Hoppa beint í efnið

Hvers vegna halda vottar Jehóva ekki vissar hátíðir?

Hvers vegna halda vottar Jehóva ekki vissar hátíðir?

 Hvernig meta vottar Jehóva hvort þeir vilji halda ákveðna hátíð?

 Vottar Jehóva leita leiðsagnar í Biblíunni áður en þeir ákveða hvort þeir haldi ákveðna hátíð. Sumir helgidagar og hátíðahöld ganga augljóslega í berhögg við meginreglur Biblíunnar. Vottar Jehóva taka ekki þátt í slíkum hátíðum. Þegar um er að ræða aðrar hátíðir tekur hver vottur sína eigin ákvörðun og leggur sig fram um að „varðveita hreina samvisku frammi fyrir Guði og mönnum“. – Postulasagan 24:16.

 Hér á eftir eru nokkrar spurningar sem vottar Jehóva skoða þegar þeir meta hvort þeir vilji að halda ákveðna hátíð. a

  •   Á hátíðin rætur að rekja til óbiblíulegrar kenningar?

     Meginregla Biblíunnar: „,Farið því burt frá þeim og aðgreinið ykkur,‘ segir Jehóva, ,hættið að snerta það sem er óhreint‘.“ – 2. Korintubréf 6:15–17.

     Til að halda sér algerlega aðgreindum frá trúarlega óhreinum kenningum, það er að segja kenningum sem ganga í berhögg við Biblíuna, halda vottar Jehóva ekki hátíðir sem fela í sér eitthvað af eftirfarandi:

     Hátíðir sem eiga sér uppruna í trú á aðra guði eða tilbeiðslu á þeim. Jesús sagði: „Þú skalt tilbiðja Jehóva Guð þinn og honum einum skaltu veita heilaga þjónustu.“ (Matteus 4:10) Vottar Jehóva hlýða þessu boði og halda því ekki jól, páska eða 1. maí vorfagnað. b Þeir taka ekki heldur þátt í eftirfarandi hátíðum:

    •  Kwanzaa. Þetta heiti er „dregið af orðasambandinu matunda ya kwanza á svahílí sem þýðir ,frumgróði‘ og gefur til kynna að hátíðin eigi rætur að rekja til fyrstu uppskeruhátíða sem getið er um í sögu Afríku“. (Encyclopedia of Black Studies) Sumir álíta að kwanzaa sé ekki trúarleg hátíð. En alfræðibókin Encyclopedia of African Religion ber hana saman við afríska hátíð þar sem frumgróða er „fórnað guðunum og forfeðrunum í þakklætisskyni“. Bókin bætir við: „Afrísk-ameríska hátíðin kwanzaa einkennist af sömu löngun til að þakka forfeðrunum fyrir lífið.“

      Kwanzaa

    •  Kínverska tunglhátíðin (miðhausthátíðin). „Hátíðin er haldin til heiðurs tunglgyðjunni.“ (Holidays, Festivals, and Celebrations of the World Dictionary) Hún felur í sér helgisið þar sem „konurnar á heimilinu lúta gyðjunni“. – Religions of the World – A Comprehensive Encyclopedia of Beliefs and Practices.

    •  Nowruz (nauruz). „Sumir þættir þessarar hátíðar eiga sér uppruna í zaraþústratrú og eru bundnir við einn helgasta daginn í fornu dagatali hennar … Andi hádegisins, þekktur sem Rapithwin og talinn neyddur af Anda vetrarins til að dvelja neðanjarðar á köldum mánuðum ársins, var samkvæmt arfsögn zaraþústratrúar sérstaklega boðinn velkominn með hátíðahöldum um miðjan dag nowrus-hátíðarinnar.“ – Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO).

    •  Shab-e yalda. Samkvæmt bókinni Sufism in the Secret History of Persia er þessi vetrarsólstöðuhátíð „tvímælalaust tengd tilbeiðslunni á Míþrasi“, guði ljóssins. Sumir telja líka að hátíðin tengist tilbeiðslunni á rómverskum og grískum sólguðum. c

    •  Þakkargjörðarhátíð. Líkt og kwansaa á þessi hátíð rætur að rekja til fornra uppskeruhátíða sem voru haldnar til heiðurs ýmsum guðum. Með tímanum „voru þessar erfðavenjur teknar upp af kristnum kirkjum“. – A Great and Godly Adventure – The Pilgrims and the Myth of the First Thanksgiving.

