart að hann var miklu stressaðri en ég. Þá fattaði ég að margt ungt fólk hefur einhverja trú en skilur hana samt ekki. Ég get að minnsta kosti útskýrt mína trú. Í rauninni eru það bekkjarfélagar mínir sem ættu að fara hjá sér þegar þeir tala um trú sína en ekki ég.“

PRÓFIÐ ÞETTA: Spyrðu unglinginn spurninga til að komast að því hvernig honum finnst að vera vottur Jehóva. Hvaða kosti sér hann við það? Hverjar eru hindranirnar? Vega kostirnir þyngra en ókostirnir? Hvernig þá? (Markús 10:29, 30) Hann gæti notað tvo dálka til að skrifa niður kostina og ókostina. Að meta kostina á þennan hátt getur hjálpað honum að átta sig á hvað hann vill og hvernig hann geti yfirstigið hindranirnar.

Rökhugsun unglinga

Bæði foreldrar og sérfræðingar hafa séð marktækan mun á því hvernig börn hugsa og hvernig unglingar hugsa. (1. Korintubréf 13:11) Í hugum barna eru hlutirnir yfirleitt einfaldir og skýrir en unglingar hugsa málin gjarnan dýpra og sjá hlutina frá fleiri sjónarhornum. Til dæmis er hægt að kenna barni að Guð hafi skapað alla hluti. (1. Mósebók 1:1) En unglingurinn er kannski að glíma við vangaveltur eins og þessar: Hvernig get ég vitað að Guð sé til? Hvers vegna leyfir elskuríkur Guð illskuna? Hvernig getur Guð alltaf hafa verið til? – Sálmur 90:2.

Kannski finnst þér það merki um afturför að barnið þitt skuli vera með slíkar vangaveltur um trú sína. En í rauninni getur það vel verið merki um framför. Að draga hlutina í efa getur verið mikilvægur þáttur í andlegum þroska kristins manns. – Postulasagan 17:2, 3.

Unglingurinn er líka að læra að beita rökhugsun sinni. (Rómverjabréfið 12:1, 2) Þannig getur hann skilið hver sé „víddin og lengdin, hæðin og dýptin“ í kristinni trú. Nú skilur hann hlutina á annan hátt en hann gerði sem barn. (Efesusbréfið 3:18) Þess vegna er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að hjálpa unglingnum að finna rök fyrir trú sinni svo hann verði sannfærður um hana. – Orðskviðirnir 14:15; Postulasagan 17:11.

PRÓFIÐ ÞETTA: Skoðaðu ýmis grundvallaratriði upp á nýtt með unglingnum, ýmislegt sem þið tókuð sem sjálfsögðum hlut áður. Fáðu hann til að spyrja sig: Hvað sannfærir mig um að Guð sé til? Hvaða sönnun hef ég fyrir því að Guði þyki vænt um mig? Hvers vegna finnst mér það alltaf vera fyrir bestu að hlýða lögum Guðs? Varastu að þröngva skoðunum þínum upp á unglinginn. Hjálpaðu honum heldur að byggja upp eigin sannfæringu. Þá á hann auðveldara með að treysta henni.

Sannfæring fyrir trúnni

Í Biblíunni er talað um ungan mann að nafni Tímóteus. Hann hafði „frá blautu barnsbeini þekkt heilagar ritningar“. Samt hvatti Páll postuli hann: „Halt þú stöðuglega við það sem þú hefur numið og hefur fest trú á.“ (2. Tímóteusarbréf 3:14, 15) Barnið þitt hefur kannski fengið biblíufræðslu allt frá fæðingu eins og Tímóteus. Núna reynir á þig að sannfæra það svo að það geti þroskað með sér sínar eigin trúarskoðanir.

Í bókinni Spurningar unga fólksins – svör sem duga, 1. bindi (á ensku) stendur: „Eins lengi og unglingurinn býr heima geturðu gert kröfu til þess að hann fylgi andlegum venjum fjölskyldunnar. Markmiðið er þó að hann fari að elska Guð frekar en að hann fylgi reglum af skyldukvöð.“ Ef þú hefur það í huga geturðu hjálpað unglingnum að verða ,stöðugur í trúnni‘ svo að trúin verði lífsstefna hans sjálfs – ekki bara þín. * – 1. Pétursbréf 5:9.

^ gr. 4 Nöfnum hefur verið breytt.

^ gr. 40 Nánari upplýsingar er að finna í Varðturninum, júlí-september 2009, bls. 18-20, og Spurningar unga fólksins – svör sem duga, 1. bindi (á ensku), bls. 315-318.

SPYRÐU ÞIG . . .

  • Hvernig bregst ég við þegar barnið mitt efast um trúna sem ég kenndi því?

  • Hvernig get ég notað efni greinarinnar til að bregðast betur við vangaveltum unglingsins?