Hoppa beint í efnið

Að vinna með vottum Jehóva í Warwick

Að vinna með vottum Jehóva í Warwick

Margir sem fylgdust með byggingu aðalstöðva Votta Jehóva í Warwick í New York voru undrandi yfir því hve fúsir sjálfboðaliðarnir voru til að leggja sitt af mörkum. Forstjóri fyrirtækis, sem sá um að koma lyftunum fyrir, sagði við einn sjálfboðaliðann: „Þið eruð að vinna meiri háttar afrek. Það er sjaldséð að fólk gefi af tíma sínum launalaust.“

Þegar hann og aðrir fréttu að meirihluti vinnuaflans í Warwick væru sjálfboðaliðar sáu þeir fyrir sér að það væru vottar sem byggju í nágrenninu og ynnu aðeins um helgar. Þeir voru steinhissa þegar þeir hittu fólk sem hafði sagt upp vinnunni og ferðast alls staðar að af landinu til að vinna við verkið svo mánuðum og jafnvel árum skipti.

Í lok árs 2015 höfðu um 23.000 vottar unnið sjálfboðavinnu í Warwick ásamt trúsystkinum sínum í Betelfjölskyldunni. Að auki unnu að byggingunni um 750 byggingarverkamenn sem eru ekki vottar Jehóva. Það hafði djúpstæð áhrif á marga þeirra að vinna náið með vottunum.

Hressandi umhverfi

Framkvæmdastjóri fyrirtækis, sem framleiðir glugga- og veggjasamstæður, skrifaði: „Allir í fyrirtækinu, sem taka þátt í verkefninu, eru agndofa yfir viðmóti þeirra sem þeir hafa átt í samskiptum við. Það er einmitt ástæðan fyrir því að mörg okkar vilja taka þátt í þessu verkefni.“

Annað fyrirtæki útvegaði mannskap til að aðstoða við að reisa yfirbyggingar fyrir íbúðarhúsnæðið. Þegar samningurinn við fyrirtækið rann út voru þrír starfsmannanna staðráðnir í að vinna áfram við framkvæmdirnar. Þeir sögðu upp vinnunni og réðu sig í vinnu hjá öðru fyrirtæki sem var enn að störfum á svæðinu.

Kristnir eiginleikar vottanna höfðu góð áhrif á sumt af starfsfólkinu. Einn maður vann hjá fyrirtæki sem lagði grunna að byggingunum. Þegar hann hafði unnið í nokkra mánuði í Warwick tók konan hans eftir breytingu á framkomu hans og talsmáta. Hún sagði glöð í bragði: „Ég þekki hann varla lengur!“

„Vottakonurnar ætla að mæta“

Margir vottanna, sem unnu að byggingunni, voru konur. Þær keyrðu ekki aðeins rútur, þrifu herbergi og unnu ritarastörf heldur stýrðu þær líka umferð, stjórnuðu þungavinnuvélum, skeyttu saman ljósleiðurum, einangruðu pípur, settu upp gifsveggi, lögðu pípulagnir og helltu steypu. Þær unnu hörðum höndum.

Maður, sem er ekki vottur og vann við þakgerð, veitti því athygli að sum hjón leiddust þegar þau gengu frá rútunum til vinnu. Það hafði sterk áhrif á hann. Hann sá líka að konurnar unnu sleitulaust að byggingunni. „Í fyrstu gæti maður haldið að eiginkonurnar fylgdu bara mönnunum,“ sagði hann. „En þær leggja hart að sér og eru ekkert að tvínóna við hlutina.“ Ég hef unnið við byggingarframkvæmdir um alla New York-borg en ég hef aldrei séð neitt þessu líkt.“

Veturinn 2014/2015 var óvenjuharður og það var freistandi að halda sig heima í stað þess að vinna úti í nístingskuldanum allan daginn. Vottur að nafni Jeremy var einn þeirra sem hafði umsjón með framkvæmdunum. Hann segir: „Verkstjóri eins byggingarfyrirtækjanna spurði mig stundum, þegar sérstaklega kalt var í veðri, hvort konurnar myndu líka mæta til vinnu daginn eftir.

‚Já,‘ svaraði ég.

‚Líka þær sem standa úti og stjórna umferðinni?‘

‚Já.‘

Hann sagði mér seinna að hann hefði sagt starfsmönnum sínum að fyrst vottakonurnar ætluðu að mæta til vinnu þyrftu þeir að gera það líka.“

Rútubílstjórar nutu sín

Meira en 35 rútubílstjórar voru ráðnir til að keyra sjálfboðaliðana í Warwick til og frá gististöðum þeirra.

Áður en lagt var í hann í eitt skipti stóð bílstjóri einnar rútunnar upp og sneri sér að farþegunum. „Mér hefur fundist dásamlegt að keyra ykkur vottana,“ sagði hann. „Gerið það fyrir mig að senda yfirmanni mínum tölvupóst og biðjið hann um að leyfa mér að halda áfram að keyra þessa leið. Ég hef lært svo mikið um Biblíuna af ykkur. Áður en ég hitti ykkur vissi ég ekki hvað Guð hét eða að jörðin ætti eftir að verða paradís. Ég er ekki lengur hræddur við dauðann. Þetta hefur verið einstök upplifun fyrir mig. Við sjáumst í ríkissalnum næst þegar ég á frídag.“

Damiana, vottur sem vann að framkvæmdunum í Warwick, sagði: „Þegar við vorum kominn inn í rútu einn daginn tilkynnti bílstjórinn okkur að hann vildi segja við okkur nokkur orð. Hann sagðist hafa keyrt 4.000 votta til og frá ýmsum stöðum í New York. ‚Allir hafa sína sérvisku,‘ sagði hann, ‚en þið leysið úr öllum vandamálum og vinnið hlið við hlið. Það er afskaplega fallegt að sjá.‘ Hann tjáði okkur líka að hann hefði yndi af að spjalla við okkur.

Þegar hann hafði lokið máli sínu spurði einn vottanna í rútunni: ‚Finnst þér gaman að hlusta á okkur syngja?‘

Hann hló glaðlega og svaraði: ‚Já! Eigum við að byrja á söng 134?‘“ *

^ gr. 22 Söngur 134 í Lofsyngjum Jehóva nefnist „Sjáðu sjálfan þig í nýjum heimi“. Hann lýsir gleðinni sem mun ríkja í nýjum heimi Guðs.