     Hátíðir sem eiga sér uppruna í hjátrú eða því að treysta á happ eða lukku. Biblían segir að þeir sem ,setja borð fyrir heilladísina‘ hafi „yfirgefið Drottin“. (Jesaja 65:11, Biblían 1981) Vottar Jehóva taka þess vegna ekki þátt í eftirfarandi hátíðum:

    •  Ivan kupala. „Það er útbreidd skoðun að náttúran leysi dulræn öfl sín úr læðingi á [Ivan kupala-hátiðinni] og að beisla megi þessi öfl með því að vera hugrakkur og heppinn,“ segir í bókinni The A to Z of Belarus. Þetta var upphaflega heiðin hátíð til að fagna sumarsólstöðum. En eins og alfræðibókin Encyclopedia of Contemporary Russian Culture bendir á „rann hún saman við kirkjuhátíðina [Jónsmessu, fæðingarhátíð Jóhannesar skírara] eftir að kristni var innleidd“.

    •  Kínverskt nýár og kóreskt nýár. „Fjölskyldum, ættingjum og vinum er efst í huga á þessum tíma árs að tryggja sér heppni, heiðra guðina og andana og tjá óskir um gæfu á komandi ári.“ (Mooncakes and Hungry Ghosts – Festivals of China) Kóreskt nýár felur á svipaðan hátt í sér „forfeðradýrkun, helgisiði sem eiga að reka burt illa anda og tryggja heill á nýju ári og spásagnir til að meta hvað nýja árið beri í skauti sér“. – Encyclopedia of New Year’s Holidays Worldwide.

      Kínverskt nýár

     Hátíðir sem byggjast á þeirri trú að sálin sé ódauðleg. Biblían tekur skýrt fram að sálin getur dáið. (Esekíel 18:4, Biblían 1981) Vottar Jehóva halda þess vegna ekki hátíðirnar sem eru nefndar hér á eftir en þær ýta undir þá trú að sálin sé ódauðleg:

    •  Allrasálnamessa (dagur hinna dauðu). Þessi dagur er til „minningar öllum trúuðum sem hafa dáið,“ samkvæmt New Catholic Encyclopedia. „Á miðöldum var sú skoðun útbreidd að á þessum degi gætu sálir í hreinsunareldinum birst sem draugar, nornir, körtur og svo framvegis þeim sem gerðu á hlut þeirra meðan þær voru á lífi.“

    •  Qingming-hátíðin (ching ming) og draugahátíðin. Þessar tvær hátíðir eru haldnar til heiðurs forfeðrum. Í bókinni Celebrating Life Customs Around the World – From Baby Showers to Funerals segir um ching ming: „Mat, drykk og peningaseðlum er brennt til að koma í veg fyrir að hinir dánu séu svangir eða þyrstir, eða að þá vanti peninga.“ Bókin segir líka: „Þeir sem taka þátt í hátíðinni trúa að í draugamánuðinum, einkum og sér í lagi um nótt á fulli tungli, séu nánari tengsl en endranær milli hinna dánu og þeirra sem lifa og að það sé þar af leiðandi mikilvægt að gera ráðstafanir til að blíðka hina dánu og heiðra forfeðurna.“

    •  Chuseok. Að sögn The Korean Tradition of Religion, Society, and Ethics felur þessi hátíð í sér að „færa sálum hinna dánu mat og vín að fórn“. Fórnirnar endurspegla „þá trú að sálin lifi líkamsdauðann“.

     Hátíðir sem tengjast dulspeki. Biblían segir: „Á meðal ykkar má enginn finnast sem … leitar goðsvara með hlutkesti, enginn sem les óorðna atburði úr skýjum eða úr bikar, enginn galdramaður, enginn sem fer með særingar, leitar ráða hjá öndum eða spásagnarmönnum, enginn sem leitar úrskurðar hjá framliðnum. Því að hver sem stundar þetta er Drottni viðurstyggð.“ (5. Mósebók 18:10–12) Til að koma ekki nærri dulspeki í nokkurri mynd, þar á meðal stjörnuspám, halda vottar Jehóva hvorki hrekkjavöku né eftirfarandi hátíðir:

    •  Singalískt og tamílskt nýár. „Meðal helgisiða þessa viðburðar … er að gera viss verk á þeim tíma sem stjörnuspekingar telja vera rétta tímann.“ – Encyclopedia of Sri Lanka.

