Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

FORSÍÐUEFNI | LÍF EFTIR DAUÐANN – ER ÞAÐ MÖGULEGT?

Eiga látnir einhverja von?

Eiga látnir einhverja von?

Geta hinir látnu lifað á ný?

SVAR BIBLÍUNNAR: „Sú stund kemur þegar allir þeir sem í gröfunum eru munu heyra raust [Jesú] og ganga fram.“ – Jóhannes 5:28, 29.

Með þessum orðum sagði Jesús fyrir um þann tíma þegar sameiginleg gröf mannkyns, eða dánarheimar, verður tæmd. Það verður undir stjórn hans í Guðsríki. „Þegar ég las Jóhannes 5:28, 29 í fyrsta sinn varð ég steinhissa,“ segir Fernando sem minnst var á í greininni á undan. „Ég eignaðist raunverulega von og fór að líta framtíðina bjartari augum.“

Job, sem var trúfastur maður til forna, vænti þess að um síðir myndi Guð reisa hann upp frá dauðum. Job spurði: „Þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur?“ Síðan sagði hann fullur trúartrausts: „Þá skyldi ég þreyja alla daga herþjónustu minnar [í dánarheimum], þar til er lausnartíð mín kæmi. Þú mundir kalla, og ég – ég mundi svara þér.“ – Jobsbók 14:14, 15, Biblían 1981.

Upprisa Lasarusar gefur okkur von fyrir framtíðina.

Mörtu, systur Lasarusar, var vel kunnugt um upprisuna. Eftir að Lasarus dó sagði Jesús við hana: „Bróðir þinn mun upp rísa.“ Marta svaraði: „Ég veit að hann rís upp í upprisunni á efsta degi.“ Jesús sagði þá við hana: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi.“ (Jóhannes 11:23-25) Síðan reisti hann Lasarus upp til lífs. Þessi hrífandi frásaga gefur okkur innsýn í enn stærri atburði sem munu eiga sér stað í framtíðinni. Hugsaðu þér! Um allan heim á fólk eftir að rísa upp til lífs á ný.

Verða einhverjir reistir upp til himna?

SVAR BIBLÍUNNAR: Í orði Guðs kemur fram að upprisa Jesú var ólík upprisu þeirra átta einstaklinga sem Biblían greinir einnig frá. Þeir voru reistir upp til lífs hér á jörð. En um upprisu Jesú Krists segir: „[Hann] steig upp til himna, situr Guði á hægri hönd.“ (1. Pétursbréf 3:21, 22) En átti aðeins Jesús að fá upprisu til himna? Hann hafði sagt við postulana: „Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er.“ – Jóhannes 14:3.

Kristur steig upp til himna og undirbjó komu sumra lærisveina sinna. Þeir sem fá upprisu til himna verða að lokum 144.000 talsins. (Opinberunarbókin 14:1, 3) En hvað munu þessir nánu fylgjendur Jesú gera þar?

Þeir munu hafa nóg fyrir stafni. Í Biblíunni segir: „Sælir og heilagir eru þeir sem eiga hlut í fyrri upprisunni. Yfir þeim hefur hinn annar dauði ekki vald heldur munu þeir vera prestar Guðs og Krists og ríkja með honum um þúsund ár.“ (Opinberunarbókin 20:6) Þeir sem verða reistir upp til himna ríkja með Kristi sem konungar og prestar yfir jörðinni.

Hverjir verða reistir upp eftir það?

SVAR BIBLÍUNNAR: Í Biblíunni eru þessi innblásnu orð Páls postula skráð: „Þá von hef ég til Guðs, sem þeir og sjálfir hafa, að upp muni rísa bæði réttlátir og ranglátir.“ – Postulasagan 24:15.

Orð Guðs fullvissar okkur um að milljarðar manna, sem hafa dáið, muni lifa á ný.

Hverjir tilheyra þeim hópi sem Páll kallar ,réttláta‘? Skoðum dæmi. Þegar líða tók á ævi Daníels, sem var trúfastur maður, var honum sagt: „Gakk þú til hvíldar. Þú munt rísa upp og taka við hlut þínum við endalok daganna.“ (Daníel 12:13) Hvar verður Daníel þegar hann vaknar upp af dauðasvefninum? Í Sálmi 37:29 segir: „Réttlátir fá landið til eignar og búa þar ævinlega.“ Og Jesús sagði: „Sælir eru hógværir því að þeir munu jörðina erfa.“ (Matteus 5:5) Daníel og aðrir trúfastir menn og konur verða reist upp til lífs á ný hér á jörð – þá til eilífs lífs.

Hverjir tilheyra þeim hópi sem Páll kallar ,rangláta‘? Það eru milljarðar manna sem hafa dáið, margir án þess að hafa fengið tækifæri til að skilja sannleika Biblíunnar og fylgja leiðbeiningum hennar. Þegar þeir hafa verið reistir upp geta þeir kynnst Jehóva * og Jesú og lært að meta þá. (Jóhannes 17:3) Allir sem kjósa að þjóna Guði eiga þá fyrir sér að lifa eins lengi og Jehóva sjálfur, það er að segja að eilífu.

Allir sem kjósa að þjóna Guði eiga fyrir sér að lifa að eilífu við fullkomna heilsu og hamingju.

Hvernig verður lífið á jörðinni?

SVAR BIBLÍUNNAR: Guð „mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til.“ (Opinberunarbókin 21:4) „Menn munu reisa hús og búa í þeim, planta víngarða og neyta ávaxta þeirra.“ – Jesaja 65:21.

Ímyndaðu þér hvernig verður að búa við slíkar aðstæður ásamt ástvinum þínum sem hafa verið reistir upp til lífs. En þér er kannski spurn hvernig þú getir verið viss um að upprisan verði að veruleika.

^ gr. 15 Jehóva er nafn Guðs samkvæmt frummálum Biblíunnar.