Hoppa beint í efnið

Hvað segir Biblían um að borga tíund?

Hvað segir Biblían um að borga tíund?

Svar Biblíunnar

 Ísraelsmenn til forna þurftu að gefa tíund a af árlegum tekjum sínum til að styðja sanna tilbeiðslu. Guð sagði við þá: „Á hverju ári skaltu taka tíund af allri uppskerunni sem akurinn gefur af sáðkorni þínu.“ – 5. Mósebók 14:22.

 Fyrirmælin um að borga tíund voru hluti af Móselögunum, lögunum sem Guð gaf Ísrael til forna. Kristnir menn eru lagalega ekki undir Móselögunum og þurfa því ekki að borga tíund. (Kólossubréfið 2:13, 14) Hver og einn kristinn maður á öllu heldur að gefa fjárframlög „eins og hann hefur ákveðið í hjarta sínu, ekki tilneyddur eða með tregðu, því að Guð elskar glaðan gjafara“. – 2. Korintubréf 9:7.

 Tíund í Biblíunni – Gamla testamentið

 Tíund er nokkrum sinnum nefnd í þeim hluta Biblíunnar sem oft er kallaður Gamla testamentið. Í flestum tilvikum er átt við tímann eftir að Ísraelsmönnum var fengið lögmálið (Móselögin) fyrir milligöngu Móse. En nokkur dæmi eru þó um að átt sé við tímann fyrir það.

Fyrir Móselögin

 Fyrsti maðurinn sem talað er um að hafi gefið tíund er Abram (Abraham). (1. Mósebók 14:18–20; Hebreabréfið 7:4) Tíund Abrams virðist hafa verið gjöf sem hann gaf honum sem var konungur og prestur í Salem einu sinni. Ekkert í Biblíunni bendir til að Abraham eða börn hans hafi gefið tíund aftur.

 Annar maðurinn sem Biblían talar um að hafi gefið tíund var Jakob sonarsonur Abrahams. Hann lofaði að gefa Guði „tíund af öllu“ sem hann fengi ef Guð myndi blessa hann. (1. Mósebók 28:20–22) Sumir biblíufræðingar telja að Jakob hafi borgað tíundina með dýrafórnum. Þó að Jakob hafi sjálfur gefið þetta heit þvingaði hann ekki aðra í fjölskyldu sinni til að borga tíund.

Undir Móselögunum

 Ísraelsmenn áttu að borga tíund til að styðja trúarstarfsemi sína.

  •   Tíundin var til að sjá fyrir Levítunum, þar á meðal prestunum, en þeir þjónuðu Guði í fullu starfi og áttu ekki eigið land til að rækta. (4. Mósebók 18:20, 21) Levítarnir sem voru ekki prestar fengu tíund frá fólkinu og gáfu prestunum besta „tíunda hlutann af tíundinni“. – 4. Mósebók 18:26–29.

  •   Svo virðist sem annarrar árlegrar tíundar hafi verið krafist sem var bæði fyrir Levíta og aðra. (5. Mósebók 14:22, 23) Ísraelsmenn notuðu þessa tíund í tengslum við sérstakar hátíðir og á vissum árum var tíundinni deilt með þeim sem bjuggu við mikla fátækt til að hjálpa þeim að sjá fyrir sér. – 5. Mósebók 14:28, 29; 26:12.

 Hvernig var tíundin reiknuð út? Ísraelsmenn tóku frá tíunda hluta þess sem landið gaf af sér árlega. (3. Mósebók 27:30) Ef þeir kusu að borga tíundina í peningum frekar en afurðum þurftu þeir að borga 20 prósentum meira. (3. Mósebók 27:31) Þeim var einnig skylt að gefa „tíund af stórgripum og sauðfé“, það er að segja tíund af fjölgun stórgripa eða sauðfjár. – 3. Mósebók 27:32.

 Ísraelsmenn tóku frá tíunda hvert dýr sem kom úr kvínni til að reikna út tíund búfjár síns. Í lögmálinu sagði að þeir ættu ekki að skoða þessi völdu dýr eða skipta á þeim og þeir gátu ekki heldur breytt tíund búfjár síns í peninga. (3. Mósebók 27:32, 33) En seinni tíundinni sem var ætluð fyrir árlegu hátíðirnar var hægt að skipta í peninga. Það gerði þeim Ísraelsmönnum auðveldara fyrir sem þurftu að ferðast langa vegalengd til að sækja hátíðirnar. – 5. Mósebók 14:25, 26.

 Hvenær gáfu Ísraelsmenn tíund? Ísraelsmenn gáfu tíund á hverju ári. (5. Mósebók 14:22) En sjöunda hvert ár var gerð undantekning. Það ár var hvíldarár og Ísraelsmenn ræktuðu ekki akra sína. (3. Mósebók 25:4, 5) Vegna þessara sérstöku aðstæðna var engri tíund safnað saman á uppskerutímanum. Þriðja og sjötta árið á sjö ára hvíldarárstímabili áttu Ísraelsmenn að deila seinni tíundinni með fátækum og Levítum. – 5. Mósebók 14:28, 29.

 Hver var refsingin fyrir að borga ekki tíund? Í Móselögunum var ekki tilgreind nein refsing fyrir að borga ekki tíund. Að gefa tíund var siðferðileg skylda. Ísraelsmenn áttu að skýra Guði frá því að þeir hefðu gefið tíund og biðja um blessun Guðs fyrir að hafa gert það. (5. Mósebók 26:12–15) Guð leit svo á að sá sem borgaði ekki tíund væri að stela frá honum. – Malakí 3:8, 9.

 Var tíundin mikil byrði? Nei. Guð lofaði þjóðinni að ef hún gæfi tíund myndi hann hella yfir hana óþrjótandi blessun. (Malakí 3:10) En þjóðin þjáðist þegar hún gaf ekki tíund. Hún hafði ekki lengur blessun Guðs og naut ekki góðs af vinnu prestanna og Levítanna því að hún hafði vanrækt þá. – Nehemíabók 13:10; Malakí 3:7.

 Tíund í Biblíunni – Nýja testamentið

 Tilbiðjendur Guðs áttu enn að borga tíund á meðan Jesús var maður á jörðinni. En sú krafa féll úr gildi eftir dauða Jesú.

Á tímum Jesú

 Í þeim hluta Biblíunnar sem oft er kallaður Nýja testamentið sjáum við að Ísraelsmenn héldu áfram að gefa tíund á meðan Jesús var á jörðinni. Hann viðurkenndi að það væri skylda þeirra að borga tíund en fordæmdi trúarleiðtogana sem borguðu tíund samviskusamlega en ,vanræktu það sem meira máli skiptir í lögunum, það er að segja réttlæti, miskunn og trúfesti‘. – Matteus 23:23.

Eftir dauða Jesú

 Það var ekki lengur skylda að borga tíund eftir að Jesús dó. Fórn Jesú lét Móselögin falla úr gildi, þar á meðal fyrirskipunina „að taka tíund af fólkinu“. – Hebreabréfið 7:5, 18; Efesusbréfið 2:13–15; Kólossubréfið 2:13, 14.

a Tíund er „tíundi hluti af tekjum manns sem tekinn er frá til sérstakrar notkunar … Venjulega þjónaði sú tíund sem nefnd er í Biblíunni trúarlegum tilgangi.“ – Harper’s Bible Dictionary, bls. 765.