Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fróðleiksfús maður sem er í minnum hafður

Fróðleiksfús maður sem er í minnum hafður

Fróðleiksfús maður sem er í minnum hafður

● Hvernig viltu að þín verði minnst? Hvað mun koma upp í huga fólks þegar það hugsar um þig? Mörgum er umhugað um að skapa sér nafn og sækjast því eftir frægð og frama á sviði vísinda, stjórnmála, íþrótta eða lista. Hvernig fyndist þér að vera minnst fyrir spurningarnar sem þú spurðir?

Fyrir um 500 árum spurði maður nokkur í Mið-Ameríku margra athyglisverðra spurninga. Hann var ættbálkahöfðingi og hét Nicarao sem „Níkaragva“ dregur nafn sitt líklega af. Ættbálkur hans, stöðuvatnið sem hann bjó við og landið voru öll kennd við nafn hans.

Ættbálkur Nicaraos bjó á landsvæðinu á milli Kyrrahafsins og hins gríðarstóra Níkaragvavatns. Stuttu eftir að Kólumbus fann nýja heiminn ákváðu Spánverjar að kanna þetta svæði. Gil González Dávila herforingi leiddi menn sína norður frá svæðinu sem nú heitir Kostaríka og kom inn á yfirráðasvæði Nicaraos árið 1523.

Ímyndaðu þér hversu óttaslegnir landkönnuðirnir hafa verið er þeir ferðuðust um þetta óþekkta landsvæði. Þeim hlýtur að hafa létt mikið þegar þeir hittu Nicarao. Fólk hans tók vel á móti Spánverjunum og gaf þeim gjafir, meðal annars gríðarmikið gull. Slíkt örlæti einkennir enn þann dag í dag menningu Níkaragva.

Nicarao vildi fá svör við spurningum sem hann hafði hugleitt lengi. Og fleiri spurningar vöknuðu eftir heimsókn Spánverjanna. Heimildir segja að hann hafi spurt González herforingja eftirfarandi spurninga:

Hefurðu heyrt um mikið flóð sem eyddi öllum mönnum og dýrum? Mun Guð aftur láta flóð koma yfir jörðina? Hvað gerist eftir dauðann? Hvernig hreyfast stjörnurnar, sólin og tunglið? Hvernig haldast þau uppi á himni? Hversu langt í burtu eru þau? Hvenær munu stjörnurnar, sólin og tunglið hætta að skína? Hvaðan kemur vindurinn? Hvað orsakar hita og kulda, ljós og myrkur? Hvers vegna eru dagar ársins mislangir?

Nicarao hafði greinilega mikinn áhuga á að fræðast um alheiminn. Spurningar hans segja líka mikið til um trú hans. Af þeim má sjá að hann hafði áhuga á og áhyggjur af svipuðum málum og margir nú til dags. Sú staðreynd að Nicarao og fólk hans þekkti sögu um mikið flóð minnir okkur á frásögn Biblíunnar. – 1. Mósebók 7:17-19.

Jafnvel þótt menningarsamfélagið, sem Nicarao tilheyrði, hafi verið gegnsýrt af spíritisma og mannafórnir hafi verið stundaðar hafði hann áhyggjur af hegðun og líferni fólk síns. Spurningar hans vitna um hlutverk samviskunnar. Í þessu sambandi skrifaði Páll postuli: „Samviska þeirra ber þessu vitni og hugrenningar þeirra sem ýmist ásaka þá eða afsaka.“ – Rómverjabréfið 2:14, 15.

Stytta af ættbálkahöfðingjanum Nicarao stendur nú nálægt þeim stað þar sem talið er að hann hafi fyrst hitt spænsku landkönnuðina. Þessi fróðleiksfúsi maður, sem hugleiddi gaumgæfilega lífið og náttúruna, getur verið okkur gott fordæmi. – Rómverjabréfið 1:20.

[Kort á bls. 20]

(Sjá uppsettan texta í ritinu)

Níkaragva

SUÐUR-AMERÍKA

ATLANTSHAF