    •  Songkran. Heiti þessarar asísku hátíðar er „dregið af orði úr sanskrít sem þýðir ,hreyfing‘ eða ,breyting‘. [Hátíðin] boðar að sólin sé gengin inn í stjörnumerkið Hrútinn“. – Food, Feasts, and Faith – An Encyclopedia of Food Culture in World Religions.

     Hátíðahöld tengd tilbeiðslu undir Móselögunum sem féllu úr gildi með fórn Jesú. Biblían segir: „Lögin liðu undir lok með Kristi.“ (Rómverjabréfið 10:4) Kristnir menn hafa enn gagn af meginreglunum í Móselögunum sem voru gefin Ísraelsþjóðinni til forna. En þeir halda ekki hátíðirnar sem kveðið var á um í lögunum, ekki heldur þær sem vísa fram til Messíasar því að þeir trúa að hann sé þegar kominn fram. Biblían segir: „Þetta er skuggi þess sem átti að koma en Kristur er veruleikinn.“ (Kólossubréfið 2:17) Í ljósi þessa og vegna þess að óbiblíulegir siðir eru orðnir hluti af sumum þessara hátíða halda vottar Jehóva ekki eftirfarandi hátíðir:

    •  Hanúka. Hátíðin er haldin til minningar um endurvígslu musteris Gyðinga í Jerúsalem. En Biblían segir að Jesús sé orðinn æðstiprestur í „meiri og fullkomnari tjaldbúð [eða musteri] sem er ekki gerð með höndum manna, það er að segja er ekki af þessari sköpun“. (Hebreabréfið 9:11) Fyrir kristna menn kemur þetta andlega musteri í stað musterisins í Jerúsalem.

    •  Rosh hashana. Hátíðin er haldin á fyrsta degi ársins samkvæmt almanaki Gyðinga. Til forna var það þáttur í hátíðinni að færa Guði tilteknar fórnir. (4. Mósebók 29:1–6) En Jesús Kristur er hinn fyrirheitni Messías og hefur ,afnumið sláturfórn og matfórn‘ svo að þær hafa ekki lengur gildi í augum Guðs. – Daníel 9:26, 27.

  •   Hvetur hátíðin til samstarfs milli trúfélaga?

     Meginregla Biblíunnar: „Hvað á hinn trúaði sameiginlegt með vantrúuðum? Hvernig geta musteri Guðs og skurðgoð átt saman?“ – 2. Korintubréf 6:15–17.

     Vottar Jehóva leitast við að lifa í sátt við aðra og virða rétt allra til að ákveða hverju þeir vilja trúa. Þeir taka þó ekki þátt í eftirfarandi hátíðum sem ýta undir samstarf milli trúfélaga:

     Hátíðir til minningar um einstaklinga eða atburði sem hvetja til sameiginlegrar tilbeiðslu fólks með mismunandi trúarskoðanir. Þegar Guð leiddi fólk sitt til forna í nýtt land þar sem íbúarnir iðkuðu önnur trúarbrögð sagði hann: „Þú skalt eigi gjöra sáttmála við þá eða þeirra guði … ef þú dýrkar þeirra guði, mun það verða þér að tálsnöru.“ (2. Mósebók 23:32, 33, Biblían 1981) Þess vegna taka vottar Jehóva ekki þátt í eftirfarandi hátíðum:

    •  Loy krathong. Á þessari taílensku hátíð „býr fólk til skálar úr laufi, lætur kerti eða reykelsi í þær og setur þær síðan út á vatnið. Sagt er að þessir litlu bátar beri burt með sér ólán. Hátíðahöldin eru reyndar til minningar um heilagt fótspor Búdda“. – Encyclopedia of Buddhism.

    •  Iðrunardagur (national repentance day). Í dagblaðinu The National, sem er gefið út á Papúa Nýju-Gíneu, er vitnað í embættismann stjórnvalda sem segir að þeir sem taki þátt í þessum viðburði „séu sammála kristinni trú í meginatriðum“. Hann segir að þessi dagur „efli lífsreglur kristninnar í landinu“.

