Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

FORSÍÐUEFNI | AD TEMJA SÉR GÓÐAR VENJUR

1 Settu þér raunhæf markmið

1 Settu þér raunhæf markmið

Það getur verið freistandi að reyna að breyta öllu á einu bretti. Þú segir kannski við sjálfan þig: „Í þessari viku ætla ég að hætta að reykja, blóta og vaka fram eftir. Og ég ætla að byrja að hreyfa mig, borða hollari mat og vera duglegri að hringja í ömmu og afa.“ En að reyna að ná öllum markmiðum sínum samtímis er öruggasta leiðin til að ná engum þeirra.

RÁÐLEGGING BIBLÍUNNAR: „Hjá hinum hógværu er viska.“ – Orðskviðirnir 11:2.

Sá sem er hógvær er raunsær og gerir sér grein fyrir að hann hefur takmarkaðan tíma, krafta og fjármuni. Hann reynir því að breyta því sem þarf smám saman.

Að reyna að ná öllum markmiðum sínum samtímis er öruggasta leiðin til að ná engum þeirra.

ÞAÐ SEM ÞÚ GETUR GERT

Einbeittu þér að einhverju einu eða tvennu í einu sem þú ætlar að breyta. Eftirfarandi ráð geta hjálpað:

  1. Búðu til tvo lista, annan yfir góðar venjur sem þú vilt temja þér og hinn yfir slæma ávana sem þú þarft að losa þig við. Skrifaðu allt sem þér dettur í hug á þessa lista.

  2. Forgangsraðaðu því sem er á listunum eftir því hvað þér finnst mikilvægast.

  3. Veldu fáein atriði af hvorum lista fyrir sig – jafnvel bara eitt eða tvö – og einbeittu þér að þeim. Síðan geturðu snúið þér að því sem er næst á listunum.

Þú getur tekið hraðari framförum með því að temja þér góða venju um leið og þú losar þig við slæman ávana. Segjum til dæmis að þú hafir skrifað á listann yfir slæma ávana að þú horfir of mikið á sjónvarp og á listann yfir góðar venjur að þú viljir hafa meira samband við vini og ættingja. Þá gætirðu haft samband við vin eða ættingja og spjallað við hann þegar þú kemur heim úr vinnunni í stað þess að kveikja strax á sjónvarpinu.