Hoppa beint í efnið

Leiðangur upp eftir ánni Maroni

Leiðangur upp eftir ánni Maroni

 Fólk af ýmsum ættbálkum, tungumálahópum og þjóðum býr í regnskógum Amason í Suður-Ameríku, langt frá ysi og þys borgarlífsins. Í júlí 2017 fór hópur 13 votta Jehóva í leiðangur upp eftir ánni Maroni og austanverðum þverám hennar í Frönsku Gvæjana. Hvert var markmið þeirra? Að boða fólki sem býr meðfram ánni vonarboðskap Biblíunnar.

Undirbúningur fyrir leiðangurinn

 Einum mánuði áður en haldið var í 12 daga leiðangurinn hittust allir á undirbúningsfundi. „Við lærðum ýmislegt um svæðið og sögu þess og ræddum einnig hvernig við ættum að undirbúa okkur fyrir ferðina,“ segir Winsley. Allir fengu vatnshelt ílát undir hengirúm og moskítónet. Í ferðinni var farið í tvær flugferðir og ferðast í marga klukkutíma í kanóum.

Claude og Lisette.

 Hvað fannst þeim sem fengu að fara um boðið? Claude og Lisette, sem eru komin á eftirlaunaaldur, gripu tækifærið. „Ég var himinlifandi en dálítið smeykur,“ segir Claude. „Ég hafði heyrt margt um hættulega strauma árinnar.“ Lisette hafði áhyggjur af einhverju allt öðru: „Ég velti fyrir mér hvernig ég gæti talað mál frumbyggja,“ segir hún.

 Mickaël hugsaði um það sama. „Við vissum ekki mikið um Wayana ættbálkinn,“ segir hann, „svo að ég leitaði að upplýsingum á netinu til að læra nokkur orð og geta heilsað fólki á þeirra tungumáli“.

 Shirley ferðaðist með Johanni, manni sínum. Hún gerði lista yfir þau tungumál sem eru töluð meðfram ánni. „Við hlóðum niðum myndböndum frá jw.org á flestum tungumálanna og útveguðum okkur einfalda orðabók á wayana,“ segir hún.

Koman á staðinn þar sem frumbyggjarnir búa

 Þriðjudaginn 4. júlí fór hópurinn um borð í flugvél í Saint-Laurent du Maroni sem flaug til Maripasoula, en það er lítill bær langt inni í landi í Frönsku Gvæjana.

 Á næstu fjórum dögum boðaði hópurinn trúna fyrir íbúum þorpanna ofarlega við ána Maroni og ferðuðust á rafknúnum kanóum sem kallast pirogues. „Okkur fannst frumbyggjarnir sýna mikinn áhuga á biblíulegum málefnum,“ segir Roland, einn úr hópnum. „Þeir eru með margar spurningar og sumir þeirra vildu að við aðstoðuðum þá við biblíunám.“

 Í einu þorpinu hittu Johann og Shirley ung hjón. Frænka konunnar hafði nýlega bundið enda á líf sitt. „Við sýndum þeim myndbandið Frumbyggi Ameríku finnur skapara sinn úr Sjónvarpi Votta Jehóva, segir Johann. „Myndbandið hafði djúpstæð áhrif á ungu hjónin. Þau létu okkur fá netfangið sitt af því að þau vildu halda sambandi við okkur.“

 Sá áfangastaður sem var lengst upp eftir ánni var Antécume Pata. Þar leifði þorpshöfðinginn vottunum, sem voru þreyttir, að hengja upp rúmin sín á almenningssvæði. Þeir böðuðu sig einnig í ánni eins og heimamenn gera.

 Þaðan fór hópurinn til þorpsins Twenké, en þar voru íbúarnir í sorg vegna ástvinamissis. „Ættarhöfðinginn leyfði okkur að fara um allt þorpið og hughreysta þá sem syrgðu,“ segir Éric, einn þeirra sem skipulagði leiðangurinn. „Höfðinginn og fjölskylda hans kunnu að meta ritningarstaðina sem við lásum fyrir þau úr Biblíunni á wayana. Við sýndum þeim líka myndbönd sem lýstu loforði Biblíunnar um upprisu.“

Áfram til Grand-Santi og Apatou

 Næst var farið í 30 mínútna flug niður eftir ánni frá Maripasoula til Grand-Santi, sem er lítill bær. Á þriðjudegi og miðvikudegi boðaði hópurinn íbúum á svæðinu boðskap Biblíunnar. Á fimmtudegi héldu vottarnir í enn eitt ferðalagið – fimm of hálfs tíma leið niður eftir ánni Maroni að þorpinu Apatou.

Áin Maroni og regnskógar Amason á milli Maripasoula og Grand-Santi.

 Á næstsíðasta degi leiðangursins heimsótti hópurinn skógarþorp Maroona, en þeir eru afkomendur afrískra þræla sem voru fluttir til Suður-Ameríku á þeim tíma sem Súrínam, nágrannaland Frönsku Gvæjana, var nýlenda. Vottarnir buðu öllum á samkomu í stóru tjaldi í skóginum sem var sett upp sérstaklega fyrir þennan viðburð. „Hjörtu okkar fylltust fögnuði þegar svo margt fólk kom,“ segir Claude. „Það fékk boðið þennan sama morgun!“ Karsten sem var í fyrsta leiðangrinum sínum svona langt inni í landi flutti opinberan fyrirlestur á aukan sem hét „Er þetta líf allt og sumt?“ Nítíu og einn frá nokkrum þorpum sótti samkomuna.

„Við erum tilbúin að fara aftur!“

 Að lokum sneri hópurinn aftur til Saint-Laurent du Maroni. Það voru allir í skýjunum yfir jákvæðum viðbrögðum íbúanna, en þeir þáðu fjöldann allan að ritum og horfðu á fjölmörg myndbönd sem gefin eru út af Vottum Jehóva.

 „Orð fá ekki lýst hve ánægð ég er að hafa farið í þennan leiðangur,“ segir Lisette. Cindy er henni sammála: „Ef ég fengi tækifæri til að fara aftur myndi ég sárbiðja um það. Maður verður að upplifa þessa gleði til að skilja hana!“

 Þessi leiðangur kveikti löngun hjá sumum úr hópnum til að snúa aftur. „Við erum tilbúin að fara aftur!“ segir Mickaël. Winsley er fluttur til Saint-Laurent du Maroni. Og Claude og Lisette, sem eru bæði á sjötugsaldri, ákváðu að flytjast til Apatou.