Hoppa beint í efnið

Þýðingar án ritmáls

Þýðingar án ritmáls

Vottar Jehóva hafa þýtt biblíutengt efni úr ensku á meira en 900 tungumál. Að þýða úr einu ritmáli yfir á annað er nógu mikil áskorun. En að þýða á táknmál krefst enn meiri vinnu. Margt heyrnalaust fólk notar hendurnar og svipbrigði til samskipta og því er táknmál, sem er þýtt af ritmáli, tekið upp á myndbönd. Með þessum hætti hafa Vottarnir þýtt rit á meira en 90 táknmál.

Hverjir þýða?

Eins og allir þýðendur hjá Vottum Jehóva eru þeir sem þýða á táknmál vel að sér á viðtökumálinu. Margir þeirra ólust upp við táknmál, annað hvort vegna þess að þeir eru sjálfir heyrnarlausir eða einhver í fjölskyldunni. Þýðendurnir eru einnig iðnir biblíunemendur.

Nýir þýðendur fá yfirgripsmikla kennslu í þýðingatækni. Andrew segir til dæmis: „Þótt ég hafi sótt skóla fyrir heyrnalausa og notað táknmál þegar ég ólst upp hefur þýðingaþjálfunin aukið skilning minn á málfræði táknmálsins. Hinir þýðendurnir kenndu mér hvernig ég gæti notað tákn, svipbrigði og líkamshreyfingar betur til að koma hugmyndum vel til skila.“

Að tryggja góða þýðingu

Þýðendur vinna saman í teymi. Hver og einn hefur sitt hlutverk, að þýða, bera þýðinguna saman við frumtextann eða skoða hvort þýðingin sé á góðu og eðlilegu máli. Þar sem því verður komið við er þýðingin skoðuð af hópi heyrnarlausra af ólíkum bakgrunni og frá mismunandi stöðum. Athugasemdir þeirra eru síðan notaðar til að fínpússa þýðinguna. Þetta tryggir að boðskapurinn skili sér nákvæmlega á eðlilegu og auðskildu máli.

Þýðingateymi finnska táknmálsins ræðir um enska textann.

Þeir sem þýða á táknmál sækja yfirleitt safnaðarsamkomur sem fara fram á táknmáli. Oft halda þeir þar að auki biblíunámskeið með heyrnarlausum sem eru ekki vottar Jehóva. Þannig halda þeir málkunnáttu sinni við.

Þýðandi tekur upp bráðabirgðaþýðingu á brasilísku táknmáli.

Hvers vegna leggja þeir þetta á sig?

Biblían segir að fólk „af öllum þjóðum og kynkvíslum, lýðum og tungum“ myndi taka við huggandi vonarboðskap hennar. (Opinberunarbókin 7:9) Þar á meðal er að sjálfsögðu fólk sem talar táknmál.

Þýðendurnir eru fúsir til að nota tíma sinn og færni í þessa verðmætu vinnu. Þýðandi, sem heitir Tony, segir: „Þar sem ég er sjálfur heyrnarlaus skil ég baráttuna sem aðrir heyrnarlausir eiga í. Ég hef alltaf þráð að ná til sem flestra heyrnarlausra til að segja þeim frá vonarboðskap Biblíunnar.“

Amanda vinnur einnig við að þýða á táknmál. Hún segir: „Mér finnst ég afkasta mun meiru núna en í vinnunni sem ég var í áður því að nú þýði ég rit sem miðla boðskap Biblíunnar til heyrnarlausra.“

Hvernig geturðu fundið myndbönd á táknmáli sem þú þekkir?

Í greininni „Að finna efni á táknmáli“ eru leiðbeiningar um hvernig nálgast megi myndbönd á táknmáli á vefsíðunni jw.org.