    •  Vesak. „Þessi dagur er heilagasti hátíðisdagur Búddista. Hann er til minningar um fæðingu, upplýsingu og dauða Búdda, þegar hann náði nirvana.“ – Holidays, Festivals, and Celebrations of the World Dictionary.

      Vesak

     Hátíðir sem eiga rætur að rekja til trúarlegra hefða en eiga sér enga stoð í Biblíunni. Jesús sagði við trúarleiðtogana: ,Þið hafið ógilt orð Guðs með erfikenningum ykkar.‘ Hann sagði líka að tilbeiðsla þeirra væri til einskis vegna þess að þeir kenndu „boðorð manna eins og trúarsetningar“. (Matteus 15:6, 9) Vottar Jehóva taka þessa viðvörun alvarlega. Þess vegna eru margar trúarlegar hátíðir sem þeir taka ekki þátt í.

    •  Þrettándi (epiphany-hátíðin eða timkat). d Þessi hátíðisdagur er til minnis um heimsókn stjörnuspekinganna þriggja til Jesú eða skírn Jesú. Hátíðin „kristnaði vissar vorhátíðir til heiðurs guðum rennandi vatns, áa og fljóta“. (The Christmas Encyclopedia) Timkat, sem er svipuð hátíð, „á sér djúpar rætur í erfðavenjum“. – Encyclopedia of Society and Culture in the Ancient World.

    •  Uppstigningardagur Maríu. Þessi hátíð endurspeglar þá trú að María hafi stigið upp til himna í holdlegum líkama sínum. Í bókinni Religion and Society – Encyclopedia of Fundamentalism segir: „Þessi trúarskoðun var óþekkt í frumkirkjunni og er ekki nefnd í Biblíunni.“

    •  Syndlaus getnaður Maríu. „Kenningin um syndlausan getnað [Maríu] á sér ekki stoð í Biblíunni … [Hún] er ályktun sem kirkjan hefur dregið.“ – New Catholic Encyclopedia.

    •  Langafasta. Að sögn New Catholic Encyclopedia er þetta tímabil iðrunar og föstu hefð sem var innleidd „á fjórðu öld“, meira en 200 árum eftir að ritun Biblíunnar lauk. Varðandi fyrsta dag föstunnar segir alfræðibókin: „Sú hefð að færa hinum trúuðu ösku á öskudegi hefur verið við lýði síðan kirkjuþingið í Benevento var haldið árið 1091.“

    •  Meskel (maskal). Þessi eþíópíska hátíð er til minnis um að „hinn sanni kross var fundinn (krossinn sem Jesús var krossfestur á)“, segir í Encyclopedia of Society and Culture in the Medieval World. Á hátíðinni eru „gerðar brennur sem fólk dansar í kringum“. Vottar Jehóva nota hins vegar ekki krossinn í tilbeiðslu sinni.

  •   Upphefur hátíðin fólk, samtök eða þjóðartákn?

     Meginregla Biblíunnar: „Svo segir Drottinn: Bölvaður er sá sem treystir mönnum og reiðir sig á styrk dauðlegra en hjarta hans víkur frá Drottni.“ – Jeremía 17:5.

     Vottar Jehóva láta í ljós að þeir kunna að meta náungann og biðja jafnvel fyrir öðrum en þeir taka ekki þátt í eftirfarandi viðburðum eða hátíðum:

     Hátíðir til heiðurs þjóðhöfðingja eða öðrum framámanni. „Hættið að treysta mönnum,“ segir Biblían. „Hverfulan lífsanda hafa þeir í nösum, hvers virði er hann?“ (Jesaja 2:22) Þess vegna halda vottar Jehóva til dæmis ekki upp á afmæli þjóðarleiðtoga.

