Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Siglt um vatnaleiðir Kerala

Siglt um vatnaleiðir Kerala

Siglt um vatnaleiðir Kerala

EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Á INDLANDI

HUGSAÐU þér skemmtisiglingu á fallega búnum húsbáti um vatnaleiðir sem teygja sig eina 900 kílómetra og liggja meðal annars um 44 árósa. Þetta er hægt í Kerala á suðvestanverðu Indlandi. Það er sérstæð og ánægjuleg reynsla að sigla um þetta svæði — engu líkara en maður hvíli í faðmi náttúrunnar. Meðan báturinn mjakast áfram er hægt að virða fyrir sér lón með kókospálmum meðfram bökkunum, fagurgræna hrísgrjónaakra, náttúrleg stöðuvötn og skurði gerða af mannahöndum. Það er líklega vegna vatnaleiðanna sem tímaritið National Geographic Traveler kallaði Kerala „einn af 50 stöðum sem fólk þarf að sjá á ævinni“.

Og ekki má gleyma þeim sem búa á bökkum skipaskurðanna. Þeir muna þá tíð þegar hvorki voru ferðamenn né fimm stjörnu hótel í grenndinni. En líf þeirra hefur þó ekki breyst mikið. Þó að sumir þeirra vinni á nýjum hótelum eða í öðrum greinum ferðaþjónustunnar er menning þeirra og daglegt líf að mestu leyti óbreytt frá því sem áður var. Þeir annast hrísgrjónaakrana og kókospálmalundina sem fyrr og veiða og selja fisk til búdrýginda.

Fiskveiðar á vatnasvæðinu

Fiskveiðar eru hluti mannlífsins á þessu svæði. Hvergi annars staðar sér maður konur veiða randasikling með berum höndum. Indverjar kalla fiskinn karimeen en hann er aðeins að finna á vatnasvæði Kerala og þykir lostæti bæði meðal heimamanna og aðkominna. Konurnar vaða um og leita að fisknum með ker eða pott fljótandi á eftir sér. Fiskurinn kafar dýpra þegar konurnar nálgast og grefur hausinn í leðjuna á botninum. En konurnar láta ekki að sér hæða. Þær þreifa fyrir sér með fótunum uns þær finna fiskinn. Síðan kafa þær, gípa grunlausa bráðina eldsnöggt með berum höndum og stinga spriklandi fisknum í ílátið sem þær hafa meðferðis. Þegar þær hafa veitt nægju sína vaða þær að landi þar sem ákafir kaupendur bíða. Stærri og dýrari fiskarnir fara á fimm stjörnu hótel þar sem hinir ríku gæða sér á þeim en þeir smærri eru efni í gómsæta máltíð þeirra sem hafa minna handa á milli.

Kínversk fiskinet

Það er einnig algeng sjón og hefur töluvert aðdráttarafl fyrir ferðamenn að sjá fiskimenn sveifla kínverskum netum á bökkum áa og vatna í Kerala.

Talið er að kínverskir kaupmenn við hirð Kublais Khans hafi fyrstir manna komið með netin til Cochin (nú Kochi) fyrir 1400. Kínverskir og síðar portúgalskir landnemar notuðu slík net á þessum slóðum. Núna hafa margir indverskir fiskimenn viðurværi af því að veiða með slíkum netum og sjá fjölda fólks fyrir daglegu viðurværi ekki síður en fyrir 600 árum. Þótt ótrúlegt kunni að virðast getur veiðst nóg í eitt net til að sjá heilu þorpi fyrir fiskmeti. Draumkenndar myndir af netum sem hanga til þerris við sólsetur skreyta myndaalbúm margra ferðamanna.

En það eru ekki aðeins kínversku fiskinetin sem laða ferðamenn að vatnasvæðinu. Fólk hópast þangað ekki síður til að horfa á róðrarkeppni sem gömul hefð er fyrir. Keppt er á langbátum sem kallaðir eru „snákabátar“.

