Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sjö viturleg heilræði

Sjö viturleg heilræði

Sjö viturleg heilræði

HEILRÆÐIN hér á eftir er að finna í fornri bók sem hefur að geyma fullt af viturlegum ráðum, og þau eru jafn gagnleg núna og þau voru forðum daga. Hugleiddu hvernig þau geta hjálpað þér að fara vel og viturlega með peninga.

1. „Sá sem elskar peninga seðst aldrei af peningum og sá sem elskar auðinn hefur ekki gagn af honum.“ (Prédikarinn 5:9) Þetta eru ekki orð manns sem var öfundsjúkur og hafði lítið handa á milli. Einn ríkasti maður sögunnar, Salómon konungur Ísraels, skrifaði þau og studdist við eigin reynslu og athuganir. Auðugir menn nú á tímum hafa látið svipuð orð falla.

2. „Ef við höfum fæði og klæði þá látum okkur það nægja. En þeir sem ríkir vilja verða falla í freistni.“ (1. Tímóteusarbréf 6:8, 9) Þetta skrifaði Páll postuli sem gaf upp á bátinn virðingarstöðu til þess að fylgja Jesú Kristi. Ólíkt sumum trúarleiðtogum nútímans freistaðist Páll ekki til að hagnast á biblíunemendum sínum eða samstarfsmönnum. Hann gat þess vegna sagt í einlægni: „Eigi girntist ég silfur né gull né klæði nokkurs manns. Sjálfir vitið þið að þessar hendur unnu fyrir öllu því er ég þurfti með og þeir er með mér voru.“ – Postulasagan 20:33, 34.

3. „Hver yðar sest ekki fyrst við ef hann ætlar að reisa turn og reiknar kostnaðinn, hvort hann eigi nóg til að ljúka verkinu?“ (Lúkas 14:28) Heimfærum orð Jesú upp á eftirfarandi: Þegar þú gerir innkaup, sérstaklega með kreditkorti, kaupirðu þá hluti í fljótræði eða sýnirðu þolinmæði og reiknar kostnaðinn áður? Þarftu virkilega á þessum hlut að halda og hefurðu efni á að kaupa hann?

4. „Lánþeginn verður þræll lánardrottins síns.“ (Orðskviðirnir 22:7) Fjármálakreppan, sem nýlega skall á heiminum, leiddi í ljós hversu óviturlegt það er að safna kreditkortaskuldum eða öðrum skuldum. „Það er algengt nú á dögum að fólk skuldi að meðaltali meira en 9.000 dollara [um 1.000.000 ÍSK] á fjórum eða fleiri kreditkortum,“ segir Michael Wagner í bók sinni Your Money, Day One sem kom út árið 2009.

5. „Guðlaus maður tekur lán og borgar ekki en réttlátur maður er mildur og örlátur.“ (Sálmur 37:21) Sumir líta á gjaldþrot sem auðvelda leið til að sleppa frá skuldum. En þeir sem meta að verðleikum samband sitt við Guð eru ekki aðeins meðvitaðir um þá skyldu að borga skuldir sínar, ef þess er nokkur kostur, heldur eru þeir einnig örlátir eftir því sem þeir eru aflögufærir.

6. „Ungur var ég og gamall er ég orðinn en aldrei sá ég réttlátan mann yfirgefinn eða niðja hans biðja sér matar.“ (Sálmur 37:25) Þessi orð voru skrifuð af manni sem var ranglæti beittur. Í mörg ár var hann á flótta og þurfti stundum að hafast við í hellum eða leita hælis í öðrum löndum. Þessi flóttamaður var Davíð sem varð síðar konungur í Ísrael. Á lífsskeiði sínu upplifði hann sannleiksgildi þessara orða.

7. „Sælla er að gefa en þiggja.“ (Postulasagan 20:35) Þetta sagði mesta mikilmenni sem lifað hefur. Jesús varði lífi sínu á jörð til að þjóna öðrum vegna þess „að hann vissi hvaða gleði beið hans“. Nú hefur hann hlotið eilíft líf á himni og situr við hægri hönd „hins sæla Guðs“, Jehóva. – Hebreabréfið 12:2; 1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912.

Ekkert getur gefið lífi okkar meira gildi en að líkja eftir fordæmi Jesú og gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að hjálpa öðrum. Þú ert eflaust sammála því að það sé betra að vera varkár og sparsamur þannig að þú getir verið örlátur við aðra heldur en að vera eigingjarn og eyðslusamur.