Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Af hverju eru netin tóm?

Af hverju eru netin tóm?

Af hverju eru netin tóm?

„Ég man eftir góðum árum og slæmum en ástandið hefur aldrei verið eins slæmt og núna,“ segir George sem er 65 ára og stundar fiskveiðar norðaustur af strönd Englands. „Allt er uppurið — humar, lax, þorskur og annar hvítfiskur — allt saman.“

SJÓMAÐURINN George, sem hér er vitnað til, er ekki einn um að hafa áhyggjur af fiskstofnum því að svipaðar fréttir berast úr öllum áttum. Agustín er skipstjóri á 350 tonna fiskiskipi sem gert er út frá Perú. „Það fór að verða skortur á sardínu fyrir um það bil 12 árum,“ segir hann. „Á fiskimiðum Perú var nægur fiskur allan ársins hring en nú erum við oft iðjulausir mánuðum saman. Við þurftum yfirleitt ekki að fara nema svona 15 sjómílur frá landi en núna siglum við allt að 170 mílur án þess að fá bein úr sjó.“

Antonio býr í Galacíu á Spáni. „Ég hef róið í meira en 20 ár,“ segir hann. „Auðlindir hafsins hafa smám saman farið þverrandi. Við veiðum meira en sjórinn getur gefið af sér.“

Það er erfiðara að ljósmynda ofveiði á fiski heldur en ná myndum af jarðýtum eyða regnskógi. Eyðileggingin er þó jafn raunveruleg. Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna sendi nýverið frá sér eftirfarandi viðvörun: „Ástandið er sérstaklega alvarlegt og ógnvekjandi þegar haft er í huga að um 75 prósent af fiskimiðum heims eru þegar fullnýtt, ofnýtt eða uppurin.“

Fimmtungur mannkyns reiðir sig á dýraprótín úr fiski. Einn af mikilvægustu fæðugjöfum mannkyns er því í hættu. Fiskur dreifist ekki jafnt um heimshöfin. Reyndar má að miklu leyti líkja úthöfunum við eyðimörk. Gjöfulustu fiskimiðin eru að jafnaði nálægt landi og á svæðum þar sem er uppstreymi sjávar með miklu af næringarefnum. Á þessum næringarefnum lifir plöntusvif sem er undirstaðan í fæðukeðju hafsins. Á hvaða hátt eru sjómenn að eyðileggja fiskimiðin sem þeir byggja afkomu sína á? Við skulum leita svara við því með því að kynna okkur sögu þekktra fiskimiða.

Eyðileggingin hefst á Nýfundnalandsmiðum

Það var engu líkara en gullæði hefði gripið um sig þegar ítalski sæfarinn og landkönnuðurinn John Cabot * sigldi frá Englandi vestur um Atlantshaf og fann Nýfundnalandsmið sem eru landgrunnsslétta austur af strönd Kanada. Það var aðeins fimm árum eftir sögufræga ferð Kristófers Kólumbusar árið 1492. Ekki leið á löngu áður en sjómenn sigldu hundruðum saman þvert yfir Atlantshaf til að veiða á Nýfundnalandsmiðum. Enginn Evrópumaður hafði áður séð fiskimið svona auðug að þorski.

Þorskur var gulls ígildi. Hann var eftirsóttur fyrir hvítt og næstum fitulaust holdið og er enn í miklu uppáhaldi um heim allan. Atlantshafsþorskur vegur að jafnaði á bilinu 1,5 til 9 kíló en á Nýfundnalandsmiðum veiddist stundum þorskur á stærð við mann. Þegar aldir liðu tókst sjómönnum að auka aflann með því að nota botnvörpur og langar línur með þúsundum öngla.

Áhrif atvinnuveiða

Á 19. öld heyrðust áhyggjuraddir meðal Evrópumanna um hugsanlega ofveiði, sérstaklega á síld. Prófessor Thomas Huxley, sem var forseti Konunglega vísindafélagsins í Bretlandi, sagði hins vegar á alþjóðlegri sjávarútvegssýningu í Lundúnum árið 1883: „Það er svo gríðarlegt magn af þessum fiski í sjónum að veiðarnar hafa tiltölulega lítil áhrif . . . Ég tel því að þorskmiðin . . . og sennilega öll helstu fiskimiðin séu óþrjótandi.“

Fáir drógu orð Huxleys í efa, jafnvel eftir að farið var að stunda fiskveiðar með gufuskipum á Nýfundnalandsmiðum. Eftirspurnin eftir þorski jókst jafnt og þétt, ekki síst upp úr 1925 þegar Clarence Birdseye í Massachusetts í Bandaríkjunum fann upp aðferð til að hraðfrysta fisk. Fiskimenn voru nú komnir með dísilknúna togara og gátu aukið veiðarnar enn meir til að svara vaxandi eftirspurn. En veiðarnar áttu eftir að taka á sig nýja mynd.

Árið 1951 sigldi skip nýrrar gerðar frá Bretlandi á Nýfundnalandsmið. Það var undarlegt á að líta, 85 metrar á lengd og 2.600 brúttólestir að stærð. Þetta var gríðarstór skuttogari, fyrsti verksmiðju- og frystitogari heims. Neðan þilja voru heilu raðirnar af sjálfvirkum flökunarvélum og frystitækjum. Skipið var búið ratsjá, fiskileitartækjum og bergmálsmiðunartækjum til að leita uppi fiskitorfur jafnt á degi sem nóttu. Og úthaldið gat verið margar vikur.