     Fánahylling. Vottar Jehóva taka ekki þátt í fánahyllingu. Hvers vegna? Biblían segir: „Varið ykkur á skurðgoðum.“ (1. Jóhannesarbréf 5:21) Nú á dögum líta ef til vill fáir á fánann sem skurðgoð, nokkuð sem menn beina tilbeiðslu að, en sagnfræðingurinn Carlton J. H. Hayes skrifaði: „Fáninn er helsta tilbeiðslu- og trúartákn þjóðernishyggjunnar.“

     Fagnaður eða hátíðir sem upphefja dýrling. Hvað gerðist þegar guðhræddur maður féll fram fyrir Pétri postula? Biblían segir: „Pétur reisti hann á fætur og sagði: ,Stattu upp, ég er bara maður eins og þú.‘“ (Postulasagan 10:25, 26) Þar sem hvorki Pétur né nokkur annar af postulunum vildi þiggja sérstakan heiður eða lotningu taka vottar Jehóva ekki þátt í viðburðum til heiðurs þeim sem eru álitnir dýrlingar. Það á til dæmis við um eftirfarandi hátíðir:

    •  Allraheilagramessa. „Fagnaður til heiðurs öllum dýrlingum … Uppruni fagnaðarins er óþekktur.“ – New Catholic Encyclopedia.

    •  Hátíð Maríu mey frá Guadalupe. Hátíðin er til heiðurs „verndardýrlingi Mexíkó“ sem sumir telja vera Maríu móður Jesú. Hún er sögð hafa birst bónda fyrir kraftaverk árið 1531. – The Greenwood Encyclopedia of Latino Literature.

      Hátíð Maríu mey frá Guadalupe

    •  Nafndagur. „Nafndagur er hátíðardagur dýrlingsins sem einstaklingur er nefndur í höfuðið á, annaðhvort við skírn eða fermingu,“ segir í bókinni Celebrating Life Customs Around the World – From Baby Showers to Funerals. Bókin bætir við að „hátíðardagurinn sé með sterku trúarlegu ívafi“.

     Merkisdagar stjórnmála- og þjóðfélagshreyfinga. „Betra er að leita hælis hjá Drottni,“ segir Biblían, „en að treysta mönnum.“ (Sálmur 118:8, 9) Vottar Jehóva vilja sýna að þeir treysta Guði en ekki mönnum til að leysa vandamál heimsins. Þeir taka þess vegna ekki þátt í hátíðahöldum á alþjóðlegum degi ungmenna eða degi kvenna sem vekja athygli á pólitískum og samfélagslegum baráttumálum. Af sömu ástæðu taka þeir ekki þátt í hátíðum til minnis um endalok þrælahalds eða öðrum svipuðum hátíðum. Þess í stað treysta þeir að ríki Guðs leysi vandamál sem tengjast kynþáttafordómum og ójöfnuði. – Rómverjabréfið 2:11; 8:21.

  •   Upphefur hátíðin eina þjóð eða þjóðflokk yfir aðra?

     Meginregla Biblíunnar: „Guð mismunar ekki fólki heldur tekur hann á móti hverjum þeim sem óttast hann og gerir rétt, sama hverrar þjóðar hann er.“ – Postulasagan 10:34, 35.

     Þótt mörgum vottum Jehóva þyki vænt um föðurland sitt forðast þeir hátíðir sem upphefja þjóðir eða þjóðflokka með þeim hætti sem er lýst hér fyrir neðan:

     Merkisdagar hers. Jesús var ekki talsmaður hernaðar heldur sagði fylgjendum sínum: „Elskið óvini ykkar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja ykkur.“ (Matteus 5:44) Vottar Jehóva taka því ekki þátt í hátíðum til heiðurs hermönnum, þar á meðal eftirfarandi hátíðum:

    •  ANZAC-dagurinn. ANZAC er skammstöfun fyrir herafla Ástralíu og Nýja-Sjálands (Australian and New Zealand Army Corps). „ANZAC-dagurinn hefur smám saman tekið á sig mynd minningardags fyrir þá sem hafa fallið í bardaga.“ – Historical Dictionary of Australia.

    •  Minningardagur fyrrverandi hermanna (veterans day, remembrance day eða memorial day). Þessir hátíðisdagar eru til heiðurs „fyrrverandi hermönnum og þeim sem hafa fallið í stríðum landsins“. – Encyclopædia Britannica.

     Hátíðir til minnis um sögu eða sjálfstæði þjóðar. Jesús sagði um fylgjendur sína: „Þeir tilheyra ekki heiminum rétt eins og ég tilheyri ekki heiminum.“ (Jóhannes 17:16) Vottar Jehóva hafa áhuga á að læra um sögu þjóða en taka ekki þátt í eftirfarandi viðburðum:

    •  Australia Day. Samkvæmt Worldmark Encyclopedia of Cultures and Daily Life er þessi hátíð haldin til að minnast „dagsins árið 1788 þegar enskir hermenn drógu fána sinn að húni og lýstu yfir að Ástralía væri orðin nýlenda“.

