Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

VIÐTAL | FRÉDÉRIC DUMOULIN

„Ég er sannfærður um að til sé skapari“

„Ég er sannfærður um að til sé skapari“

Í meira en áratug hefur Frédéric Dumoulin unnið við lyfjarannsóknir við háskólann í Gent í Belgíu. Hann var trúlaus en sannfærðist síðan um að til sé Guð sem skapaði allt. Frédéric er núna vottur Jehóva og Vaknið! spurði hann út í störf hans og trúna.

Fékkstu trúarlegt uppeldi?

Já. Móðir mín var rómversk-kaþólsk. En þegar ég las um krossferðirnar og rannsóknarréttinn bauð mér við trúarbrögðunum og ég vildi ekkert með þau hafa. Ég las mér líka til um heiðin trúarbrögð og sá að þau voru ekkert betri. Fjórtán ára var ég búinn að mynda mér þá skoðun að fyrst svona mikil spilling viðgengst í trúarbrögðunum geti Guð hreinlega ekki verið til. Þegar ég lærði svo þróunarkenninguna í skóla ályktaði ég að náttúran hefði kveikt lífið.

Hvað vakti áhuga þinn á vísindum?

Þegar ég var sjö ára var mér gefin smásjá og hún varð uppáhaldsleikfangið mitt. Ég notaði hana meðal annars til að rannsaka alls konar heillandi skordýr, eins og fiðrildi.

Hvernig vaknaði áhugi þinn á uppruna lífsins?

Þegar ég var 22 ára hitti ég vísindakonu sem var vottur Jehóva. Hún trúði því að lífið væri skapað af Guði. Það fannst mér stórfurðulegt. Ég taldi mig auðveldlega geta sýnt henni fram á að það væri út í hött að trúa því. En það kom mér á óvart að hún skyldi svara spurningum mínum af viti. Ég varð forvitinn um fólk sem trúði á Guð.

Nokkrum mánuðum síðar hitti ég annan vott Jehóva sem var vel að sér í læknisfræðilegum efnum. Þar sem ég var forvitinn að vita af hverju fólk trúir á Guð þáði ég boð hans um að útskýra fyrir mér hverju hann tryði. Ég vildi koma fyrir hann vitinu.

Gastu snúið honum?

Nei, reyndar ekki. Ég fór sjálfur að grúska í kenningum um uppruna lífsins og það kom mér á óvart að sumir virtir vísindamenn segja að jafnvel einföldustu frumur séu svo flóknar að gerð að þær gætu ekki hafa orðið til á jörðinni. Sumir halda að þær hafi komið utan úr geimnum. Menn greinir mjög á um það hvernig lífið varð til.

Ber þeim saman um eitthvað?

Þótt undarlegt megi virðast eru margir vísindamenn sammála um að einhvern veginn hafi náttúran kveikt líf af lífvana efni. Ég hugsaði með mér: „Ef þeir skilja ekki hvernig lífið gat orðið til án skapara, hvernig geta þeir þá verið svo vissir um að það hafi orðið til án skapara?“ Ég fór að skoða hvað Biblían hefur að segja um uppruna lífsins.

Hvað fannst þér um Biblíuna?

Því meira sem ég lærði um Biblíuna því sannfærðari varð ég um að hún væri sönn. Til dæmis er ekki langt síðan vísindamenn fundu sannanir fyrir því að alheimurinn eigi sér upphaf. En í fyrsta versi Biblíunnar, sem var ritað fyrir um það bil 3.500 árum, segir: „Í upphafi skapaði Guð himin og jörð.“ * Ég komst að raun um að Biblían er alltaf nákvæm þegar hún kemur inn á vísindaleg efni.

Ég komst að raun um að Biblían er alltaf nákvæm þegar hún kemur inn á vísindaleg efni.

Var ekkert erfitt fyrir þig sem vísindamann að trúa á Guð?

Nei. Þegar ég fór að trúa á Guð var ég búinn að vera í háskóla í þrjú ár að læra lyfjafræði. Trú mín á skapara heldur áfram að vaxa því meira sem ég rannsaka hönnun lifandi vera.

Geturðu nefnt dæmi?

Já. Ég hef rannsakað áhrif lyfja og eiturefna á lífverur. Eitt sem heillar mig í því sambandi er hvernig heilinn er varinn fyrir hættulegum efnum og bakteríum. Líkaminn er hannaður með ákveðinn blóðþröskuld sem kemur í veg fyrir að óæskileg efni úr blóðinu komist til heilafrumnanna.

Hvers vegna er það áhugavert?

Fyrir rúmlega hundrað árum komust vísindamenn að því að efni, sem sprautað er í æð, berst með blóðinu um allan líkamann – að undanskildum heilanum og mænunni. Það finnst mér merkilegt af því að öflugt net örsmárra háræða flytur blóðið til hverrar einustu heilafrumu. Blóðið hreinsar heilafrumurnar og færir þeim næringu og súrefni. Lengi vel var það mönnum mikil ráðgáta hvernig frumur heilans eru verndaðar gegn óæskilegum efnum úr blóðinu.

Hvernig virkar þessi blóðþröskuldur?

Örfínar háræðar eru ekki eins og þétt plaströr sem leka engu. Æðaveggirnir eru gerðir úr frumum. Þessar frumur leyfa örverum og ýmsum efnum að seytla í gegnum sig og á milli sín. En frumurnar í háræðum heilans eru öðruvísi. Þær liggja þétt saman. Þessar frumur og samskeyti þeirra eru stórmerkileg. Runa flókinna ferla tryggir að mikilvæg efni eins og súrefni, koltvíoxíð og glúkósi berist milli blóðrásar og heila á skipulegan hátt. En önnur efnasambönd, prótín og frumur fá ekki að berast til heilans. Heila-blóðþröskuldurinn starfar á sameindastiginu og hlutverk hans er að halda óæskilegum efnum og of stórum og of hlöðnum sameindum frá heilanum. Slík hönnun getur einfaldlega ekki hafa þróast að mínu mati.