Hoppa beint í efnið

Hvað merkir að vera „miskunnsamur Samverji“?

Hvað merkir að vera „miskunnsamur Samverji“?

Svar Biblíunnar

Sá sem hjálpar þeim sem þarf á aðstoð að halda er oft kallaður „miskunnsamur Samverji“. Hugmyndin kemur úr dæmisögu sem Jesús sagði til að sýna hvernig góð manneskja sýnir miskunn og hjálpar öðrum óháð því af hvaða bakgrunni eða þjóðerni hann er.

Í þessari grein

 Hvernig er dæmisagan um „miskunnsama Samverjann“?

Stutt útgáfa sögunnar sem Jesús sagði: Gyðingur ferðaðist frá Jerúsalem til Jeríkó. Á leiðinni var hann rændur, barinn og skilinn eftir dauðvona.

Gyðingur sem var prestur og annar trúarleiðtogi Gyðinga gengu fram hjá slösuðum manninum. Þótt þeir væru af sama þjóðerni og hann stoppuðu þeir ekki til að hjálpa honum.

Loks kom maður af öðru þjóðerni. Hann var Samverji. (Lúkas 10:33; 17:16–18) Fullur samúðar gerði Samverjinn að sárum mannsins. Síðan tók hann slasaða manninn og flutti hann á gistihús. Þar hjúkraði hann honum fram á næsta dag. Þá borgaði hann gestgjafanum fyrir að sjá um hann og bauðst til að sjá um allan aukakostnað ef til kæmi. – Lúkas 10:30–35.

 Hvers vegna sagði Jesús þessa dæmisögu?

Jesús sagði þessa sögu til að svara manni sem hélt að aðeins fólk af hans eigin kynþætti og trú væri náungar hans. Hann vildi kenna manninum mikilvægan lærdóm, að hann þyrfti að skilja að náungar hans væru ekki bara Gyðingar eins og hann. (Lúkas 10:36, 37) Þessi frásaga er hluti af Biblíunni til gagns öllum sem vilja gleðja Guð. – 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.

 Hver er lexían í dæmisögunni?

Dæmisagan kennir að náungakærleikur birtist í verki. Hann bregst við þörfum þess sem þjáist, burtséð frá því hver bakgrunnur, kynþáttur eða þjóðerni hans er. Góður maður gerir fyrir aðra það sem hann vill að þeir geri fyrir sig. – Matteus 7:12.

 Hverjir voru Samverjar?

Samverjar bjuggu á landsvæði norður af Júdeu. Á meðal þeirra voru afkomendur blandaðra hjónabanda Gyðinga og þeirra sem voru ekki Gyðingar.

Samverjar höfðu myndað sértrúarflokk á fyrstu öld. Þeir samþykktu fyrstu fimm bækur Hebresku ritninganna en höfnuðu venjulega öðrum bókum hennar.

Margir Gyðingar á dögum Jesú fyrirlitu Samverja og forðuðust samskipti við þá. (Jóhannes 4:9) Sumir notuðu orðið Samverji sem skammaryrði. – Jóhannes 8:48.

 Byggist sagan um „miskunnsama Samverjann“ á raunverulegum atburði?

Það er ekkert í Biblíunni sem staðfestir að dæmisagan um miskunnsama Samverjann sé byggð á raunverulegum atburði. En Jesús notaði oft vel þekkta siði og staði í kennslu sinni þannig að áheyrendur hans gátu auðveldlega skilið það sem hann vildi koma til skila.

Margt í umgjörð sögunnar er í samræmi við sögulegar staðreyndir. Sem dæmi:

  • Vegurinn frá Jerúsalem til Jeríkó var meira en 20 kílómetra langur og lækkunin 1.000 metrar. Frásagan greinir rétt frá því að þeir sem ferðuðust eftir honum fóru „frá Jerúsalem niður til Jeríkó“. – Lúkas 10:30.

  • Prestar og Levítar sem bjuggu í Jeríkó fóru reglulega um þennan veg.

  • Ræningjar földu sig oft meðfram afskekktum veginum og biðu eftir grunlausum ferðamönnum, sérstaklega þeim sem voru einir á ferð.