    •  Guy Fawkes Day. Þessi dagur er „þjóðhátíðardagur til minnis um misheppnaða tilraun Guys Fawkes og annarra kaþólskra stuðningsmanna til að sprengja í loft upp bæði Jakob konung 1. og þinghús [Englands] árið 1605“. – A Dictionary of English Folklore.

    •  Fullveldisdagur. Í mörgum löndum er „opinber hátiðisdagur tileinkaður minningunni um daginn sem þjóðin fékk fullveldi“. – Merriam-Webster’s Unabridged Dictionary.

  •   Einkennist hátíðin af hömluleysi eða siðleysi?

     Meginregla Biblíunnar: „Það er nóg að þið hafið hingað til gert vilja þjóðanna meðan líferni ykkar einkenndist af blygðunarlausri hegðun, taumlausum losta, ofdrykkju, svallveislum, drykkjutúrum og fyrirlitlegri skurðgoðadýrkun.“ – 1. Pétursbréf 4:3.

     Í samræmi við þessa meginreglu forðast vottar Jehóva hátíðir sem einkennast af ofdrykkju og svallveislum. Þeir kunna að meta að hitta vini sína og kjósa ef til vill að drekka áfengi, en þá í hófi. Þeir gera sitt besta til að fara eftir því sem Biblían segir: „Hvort sem þið því borðið eða drekkið eða gerið eitthvað annað þá gerið allt Guði til dýrðar.“ – 1. Korintubréf 10:31.

     Vottar Jehóva taka þess vegna ekki þátt í kjötkveðjuhátíðum eða svipuðum hátíðum sem ýta undir óviðeigandi hegðun sem er fordæmd í Biblíunni. Ein slík hátíð er púrím. Þessi hátíð hefur lengi verið haldin til minnis um björgun Gyðinga á fimmtu öld f.Kr en er nú „meira eða minna orðin útgáfa Gyðinga af mardi gras eða kjötkveðjuhátíð“, segir í bókinni Essential Judaism. Margir sem taka þátt „klæðast búningum (oft fötum hins kynsins), eru taumlausir, drekka of mikið og eru hávaðasamir“.

 Elska vottar Jehóva fjölskyldu sína þótt þeir haldi ekki vissar hátíðir?

 Já. Biblían kennir að elska og virða eigi alla í fjölskyldunni óháð því hvaða trú þeir hafa. (1. Pétursbréf 3:1, 2, 7) Þegar vottur Jehóva hættir að taka þátt í vissum hátíðum geta auðvitað sumir ættingjar komist í uppnám, orðið sárir eða þeim jafnvel fundist þeir sviknir. Þess vegna reyna margir vottar Jehóva að fullvissa ættingja sína um að þeim þyki vænt um þá og útskýra nærgætnislega ástæðurnar fyrir ákvörðunum sínum. Margir heimsækja líka ættingja sína við önnur tækifæri.

 Segja vottar Jehóva öðrum að þeir eigi ekki að halda ákveðnar hátíðir?

 Nei. Þeim er ljóst að allir verða að ákveða sjálfir hvað þeir vilja gera. (Jósúabók 24:15) Vottar Jehóva ,virða alls konar menn‘, óháð trúarskoðunum þeirra. – 1. Pétursbréf 2:17.

a Listinn í greininni yfir hátíðir sem vottar Jehóva halda ekki er ekki tæmandi og það sama er að segja um meginreglur Biblíunnar sem gætu komið við sögu.

b Í sumum löndum er þessi dagur núorðið fyrst og fremst þekktur sem alþjóðlegur baráttudagur verkamanna. En þessi hátíðisdagur á rætur að rekja til Rómaveldis til forna.

c Mithra, Mithraism, Christmas Day & Yalda, eftir K. E. Eduljee, bls. 31–33.

d „Á Íslandi virðist dagurinn aldrei hafa verið almennt kenndur við konungana þrjá þótt dæmi þess sjáist í rímtölum frá 16. og 17. öld.“ – Saga daganna. Útgefandi: Mál og menning, Reykjavík 1993.