Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

FORSÍÐUEFNI

Er Biblían bara góð bók?

Er Biblían bara góð bók?

Lokið var við að skrifa Biblíuna fyrir um það bil tvö þúsund árum. Síðan þá hafa ótal bækur litið dagsins ljós og horfið aftur af sjónarsviðinu. En ekki Biblían. Hugleiddu eftirfarandi staðreyndir.

  • Biblían hefur varðveist þrátt fyrir að valdamikið fólk hafi oft reynt að útrýma henni. Í sumum „kristnum“ löndum á miðöldum var til dæmis „það að eiga og lesa Biblíuna á þjóðtungunni [máli almennings] æ oftar flokkað sem villutrú og andóf“, að sögn bókarinnar An Introduction to the Medieval Bible. Fræðimenn hættu lífi sínu með því að þýða Biblíuna á þjóðtungu fólks eða stuðla að því að fólk kynnti sér hana. Sumir þeirra voru teknir af lífi.

  • Biblían varð – og er enn – útbreiddasta bók í sögu mannkyns þrátt fyrir alla andstöðuna gegn henni. Áætlað er að hún hafi verið prentuð í heild eða að hluta í fimm milljörðum eintaka á meira en 2.800 tungumálum. Það er harla ólíkt bókum sem fjalla um heimspeki, vísindi og svipuð efni. Þær hafa yfirleitt takmarkaða útbreiðslu og verða fljótt úreltar.

  • Biblían hefur átt sinn þátt í að varðveita og móta sum þeirra tungumála sem hún hefur verið þýdd á. Þýsk biblíuþýðing Marteins Lúters hafði mikil áhrif á þýska tungu. Sagt hefur verið að fyrsta útgáfa King James-biblíuþýðingarinnar hafi „líklega haft meiri áhrif en nokkur önnur bók sem gefin hefur verið út“ á ensku.

  • Biblían hefur haft „djúpstæð áhrif á vestræna menningu, ekki einungis á trúarlegar kenningar og siði heldur einnig á listir, bókmenntir, lög, stjórnmál og ótal fleira“. – The Oxford Encyclopedia of the Books of the Bible.

Þetta eru aðeins fáein dæmi sem sýna hve einstök bók Biblían er. En af hverju á Biblían svona miklum vinsældum að fagna? Hvers vegna hafa menn hætt lífinu fyrir hana? Ástæðurnar eru meðal annars þessar: Í Biblíunni er að finna viturleg ráð um hvernig við eigum að haga lífi okkar og hvernig við getum átt innihaldsríkt samband við Guð. Biblían hjálpar okkur að skilja hvers vegna mennirnir þjást og heimurinn er sundraður. Þar að auki lofar hún að þessi vandamál taki enda og upplýsir okkur jafnvel um hvernig það verði að veruleika.

Biblían gefur okkur skilning á andlegum og siðferðilegum málum

Menntun er mikilvæg. En „menntun ... sem skilar manni stafarunu á eftir nafninu sínu ... er engin trygging fyrir þroskuðu siðferði,“ segir í ritstjórnargrein dagblaðsins Ottawa Citizen í Kanada. Staðreyndin er að margt hámenntað fólk stelur, svíkur og svindlar – þar á meðal yfirmenn fyrirtækja og háttsettir stjórnmálamenn. Samkvæmt víðtækri könnun á vegum Edelman, sem er alþjóðlegt almannatengslafyrirtæki, er afleiðingin sú að fólk „hættir að treysta þeim sem fara með stjórn“.

Biblían leggur áherslu á menntun í andlegum og siðferðilegum málum. Hún hjálpar okkur að skilja „hvað réttlæti er, réttur og réttsýni ... sérhverja braut hins góða.“ (Orðskviðirnir 2:9) Sem dæmi má nefna 23 ára gamlan mann sem við skulum kalla Stefán. Hann var í fangelsi í Póllandi og meðan hann sat inni fór hann að kynna sér Biblíuna og meta að verðleikum hagnýt ráð hennar. „Núna skil ég hvað það merkir að ,heiðra föður sinn og móður‘,“ skrifaði hann. „Ég hef einnig lært að hafa stjórn á tilfinningum mínum, sérstaklega að takast á við reiðiköst.“ – Efesusbréfið 4:31; 6:2.

Stefán tileinkaði sér meginregluna sem er að finna í Orðskviðunum 19:11: „Það er viska að vera seinn til reiði og sæmd að láta rangsleitni ekki á sig fá.“ Þegar Stefán lendir í erfiðum aðstæðum reynir hann að halda ró sinni, hugsa málið og fylgja viðeigandi meginreglu Biblíunnar. „Ég hef komist að því að Biblían er besti leiðarvísirinn,“ segir hann.

