Hoppa beint í efnið

Hvað segir Biblían um heimsfaraldra?

Hvað segir Biblían um heimsfaraldra?

Svar Biblíunnar

 Biblían spáði því að drepsóttir (útbreiddar farsóttir, meðal annars heimsfaraldrar) myndu geysa á síðustu dögum. (Lúkas 21:11) Slíkir faraldrar eru ekki refsing frá Guði. Fyrir atbeina ríkis síns ætlar Guð bráðlega að binda enda á öll heilsuvandamál, þar með talið heimsfaraldra.

 Spáði Biblían fyrir um heimsfaraldra?

 Biblían segir ekki fyrir um tiltekna heimsfaraldra eða farsóttir svo sem COVID-19, alnæmi eða spænsku veikina, en hún spáir ,drepsóttum‘. (Lúkas 21:11; Opinberunarbókin 6:8) Drepsóttir eru hluti táknsins um ,síðustu daga‘ eða „lokaskeið þessarar heimsskipanar“. – 2. Tímóteusarbréf 3:1; Matteus 24:3.

 Hefur Guð einhvern tíma refsað fólki með veikindum?

 Biblían greinir frá nokkrum tilvikum þar sem Guð refsaði fólki með veikindum. Hann sló til dæmis suma holdsveiki. (4. Mósebók 12:1–16; 2. Konungabók 5:20–27; 2. Kroníkubók 26:16–21) En þessi einangruðu tilvik voru ekki faraldrar sem gerðu engan greinarmun á saklausum og sekum. Þetta voru dómar gegn einstaklingum sem gerðu klárlega uppreisn gegn Guði.

 Eru faraldrar nútímans refsing frá Guði?

 Nei. Sumir halda því fram að Guð noti faraldra og önnur veikindi til að refsa fólki nú á dögum. Biblían styður það ekki. Hvernig vitum við það?

 Fyrst má nefna að þjónar Guðs, bæði fyrr og nú, hafa sumir hverjir átt við heilsubrest að stríða. Hinn trúfasti Tímóteus þjáðist til dæmis af ,tíðum veikindum‘. (1. Tímóteusarbréf 5:23) Biblían gefur hins vegar ekki til kynna að það hafi verið vegna vanþóknunar Guðs. Eins veikjast sumir trúir þjónar Guðs nú á dögum eða smitast af sjúkdómum. Þeir voru oft bara á röngum stað á röngum tíma. – Prédikarinn 9:11.

 Hitt er að Biblían kennir að tími Guðs til að refsa óguðlegum sé enn ókominn. Við lifum núna á ,degi björgunarinnar‘ – tímabili þar sem Guð býður öllum hlýlega að kynnast sér og bjargast. (2. Korintubréf 6:2) Hann gerir það meðal annars með boðun ,fagnaðarboðskaparins um ríkið‘ um allan heim. – Matteus 24:14.

 Taka heimsfaraldrar enda?

 Já. Biblían spáir því að fljótlega renni upp sá tími þegar enginn verði veikur. Guð ætlar að lækna öll mein undir stjórn ríkis síns. (Jesaja 33:24; 35:5, 6) Hann ætlar að gera að engu þjáningar, kvöl og dauða. (Opinberunarbókin 21:4) Og hann ætlar að vekja látna aftur til lífs svo að þeir geti búið við hestaheilsu hér á jörð við fullkomin skilyrði. – Sálmur 37:29; Postulasagan 24:15.

 Biblíuvers um veikindi

 Matteus 4:23: „[Jesús] fór síðan um alla Galíleu, kenndi í samkunduhúsunum, boðaði fagnaðarboðskapinn um ríkið og læknaði fólk af hvers kyns sjúkdómum og meinum.“

 Merking: Kraftaverk Jesú gefa innsýn í það sem Guðsríki áorkar brátt fyrir allt mannkynið.

 Lúkas 21:11: „Það verða ... drepsóttir.“

 Merking: Útbreidd veikindi eru hluti af tákninu um síðustu daga.

 Opinberunarbókin 6:8: „Ég sá fölhvítan hest og sá sem sat á honum hét Dauði. Gröfin fylgdi fast á hæla honum. Þeim var gefið vald ... til að drepa menn með ... drepsótt.“

 Merking: Spádómurinn um riddarana fjóra í Opinberunarbókinni gefur til kynna að heimsfaraldrar myndu geysa á okkar tímum.