Róðrarkeppni

Snákabátarnir eru langir og mjóir eintrjáningar. Skuturinn líkist útþöndum hnakka gleraugnaslöngu og af því er nafnið dregið. Fyrrum notuðu stríðandi konungar slíka báta til bardaga eftir að uppskerutíminn var liðinn. Þegar stríðsátökunum linnti dró úr þörfinni fyrir bátana. Það var aðeins á musterishátíðum sem þessir tignarlegu farkostir voru settir á flot. Þá voru þeir mannaðir og skreyttir við mikil fagnaðarlæti til að halda á lofti menningu staðarins. Á slíkum hátíðum var haldin róðrarkeppni til heiðurs höfðingjum sem viðstaddir voru. Þessi siður tíðkast enn, um þúsund árum eftir að hann komst á.

Algengt er að keppt sé á allt að 20 bátum og er hver með á bilinu 100 til 150 manna áhöfn. Yfir 100 manns sitja í tveim röðum við báða borðstokkana og róa með stuttum árum. Fjórir stýrimenn standa í skutnum með lengri árar til að stýra bátnum. Tveir til viðbótar standa miðskips. Þeir halda á prikum og berja trumbur til að ræðararnir haldi takti. Að minnsta kosti sex menn til viðbótar eru með í för til að örva ræðarana. Þeir klappa, flauta, hrópa og syngja sérstæða róðrarsöngva til að hvetja áhöfnina til að halda uppi hraðanum. Eftir að hafa róið langleiðina nákvæmlega í takt við trumbusláttinn nota ungu ræðararnir síðustu kraftana í æsilegri keppni að markinu.

Jawaharlal Nehru, fyrsti forsætisráðherra Indlands, heimsótti Alleppey árið 1952 en hún er ein helsta borgin á vatnasvæðinu. Hann hreifst svo af róðrarkeppni sem hann var viðstaddur að hann hafði allar öryggisráðstafanir að engu, stökk út í bátinn sem vann keppnina og tók að klappa og syngja með ræðurunum. Eftir að hann kom heim til Delhi sendi hann að gjöf eftirlíkingu úr silfri af snákabát með undirskrift sinni og áletruninni: „Til sigurvegara í róðrarkeppninni sem er einstæður þáttur samfélagsins.“ Silfurbáturinn er nú notaður sem verlaunagripur í árlegri róðrarkeppni sem kennd er við Nehru. Um hundrað þúsund manns koma til að horfa á þessa kappróðra á ári hverju og lífga upp á mannlífið á vatnasvæðinu þar sem gangur lífsins er að jafnaði með hægara móti.

Lúxushótel á siglingu

Snákabátarnir eru ekki einu fljótandi farartækin sem laða að ferðamenn. Hrísbátarnir svokölluðu njóta sívaxandi vinsælda en það eru bátar af gamalli gerð sem breytt hefur verið í ríkmannlega húsbáta.

Margir þessara húsbáta, sem notaðir eru af ferðamönnum, eru ný smíð en þó eru til hrísbátar sem eru meira en aldargamlir og hefur verið breytt til afnota fyrir ferðamenn. Bátar þessir voru upphaflega kallaðir kettuvallam sem merkir „hnútabátur“. Báturinn var að öllu leyti gerður úr plönkum sem voru bundnir saman með kókosreipi. Ekki var notaður einn einasti nagli. Bátarnir voru notaðir til að flytja hrísgrjón og annan varning milli þorpa og kryddjurtir til fjarlægra staða. Með tilkomu nútímalegra flutningatækja urðu bátarnir nánast úreltir. Það var þá sem athafnamanni datt það snjallræði í hug að breyta þeim í húsbáta fyrir ferðamenn. Það má réttilega kalla bátana fljótandi hótel því að á þeim eru ríkulega búnar stofur, svalir og íburðarmikil svefnherbergi ásamt baðherbergi. Þjónar sjá um að sigla bátunum hvert sem gestina fýsir og elda hvaðeina sem þeir girnast.

