Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvor skýringin er rökréttari?

Hvor skýringin er rökréttari?

Hvor skýringin er rökréttari?

ENGINN maður varð vitni að tilurð lífs á jörð. Enginn hefur heldur séð eina tegund lífveru þróast af annarri – til dæmis spendýr af skriðdýri. * Við þurfum því að draga ályktanir um uppruna lífsins af þeim gögnum og upplýsingum sem fyrir liggja. Og við þurfum að láta gögnin tala sínu máli en ekki reyna að þvinga þau til að segja það sem okkur langar til.

Margir trúleysingjar sjá hins vegar vísindin gegnum gleraugu efnishyggjunnar. Þeir telja að lífið sé sprottið af efninu og engu öðru. „Við erum skuldbundnir . . . efnishyggjunni . . . því að efnishyggjan sé algild vegna þess að við getum ekki hleypt Guði inn í gættina“. Þetta segir þróunarfræðingurinn Richard C. Lewontin. Efnishyggjumenn velja því eina kostinn sem eftir er – þróunarkenninguna.

Trúhneigt fólk getur líka haft fyrir fram ákveðnar hugmyndir sem brengla afstöðu þess til vísindanna. Eins og áður hefur verið nefnt halda sumir sköpunarsinnar fast í þá ranghugmynd að Guð hafi myndað heiminn á sex sólarhringum fyrir nokkur þúsund árum. Þar sem þeir eru skuldbundnir þeirri hugmynd reyna þeir að þvinga gögnin til að passa við ofurbókstaflega túlkun sína á Biblíunni. (Sjá rammagreinina  „Hve langt tímabil er ,dagur‘?“ á bls. 9.) Þeir sem túlka bæði Biblíuna og vísindaleg gögn með þessum öfgakennda hætti fá engin viðunandi svör þegar þeir reyna að sannprófa trú sína.

Hvor skýringin passar að öllu leyti?

Sumir þróunarsinnar trúa að þær flóknu sameindir, sem eru uppistaða lifandi vera, hafi orðið til með eftirfarandi hætti:

1. Helstu frumefnin sameinuðust með einhverjum hætti og mynduðu einfaldar lífrænar sameindir.

2. Þessar sameindir tengdust síðan í nákvæmlega þeirri röð sem þurfti til að mynda DNA, RNA eða prótein sem gátu geymt nauðsynlegar upplýsingar til að lífræn starfsemi gæti átt sér stað.

3. Sameindirnar mynduðu síðan með einhverjum hætti ákveðnar raðir sem þurfti til að þær gætu afritað sig. Án afritunar getur hvorki átt sér stað þróun né líf verið til, ef út í það er farið.

Hvernig mynduðust þessar flóknu sameindir og hvernig urðu þær færar um að afrita sig ef ekki var til skynsemigæddur hönnuður? Þróunarfræðin getur hvorki gefið viðunandi skýringar á uppruna lífsins né fullnægjandi svör við spurningum okkar þar að lútandi. Með því að viðurkenna ekki að til sé skapari, sem hafi stýrt gangi mála í ákveðnum tilgangi, er verið að eigna hugsunarlausum sameindum og náttúruöflum guðlegan mátt.

En hvað sýna staðreyndirnar? Öll tiltæk gögn eru á þá lund að sameindir þróist ekki upp í flókin lífsform heldur hið gagnstæða: Náttúrulögmálin gera að verkum að flóknir hlutir brotna niður með tímanum – hlutir eins og vélar, hús og jafnvel lifandi frumur. * Í þróunarfræðinni er því haldið fram að hið gagnstæða geti gerst. Til dæmis segir í bókinni Evolution for Dummies að þróun hafi átt sér stað vegna þess að jörðin „fái fullt af orku frá sólinni og orkan knýi síðan fram flóknari form“.

Vissulega þarf orku til að snúa óreiðu í reglu. Það þarf til dæmis orku til að byggja hús úr múrsteinum, timbri og nöglum. Hins vegar þarf að stýra orkunni vandlega og nákvæmlega vegna þess að það má búast við að stjórnlaus orka hraði hrörnun og niðurbroti, ekki ósvipað og sólarorkan og veðrið geta hraðað því að hús hrörni. * Þeir sem aðhyllast þróun geta ekki gefið trúverðuga skýringu á því hvernig orkunni sé stýrt á skapandi hátt.