Aðrar þjóðir voru fljótar að koma auga á hagnaðarvonina. Áður en langt um leið voru komin á flot hundruð verksmiðjuskipa sem gátu veitt allt að 200 tonn af fiski á klukkustund. Sum þessara skipa voru heilar 8.000 brúttólestir að stærð og nótin svo stór að hægt hefði verið að veiða júmbóþotu í hana.

Endalokin

„Síðla á áttunda áratug síðustu aldar héldu flestir enn í þá blekkingu að nægtir hafsins væru óþrjótandi,“ segir í bókinni Ocean’s End. Sívaxandi floti risatogara veiddi á Nýfundnalandsmiðum allan níunda áratug síðustu aldar. Vísindamenn vöruðu við því að þorskstofninn væri við það að hrynja. En tugþúsundir manna áttu nú lífsafkomu sína undir þessum veiðum og stjórnmálamenn veigruðu sér við að taka óvinsæla ákvörðun. Vísindamenn sýndu að lokum fram á það árið 1992 að á 30 árum hefði þorskstofninn á Nýfundnalandsmiðum minnkað um hvorki meira né minna en 98,9 prósent. Þorskveiðarnar voru nú bannaðar. En það var um seinan. Fimm hundruð árum eftir að ein auðugustu fiskimið heims fundust var búið að eyðileggja þau.

Fiskimenn vonuðust til að þorskstofninn myndi ná sér fljótlega aftur. En þorskur nær meira en 20 ára aldri og þroskast hægt. Stofninn hefur enn ekki náð sér á strik þrátt fyrir veiðibannið sem sett var árið 1992.

Kreppa í sjávarútvegi um allan heim

Það sem gerðist á Nýfundnalandsmiðum er átakanlegt dæmi um það sem er að gerast í sjávarútvegi um allan heim. Umhverfisráðherra Bretlands sagði árið 2002 að „60 prósent fiskstofna í heiminum séu ofveiddir“. Túnfiskur, sverðfiskur, hákarl og ýmsar fisktegundir, sem lifa á grýttum botni, eru í hættu.

Mörg auðug ríki eru búin að eyðileggja eigin fiskimið og leita nú að nýjum og fjarlægum miðum til að arðræna. Til dæmis eru auðug fiskimið víða út af ströndum Afríku. Mörg Afríkuríki hafa tæplega efni á öðru en að selja veiðileyfi sem eru ein helsta tekjulind sumra þeirra í erlendum gjaldeyri. Heimamenn eru skiljanlega reiðir yfir því að gengið skuli á fiskstofna þeirra.

Af hverju er ofveiði haldið áfram?

Í fljótu bragði virðist lausnin einföld — að hætta bara ofveiðinni. En málið er ekki svona einfalt. Til að stunda fiskveiðar í atvinnuskyni þarf að fjárfesta gríðarlega í tækjum og búnaði. Hver einasti fiskimaður vonar að hinir hætti veiðum svo að hann geti sjálfur haldið áfram. Niðurstaðan er sú að enginn hættir veiðum. Og ríkisstjórnir eru margar hverjar meðal stærstu fjárfesta í sjávarútvegi og það er hluti vandans. Í tímaritinu Issues in Science and Technology segir: „Margar þjóðir litu svo á að markmið [Sameinuðu þjóðanna] í fiskvernd væru siðalögmál sem öðrum þjóðum bæri að virða en þær sjálfar voru tilbúnar til að brjóta.“

Sportveiðimenn eiga líka nokkra sök á vandanum. Í tímaritinu New Scientist sagði eftirfarandi um rannsókn sem gerð var í Bandaríkjunum: „Sportveiðimenn veiða 64 prósent af skráðum afla af ofveiddum tegundum sem landað er við Mexíkóflóa.“ Bæði sportveiðimenn og sjómenn hafa töluverð áhrif, og stjórnmálamenn hafa sterkari tilhneigingu til að verja vinsældir sínar en vernda fiskstofna.

Er hægt að vernda fiskimið jarðar? Boyce Thorne-Miller segir í bók sinni The Living Ocean: „Ekkert eitt getur bjargað sjávartegundunum fyrr en róttækar breytingar verða á viðhorfum manna.“ Til allrar hamingju hefur skapari jarðar, Jehóva Guð, stofnsett ríki sem mun tryggja öryggi og framtíð allrar jarðarinnar. — Daníel 2:44; Matteus 6:10.

[Neðanmáls]

^ John Cabot fæddist á Ítalíu og var þar nefndur Giovanni Caboto. Hann settist að í Bristol á Englandi á níunda áratug fimmtándu aldar og lagði þaðan upp í för sína árið 1497.

[Innskot á blaðsíðu 21]

Fiskimið hafa verið eyðilögð með ofveiði ekki ósvipað og menn hafa eytt regnskóga.

[Innskot á blaðsíðu 22]

„Um 75 prósent af fiskimiðum heims eru þegar fullnýtt, ofnýtt eða uppurin.“ — Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna

[Innskot á blaðsíðu 23]

Fimmtungur mannkyns reiðir sig á dýraprótín úr fiski.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Kambódía

[Mynd á blaðsíðu 23]

Atvinnuveiðar í Alaska.

[Mynd á blaðsíðu 23]

Alþýðulýðveldið Kongó

[Mynd credit line á blaðsíðu 20]

© Janis Miglavs/DanitaDelimont.com

[Mynd credit line á blaðsíðu 22]

Efst: © Mikkel Ostergaard/Panos Pictures. Miðja: © Steven Kazlowski/SeaPics.com. Neðst: © Tim Dirven/Panos Pictures.