Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Er framtíð þín ákveðin fyrir fram?

Er framtíð þín ákveðin fyrir fram?

Sjónarmið Biblíunnar

Er framtíð þín ákveðin fyrir fram?

Margir trúa því að líf þeirra og framtíð sé fyrir fram ákveðin af æðri mætti. Þeim finnst að Guð hafi ákveðið hvaða leið allir fari í gegnum lífið alveg frá vöggu til grafar. Oft er þetta rökstutt svona: „Er Guð ekki almáttugur og alvitur? Hann veit allt svo að hann hlýtur að þekkja fortíð, nútíð og framtíð í smáatriðum.“

HVAÐ heldur þú? Ákveður Guð fyrir fram hvaða leið við förum í gegnum lífið og endanleg örlög okkar? Með öðrum orðum, er frjáls vilji raunverulegur eða bara blekking? Hvað stendur í Biblíunni um málið?

Veit Guð allt fyrir fram eða velur hann hvað hann vill vita?

Biblían er afdráttarlaus hvað varðar hæfileika Guðs til að vita fyrir fram hvað gerist í framtíðinni. Hann „kunngjörði endalokin frá öndverðu“ samkvæmt Jesajabók 46:10. Hann lét jafnvel menn skrásetja marga spádóma. (2. Pétursbréf 1:21) Og allir þessir spádómar rætast undantekningarlaust vegna þess að Guð hefur bæði visku og vald til að uppfylla þá í smáatriðum. Þannig að Guð getur ekki aðeins vitað hvað gerist í framtíðinni heldur einnig ákveðið fyrir fram að vissir atburðir gerist ef hann svo kýs. En ákveður Guð örlög hvers einasta manns og fjölda þeirra sem hljóta hjálpræði? Það kennir Biblían ekki.

Í Biblíunni er útskýrt að Guð velur hvað hann ákveður fyrir fram. Tökum dæmi. Guð hefur sagt fyrir að ‚mikill múgur‘ réttlátra manna muni lifa af þegar vondum mönnum verður eytt við endi núverandi heimskerfis. (Opinberunarbókin 7:9, 14) Taktu eftir að Guð gaf ekki upp hversu fjölmennur hinn mikli múgur er. Hvers vegna ekki? Hann ákveður ekki fyrir fram örlög hvers einasta einstaklings. Guð er eins og ástkær faðir í stórri fjölskyldu. Hann veit að einhver af börnum hans munu endurgjalda kærleikann. En hann hefur ekki ákveðið fyrir fram hve mörg þeirra geri það.

Berðu saman hvernig Guð ákveður atburði fyrir fram við það hvernig hann notar mátt sinn. Guð er almáttugur og hefur því algjört vald. (Sálmur 91:1; Jesaja 40:26, 28) En notar hann valdið hömlulaust? Nei. Til dæmis beitti hann ekki mætti sínum gegn Babýlon, sem var óvinur Ísraelsþjóðarinnar, fyrr en rétti tíminn var runnin upp. Guð sagði: „Ég hefi . . . stillt mig.“ (Jesaja 42:14; Biblían 1981) Sama meginregla gildir um hvernig hann notar hæfileika sinn til að vita og ákveða hluti fyrir fram. Jehóva Guð sýnir sjálfsstjórn til þess að virða frjálsa viljann sem hann gaf okkur.

Sú staðreynd að Guð stýrir því hvernig hann notar mátt sinn þýðir ekki að hann sé ófullkominn eða takmarkaður. Öllu heldur undirstrikar þetta mikilleik hans og dregur okkur nær honum því að það er greinilegt að viska og máttur er ekki það eina sem stýrir því hvernig Guð notar drottinvald sitt. Kærleikur og virðing fyrir frjálsum vilja viti borinna sköpunarvera hans hefur einnig áhrif á hvernig hann notar vald sitt.

Ef Guð hefði á hinn bóginn ákveðið allt fyrir fram, öll hræðilegu slysin og voðaverkin alveg frá upphafi, væri þá ekki rétt að kenna honum um eymdina og þjáningarnar í heiminum? Við sjáum við nánari skoðun að sú kenning að Guð hafi ákveðið allt fyrir fram heiðrar hann ekki heldur vanheiðrar. Hann lítur út fyrir að vera grimmur, óréttlátur og kærleikslaus — öfugt við það sem Biblían kennir. — 5. Mósebók 32:4.

Þitt er valið

Guð sagði við Ísraelsþjóðina fyrir milligöngu þjóns síns Móse: „Ég hef lagt fyrir þig líf og dauða . . . veldu þá lífið . . . með því að elska Drottin, Guð þinn, hlýða boði hans og halda þér fast við hann því að þá muntu lifa og verða langlífur“. (5. Mósebók 30:19, 20) Ef Guð hefði ákveðið fyrir fram hvort Ísraelsmenn myndu elska hann og lifa eða lítilsvirða hann og verðskulda dauða hefðu orð hans verið bæði innihaldslaus og fölsk. Trúir þú að Guð, sem „hefur mætur á réttlæti“ og er persónugervingur kærleikans, sé svo ósamkvæmur sjálfum sér? — Sálmur 37:28; 1. Jóhannesarbréf 4:8.

Hvatning Guðs til þjóna sinna um að velja lífið á ekki síður erindi til okkar sem nú erum uppi. Ástæðan er sú að spádómar Biblíunnar gefa til kynna að endir þessa heimskerfis nálgist óðfluga. (Matteus 24:3-9; 2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Hvernig veljum við lífið? Við gerum það líkt og Ísraelsmenn gerðu til forna.

Hvernig getur þú ‚valið lífið‘?

Við veljum lífið með því að „elska Drottin“, „hlýða boði hans“ og halda okkur „fast við hann“. Að sjálfsögðu getum við ekki gert þetta nema þekkja Guð sem persónu og skilja hvers hann krefst af okkur. Jesús Kristur sagði eitt sinn í bæn til Guðs: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ — Jóhannes 17:3.

Þessa þekkingu er að finna á síðum Biblíunnar sem er réttilega kölluð orð Guðs og er dýrmæt gjöf frá honum. (Jóhannes 17:17; 2. Tímóteusarbréf 3:16) Biblían er áþreifanleg sönnun fyrir því að Guð hefur ekki ákveðið framtíð okkar fyrir fram heldur vill hann að við tökum vel ígrundaðar ákvarðanir byggðar á þeim upplýsingum sem hann hefur gefið okkur. — Jesaja 48:17, 18.

Guð notar í raun Biblíuna til þess að segja okkur: „Þetta er fyrirætlun mín með mannkynið og jörðina og þetta er það sem þú þarft að gera til að öðlast eilíft líf. Núna er það undir þér komið hvort þú ákveður að hlusta á mig eða vísa mér á bug“. Já, það er fullkomið jafnvægi milli þess hvernig Guð notar fyrirframvitneskju sína og hvernig hann virðir frjálsan vilja okkar. Þú velur lífið með því að „hlýða boði hans og halda þér fast við hann“.

HEFURÐU HUGLEITT?

◼ Hversu mikið notar Guð fyrirframvitneskju? — 5. Mósebók 30:19, 20; Jesaja 46:10.

◼ Hvers vegna ákvað Guð ekki alla hluti fyrir fram þar á meðal allt það slæma sem hefur gerst? — 5. Mósebók 32:4.

◼ Hvað mun ákveða örlög okkar í framtíðinni? — Jóhannes 17:3.

[Innskot á blaðsíðu 13]

Í Biblíunni er kennt að Guð velji hvað hann vilji vita fyrir fram.