Hoppa beint í efnið

Hvað segir Biblían um tungutal?

Hvað segir Biblían um tungutal?

Svar Biblíunnar

 Að „tala tungum“ vísar til þess að sumir kristnir menn á fyrstu öld gátu með krafti heilags anda talað erlend tungumál án þess að læra þau fyrst. (Postulasagan 10:46, neðanmáls) Sá sem þekkti viðkomandi tungumál gat auðveldlega skilið þann sem talaði. (Postulasagan 2:4–8) Tungutal var ein af gjöfum heilags anda sem Guð gaf sumum kristnum mönnum á fyrstu öld. – Hebreabréfið 2:4; 1. Korintubréf 12:4, 30.

 Hvar og hvenær byrjuðu menn að tala tungum?

 Þetta kraftaverk átti sér stað í fyrsta sinn að morgni hvítasunnuhátíðar Gyðinga árið 33. Um 120 lærisveinar Jesú voru saman komnir þegar „þeir fylltust allir heilögum anda og fóru að tala á öðrum tungumálum“. (Postulasagan 1:15; 2:1–4) Fjöldi fólks „frá öllum löndum undir himninum“ safnaðist saman og „hver og einn heyrði talað á sínu máli“. – Postulasagan 2:5, 6.

 Hver var tilgangurinn með tungutali?

  1.    Að sýna að kristnir menn hefðu velþóknun Guðs. Fyrr á tímum gerði Guð kraftaverk til að sýna að hann stæði við bakið á trúföstum mönnum, svo sem Móse. (2. Mósebók 4:1–9, 29–31; 4. Mósebók 17:25) Tungutalið þjónaði svipuðum tilgangi og sýndi að Guð studdi kristna söfnuðinn sem var nýstofnaður. Páll postuli skrifaði: „Gjöfin að tala önnur tungumál er ... ekki tákn fyrir þá sem trúa heldur hina vantrúuðu.“ – 1. Korintubréf 14:22.

  2.    Að gera kristnum mönnum kleift að boða trúna rækilega. Þeir sem hlustuðu á fylgjendur Jesú á hvítasunnudaginn sögðu: „Við heyrum þá tala á okkar tungumálum um stórfengleg verk Guðs.“ (Postulasagan 2:11) Önnur meginástæða fyrir þessu kraftaverki var því að gera kristnum mönnum kleift að boða trúna rækilega og gera „fólk af öllum þjóðum að lærisveinum“ eins og Jesús hafði boðið þeim. (Matteus 28:19; Postulasagan 10:42) Um 3.000 þeirra sem urðu vitni að kraftaverkinu og hlustuðu á boðskapinn gerðust lærisveinar þennan sama dag. – Postulasagan 2:41.

 Átti tungutal að vera til frambúðar?

 Nei. Gjafir heilags anda, þar á meðal tungutal, voru tímabundnar gjafir. Biblían sagði fyrir: „Spádómsgáfur munu taka enda, tungur þagna.“ – 1. Korintubréf 13:8.

 Hvenær hættu menn að tala tungum?

 Postularnir voru yfirleitt viðstaddir þegar aðrir kristnir menn fengu gjafir heilags anda, venjulega með því að postularnir lögðu hendur yfir þá. (Postulasagan 8:18; 10:44–46) Þeir sem fengu gjafir heilags anda frá postulunum virðast ekki hafa gefið þær áfram. (Postulasagan 8:5–7, 14–17) Lýsum þessu með dæmi: Opinber starfsmaður gefur einhverjum ökuleyfi en sá sem fékk það hefur ekki umboð til að gefa öðrum ökuleyfi. Tungutal leið greinilega undir lok með postulunum og þeim sem höfðu fengið þessa gjöf andans fyrir milligöngu þeirra.

 Hvað með tungutal nú á dögum?

 Tungutal tók augljóslega enda í kringum lok fyrstu aldar. Nú á dögum getur enginn með réttu haldið því fram að Guð gefi honum kraft til að tala tungum. a

 Á hverju þekkjast sannkristnir menn?

 Jesús sagði að fórnfús kærleikur myndi einkenna lærisveina sína. (Jóhannes 13:34, 35) Páll postuli kenndi einnig að kærleikurinn myndi vera einkenni sannkristinna manna til frambúðar. (1. Korintubréf 13:1, 8) Hann benti á að andi Guðs myndi kalla fram í fari kristinna manna eiginleika sem eru kallaðir „ávöxtur andans“ en þar er kærleikurinn nefndur fyrstur. – Galatabréfið 5:22, 23.

a Sjá greinina „Tilheyrir tungutalsgáfan sannri kristni?“