Þegar kvöldar er bátunum lagt við akkeri nálægt ströndinni eða úti á miðju stöðuvatni ef menn vilja meira næði. Þar er hægt að njóta ómældrar kyrrðarinnar ef frá er talið skvamp í einstaka andvaka fiski.

Lífið er þó ekki tóm rólegheit á vatnasvæðinu því að þar eru starfandi ötulir og árvakrir ‚mannaveiðarar‘.

‚Mannaveiðar‘ á vatnasvæðinu

Þegar talað er um ‚mannaveiðar‘ er verið að vísa til orða Jesú við fiskimenn sem gerðust lærisveinar hans. Hann sagði: „Komið og fylgið mér og mun ég láta ykkur menn veiða.“ Þar átti hann við það verkefni að hjálpa öðrum að gerast lærisveinar sínir. (Matteus 4:18, 19; 28:19, 20) Vottar Jehóva út um allan heim vinna að þessu verki, þar á meðal á vatnasvæðinu í Kerala.

Í Kerala eru 132 söfnuðir Votta Jehóva, þar af 13 á vatnasvæðinu. Margir í þessum söfnuðum eru fiskimenn að atvinnu. Einn þeirra var að veiðum þegar hann tók félaga sinn tali og fór að segja honum frá ríki Guðs. Félaginn áttaði sig fljótt á því að kenningar kirkjunnar, sem hann tilheyrði, voru á skjön við Biblíuna. Eiginkona hans og fjögur börn fengu einnig áhuga. Biblíunámskeið var hafið á heimilinu og fjölskyldan var fljót að tileinka sér boðskapinn. Foreldrarnir og tvö af börnunum eru nú skírðir vottar og hin börnin tvö stefna að því að skírast.

Vottar úr einum af söfnuðunum fóru með báti til lítillar eyjar til að boða trúna. Þar sem bátsferðir þangað eru óreglulegar kalla heimamenn hana kadamakudi sem merkir „innilokaður ef þú kemur“. Þar hittu vottarnir hjónin Johny og Rani. Þau höfðu alist upp í kaþólskri trú en sóttu hugleiðingarmiðstöð og gáfu til hennar alla þá peninga sem þau áttu aflögu. Johny sýndi mikinn áhuga á boðskap Biblíunnar. Hann þáði biblíunámskeið og fór að segja öðrum frá nýfundinni trú sinni. Með hjálp Biblíunnar tókst honum að hætta að reykja og misnota áfengi.

Vinna Johnys samræmdist ekki Biblíunni svo að hann gerði nauðsynlegar breytingar. Í fyrstu olli það fjárhagserfiðleikum fyrir fjölskylduna en þá fór Johny að veiða krabba og selja og gat þannig séð fjölskyldunni farborða. Hann lét skírast í september 2006 og kona hans og tvö börn ári síðar. Vonin um eilíft líf í heimi, sem verður paradís, hefur gerbreytt lífssýn þeirra. — Sálmur 97:1: 1. Jóhannesarbréf 2:17.

Það er einstaklega ánægjulegt að sækja heim vatnasvæði Kerala. Ekki aðeins vegna kínversku fiskinetanna, snákabátanna og húsbátanna heldur einnig vegna þess að þar búa vottar Jehóva Guðs sem ‚veiða menn‘.

[Kort á blaðsíðu 22, 23]

(Sjá uppsettan texta í ritinu)

INDLAND

KERALA

[Mynd á blaðsíðu 23]

Fiskveiðar tilheyra daglegu lífi í Kerala.

[Credit line]

Efri mynd: Salim Pushpanath

[Mynd á blaðsíðu 23]

Konur veiða fisk með berum höndum.

[Mynd á blaðsíðu 24]

Keppt á snákabátum.

[Mynd á blaðsíðu 24]

„Kettuvallam.“

[Mynd á blaðsíðu 24, 25]

Húsbátur.

[Mynd á blaðsíðu 24, 25]

Hjónin Johny og Rani.

[Mynd credit line á blaðsíðu 24]

Salim Pushpanath