Maria, sem er vottur Jehóva, varð fyrir því að fordómafull kona gerði lítið úr henni á almannafæri og olli talsverðu uppnámi. En í stað þess að svara í sömu mynt hélt Maria ró sinni og gekk í burtu. Hin konan skammaðist sín þá fyrir að hegða sér illa og leitaði vottana uppi. Um mánuði síðar fann hún Mariu loks aftur. Hún faðmaði hana og bað hana afsökunar. Hún gerði sér þar að auki grein fyrir að rósemi og sjálfstjórn Mariu var trú hennar að þakka. Hver var árangurinn? Þessi kona, sem hafði verið mjög fordómafull, og fimm aðrir úr fjölskyldu hennar ákváðu að kynna sér Biblíuna með vottum Jehóva.

Jesús Kristur sagði: „Spekin sannast af verkum sínum.“ (Matteus 11:19) Meginreglur Biblíunnar hafa margoft sannað gildi sitt. Þær draga fram það besta í okkur. Meginreglur hennar ,gera hinn fávísa vitran, gleðja hjartað og hýrga augun‘, vegna þess að þær hjálpa okkur að sjá siðferðileg og andleg mál í skýru ljósi. – Sálmur 19:8, 9.

Biblían útskýrir af hverju mannkynið er sundrað og þjáð

Rannsóknir á farsóttum miða að því að finna upptök þeirra og hvað olli þeim. Það sama gildir um þjáningar og sundrung mannkynsins sem líkja má við faraldur. Biblían hjálpar okkur að skilja hvernig þessi „faraldur“ byrjaði því að hún segir frá upphafi mannkyns og hvernig vandamál mannanna hófust.

Fyrsta Mósebók segir frá því að hörmungar mannskyns hafi byrjað þegar fyrstu hjónin gerðu uppreisn gegn Guði. Meðal annars ákváðu þau að setja sér sínar eigin siðferðisreglur – en aðeins skaparinn hefur rétt til þess. (1. Mósebók 3:1-7) Alla tíð síðan hafa því miður flestir tileinkað sér sama sjálfstæðisanda. Hverjar eru afleiðingarnar? Mannkynið hefur ekki notið frelsis og hamingju heldur er mannkynssagan full átaka, kúgunar, siðferðishnignunar og trúarágreinings. (Prédikarinn 8:9) Biblían segir með réttu: „Enginn maður ... stýrir skrefum sínum.“ (Jeremía 10:23) Misheppnaðar tilraunir manna til að vera siðferðilega óháðir Guði heyra brátt sögunni til. Það eru góðar fréttir.

Biblían gefur okkur von

Guð elskar þá sem virða meginreglur hans og yfirvald. Biblían fullvissar okkur þess vegna um að Guð ætli ekki endalaust að þola illskuna og þjáningarnar sem hún veldur. Hinir illu „fá að neyta ávaxta breytni sinnar“. (Orðskviðirnir 1:30, 31) Á hinn bóginn fá „hinir hógværu ... landið til eignar og gleðjast yfir miklu gengi.“ – Sálmur 37:11.

„[Guð] vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.“ – 1. Tímóteusarbréf 2:3, 4.

Fyrirætlun Guðs er að friður ríki á jörðinni og með „Guðs ríki“ verður það að veruleika. (Lúkas 4:43) Þetta ríki er heimsstjórn sem Guð notar til að beita réttmætu drottinvaldi sínu yfir mannkyninu. Í faðirvorinu tengdi Jesús þetta ríki við jörðina: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji ... á jörðu.“ – Matteus 6:10.

Þegnar Guðsríkis munu gera vilja skaparans og viðurkenna rétt hans til að fara með stjórnina í stað manna. Spilling, græðgi, misskipting auðs, kynþáttafordómar og stríð verða ekki til lengur. Allur heimurinn verður sameinaður í raun undir einni stjórn þar sem allir fylgja sömu lögum í trúarlegum málum og siðferðismálum. – Opinberunarbókin 11:15.

Við þurfum ákveðna menntun til að fá að lifa undir þessari nýju heimsstjórn. „[Guð] vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum,“ segir í 1. Tímóteusarbréfi 2:3, 4. Þessi sannleikur felur í sér fræðslu Biblíunnar um það sem kalla mætti stjórnarskrá Guðsríkis, það er að segja lög og meginreglur sem ríki Guðs mun stjórna eftir. Dæmi um þau má finna í fjallræðu Jesú. (Matteus, kaflar 5-7) Þegar þú lest þessa þrjá kafla skaltu reyna að sjá fyrir þér hvernig lífið verður þegar allir fylgja viturlegum ráðum Jesú.

Það ætti alls ekki að koma okkur á óvart að Biblían skuli vera útbreiddasta bók veraldar. Efni hennar ber með sér að hún sé innblásin af Guði. Og útbreiðsla hennar sýnir að Guð vill að fólk af öllum þjóðum og tungum fái að kynnast sér og njóta góðs af þeim blessunum sem ríki hans mun færa mannkyninu. – Postulasagan 10:34, 35.