Hoppa beint í efnið

Frásagan af Nóa og flóðinu mikla – er hún bara goðsögn?

Frásagan af Nóa og flóðinu mikla – er hún bara goðsögn?

Svar Biblíunnar

 Flóðið átti sér stað. Guð lét vatnsflóð koma yfir jörðina til að eyða vondu fólki en Nói átti að byggja örk til að gott fólk og dýr kæmust lífs af. (1. Mósebók 6:11–20) Við getum verið viss um að flóðið átti sér stað vegna þess að það er skráð í Biblíuna sem „er innblásin af Guði“. – 2. Tímóteusarbréf 3:16.

 Staðreynd eða goðsögn?

 Í Biblíunni kemur fram að Nói var raunverulegur maður og að flóðið átti sér stað. Þetta er ekki goðsögn eða þjóðsaga.

  •   Ritarar Biblíunnar trúðu því að Nói hefði verið til. Biblíuritararnir Esra og Lúkas voru til dæmis færir söguritarar og þeir nefndu Nóa í ættartölu Ísraelsþjóðarinnar. (1. Kroníkubók 1:4; Lúkas 3:36) Lúkas og Matteus skráðu einnig það sem Jesús sagði um Nóa og flóðið mikla. – Matteus 24:37–39; Lúkas 17:26, 27.

     Auk þess sögðu Esekíel spámaður og Páll postuli að Nói hefði verið réttlátur maður og gott fordæmi í að sýna trú. (Esekíel 14:14, 20; Hebreabréfið 11:7) Myndu þessir ritarar hvetja fólk til að hafa persónur í goðsögum sem fyrirmyndir? Það er augljóst að Nói og aðrir trúaðir menn og konur voru til og þess vegna eru þau fyrirmyndir til eftirbreytni. – Hebreabréfið 12:1; Jakobsbréfið 5:17.

  •   Biblían gefur nákvæmar upplýsingar um flóðið. Frásaga Biblíunnar um flóðið byrjar ekki á „einu sinni var“, líkt og þegar um ævintýri er að ræða. Biblían tiltekur hvaða ár, mánuð og dag atburðirnir gerðust sem tengdust flóðinu. (1. Mósebók 7:11; 8:4, 13, 14) Hún segir líka hversu stór örkin var sem Nói byggði. (1. Mósebók 6:15) Þessar nákvæmu upplýsingar sýna fram á að frásögn Biblíunnar um flóðið er af raunverulegum atburði en ekki goðsögn.

 Hvers vegna varð flóð?

 Í Biblíunni segir að ,illska mannanna hafi verið orðin mikil‘. (1. Mósebók 6:5) Jörðin var orðin „spillt í augum Guðs“ vegna ranglætis og kynferðislegs siðleysis. (1. Mósebók 6:11; Júdasarbréfið 6, 7)

 Biblían segir að þessi spilling hafi að miklu leyti orðið vegna þess að illir englar yfirgáfu stöðu sína á himni til að eiga kynmök við konur. Þær eignuðust síðan börn sem urðu risar og ollu mannkyninu miklum erfiðleikum og þjáningum. (1. Mósebók 6:1, 2, 4) Guð ákvað að útrýma illsku af jörðinni og gefa góðu fólki tækifæri til að byrja upp á nýtt. – 1. Mósebók 6:6, 7, 17.

 Vissi fólk að flóðið átti eftir að koma?

 Já. Guð sagði Nóa hvað myndi gerast. Hann sagði Nóa líka að til að komast lífs af þyrfti hann byggja örk fyrir sig og fjölskyldu sína og dýrin. (1. Mósebók 6:13, 14; 7:1–4) Nói varaði fólk við komandi eyðingu en það hunsaði viðvaranir hans. (2. Pétursbréf 2:5) Í Biblíunni segir: „Þeir gáfu engan gaum að því sem var að gerast fyrr en flóðið kom og sópaði þeim öllum burt.“ – Matteus 24:37–39.

 Hvernig leit örkin út sem Nói byggði?

 Örkin var stór ferköntuð kista eða kassi. Hún var um 133 metrar að lengd, 22 metrar á breidd og 13 metrar á hæð. a Örkin var úr góferviði og þakin tjöru að utan sem innan. Hún var á þremur hæðum og herbergi og básar á hverri hæð. Hurð var á annarri hliðinni og greinilega gluggar allan hringinn á efstu hæðinni. Að öllum líkindum hallaði þakið svo vatnið gæti runnið af því. – 1. Mósebók 6:14–16.

 Hversu lengi var Nói að smíða örkina?

 Það kemur ekki fram í Biblíunni hversu lengi Nói var að smíða örkina en það lítur út fyrir að það hafi tekið hann nokkra áratugi. Nói var rúmlega 500 ára þegar hann eignaðist frumburð sinn og 600 ára þegar flóðið skall á. b – 1. Mósebók 5:32; 7:6.

 Guð sagði Nóa að smíða örkina eftir að synir hans þrír voru uppkomnir og kvæntir, en það tók kannski 50 til 60 ár. (1. Mósebók 6:14, 18) Ef sú var raunin er rökrétt að áætla að það hafi tekið um 40 til 50 ár að ljúka smíði arkarinnar.

a Biblían gefur upp mælieiningar arkarinnar í álnum. „Í hebresku jafngilti alin 44,45 sentimetrum.“ – The Illustrated Bible Dictionary, endurskoðuð útgáfa, 3. hluti, bls. 1635.

b Lesa má um æviskeið fólks eins og Nóa í greininni: „Var fólk svona langlíft á biblíutímanum?“ í Varðturninum 1. janúar 2011.