Ef við lítum hins vegar svo á að lífið og alheimurinn sé handaverk viturs skapara sem er „mikill að mætti“ er bæði komin skýring á hinu flókna upplýsingakerfi lifandi vera og þeim fínstilltu kröftum sem stjórna sjálfu efninu, allt frá ógnarstórum vetrarbrautum til örsmárra atóma. * – Jesaja 40:26.

Nú er almennt viðurkennt að alheimurinn eigi sér upphaf, og það kemur heim og saman við að til sé skapari. „Í upphafi skapaði Guð himin og jörð,“ segir í 1. Mósebók 1:1.

Nýjar uppgötvanir gera mönnum æ erfiðara um vik að verja efnishyggjuna, og það hefur orðið sumum trúleysingjum hvatning til að endurskoða afstöðu sína. * Sumir þeirra hafa komist að þeirri niðurstöðu að öll undur alheimsins séu sýnileg merki um ósýnilega eiginleika og eilífan mátt skaparans, Jehóva Guðs. (Rómverjabréfið 1:20) Væri ekki ástæða til að skoða málið betur? Það er varla hægt að hugsa sér verðugra viðfangsefni. *

[Neðanmáls]

^ Líffræðingurinn Ernst Mayr trúði staðfastlega á þróun en viðurkenndi þó að „steingervingasagan væri gloppótt“ vegna þess að nýjar tegundir lífvera birtust skyndilega.

^ Það sem veldur slíku niðurbroti er annað lögmál varmafræðinnar sem svo er kallað. Þetta lögmál er í hnotskurn á þann veg að það liggi í eðli náttúrunnar að regla breytist í óreiðu.

^ Erfðaefni getur stökkbreyst, til dæmis vegna geislunar eða áhrifa vissra efnasambanda. En stökkbreytingar mynda ekki nýjar tegundir. – Sjá greinina „Er þróun staðreynd“ sem birtist í Vaknið! í október-desember 2006.

^ Sjá bókina Er til skapari sem er annt um okkur? gefin út af Vottum Jehóva.

^ Sjá greinina „Ég var alinn upp sem trúleysingi“ í Vaknið! janúar-mars 2011.

^ Nánari umræðu um sköpun og þróun er að finna í bæklingunum Var lífið skapað? og The Origin of Life – Five Questions Worth Asking, gefnir út af Vottum Jehóva.

[Rammi á bls. 8]

ÞRÓAST MAÐURINN FRAM Á VIÐ EÐA HNIGNAR HONUM?

Sumir vísindamenn hafa af því þungar áhyggjur að genamengi mannkyns fari hnignandi vegna þess að smám saman safnist upp stökkbreytingar eða gallar. Ef það er rétt stingur það í stúf við þá kenningu að mannkynið þróist fram á við. En hvernig getur genamengi mannsins verið gallað ef það er sköpunarverk Guðs? Í Biblíunni fæst svar sem vísindin geta ekki veitt. Þar segir að ófullkomleikinn stafi af því að maðurinn hafi syndgað, það er að segja óhlýðnast Guði. „Syndin kom inn í heiminn með einum manni [Adam] og dauðinn með syndinni,“ segir í Rómverjabréfinu 5:12. Að genamenginu skuli hnigna styður kenningu Biblíunnar en mælir gegn þróunarkenningunni. Ber að skilja það svo að genamenginu eigi eftir að hnigna um ókomna framtíð? Nei, Guð hefur lofað að koma manninum til bjargar og ráða bót á öllu því tjóni sem foreldrar mannkyns ollu. Það er skaparinn en ekki stefnulaus þróun sem mun fullkomna genamengið. – Opinberunarbókin 21:3, 4.

[Rammi á bls. 9]

 HVE LANGT TÍMABIL ER „DAGUR“?

Í Biblíunni er orðið „dagur“ notað um mislöng tímabil. Í 1. Mósebók 2:4 er til dæmis talað um ,þann dag er Drottinn Guð gerði himin og jörð‘ og er þá átt við alla sköpunardagana sex samanlagða. Hver dagur virðist hafa verið töluvert langt tímabil. Það vekur athygli að sköpunardagarnir sex eru allir sagðir hafa endað en það er hvergi minnst á að sjöundi dagurinn hafi tekið enda. Af hverju? Af því að sjöundi dagurinn stendur enn. – 1. Mósebók 2:3; Hebreabréfið 4:4-6, 11.

[Mynd á bls. 8]

Hlutir hrörna og brotna niður ef þeim er ekki haldið við.

[Mynd á bls. 8, 9]

Alheimurinn ber vitni um mátt Guðs og aðra eiginleika hans.