Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Gleddu þig yfir eiginkonu æsku þinnar“

„Gleddu þig yfir eiginkonu æsku þinnar“

„Gleddu þig yfir eiginkonu æsku þinnar“

„Gleddu þig yfir eiginkonu æsku þinnar . . . Hví skyldir þú, sonur minn, láta aðra konu töfra þig?“ — ORÐSKVIÐIRNIR 5:18, 20, Biblíurit, ný þýðing 1998.

1, 2. Af hverju er svo að orði komist að ást milli hjóna sé blessuð?

BIBLÍAN er ekki tepruleg þegar hún fjallar um kynferðismál. Við lesum í Orðskviðunum 5:18, 19: „Uppspretta þín sé blessuð og gleddu þig yfir eiginkonu æsku þinnar, ástarhindinni, dádýrinu yndislega. Brjóst hennar geri þig ætíð drukkinn og ást hennar fjötri þig ævinlega.“ — Biblíurit, ný þýðing 1998.

2 Orðið „uppspretta“ er notað hér um þá unun sem fylgir kynlífi. Hún er blessuð í þeim skilningi að ástin og unaðurinn, sem hjón njóta, er gjöf frá Guði. Þetta innilega samband á þó aðeins rétt á sér innan hjónabands. Salómon konungur, sem skrifaði Orðskviðina, varpar því fram spurningunni: „Hví skyldir þú, sonur minn, láta aðra konu töfra þig og taka framandi konu í faðm þér?“ — Orðskviðirnir 5:20, Biblíurit, ný þýðing 1998.

3. (a) Hvernig fer fyrir mörgum hjónaböndum? (b) Hvernig lítur Guð á hjúskaparbrot?

3 Á brúðkaupsdeginum heita karl og kona hátíðlega að elska hvort annað og vera hvort öðru trú. Veruleikinn er hins vegar sá að margir gerast sekir um hjúskaparbrot og eyðileggja hjónaband sitt. Rannsóknarmaður nokkur skoðaði á þriðja tug kannana og komst að þeirri niðurstöðu að „25 prósent eiginkvenna og 44 prósent eiginmanna hefðu átt kynmök utan hjónabands“. Páll postuli sagði: „Villist ekki! Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né kynvillingar . . . Guðs ríki erfa.“ (1. Korintubréf 6:9, 10) Það er augljóst að hjúskaparbrot er alvarleg synd í augum Guðs og tilbiðjendur hans mega ekki gera sig seka um ótryggð í hjónabandi. Hvernig getum við gætt þess að ‚hafa hjúskapinn í heiðri og hjónasængina óflekkaða‘? — Hebreabréfið 13:4.

Gættu þín á svikulu hjarta

4. Nefndu dæmi um hvernig gift manneskja gæti lent í ástarsambandi fram hjá hjónabandi án þess að ætla sér það.

4 Í siðspilltu andrúmslofti nútímans er staðan sú að „augu [margra] eru full hórdóms, og þeim verður ekki frá syndinni haldið“. (2. Pétursbréf 2:14) Þeir sækjast eftir ástarsamböndum fram hjá hjónabandi. Víða um lönd er mikill fjöldi kvenna úti á vinnumarkaðinum og þar sem konur og karlar vinna hlið við hlið skapast frjó jörð fyrir slík sambönd. Spjallrásir hafa auk þess auðveldað feimnasta fólki að stofna til náinnar vináttu við hitt kynið á Netinu. Margt gift fólk er gengið í þessa gildru áður en það veit af.

5, 6. Hvernig komst kristin kona í hættulega aðstöðu og hvaða lærdóm má draga af því?

5 Tökum sem dæmi kristna konu sem við skulum kalla Maríu. Hún lenti í aðstöðu þar sem við lá að hún gerði sig seka um hjúskaparbrot. Maðurinn hennar, sem er ekki vottur Jehóva, sýndi fjölskyldunni litla ástúð. Hún segir frá því að fyrir nokkrum árum hafi hún hitt einn af vinnufélögum mannsins síns. Hann var sérlega kurteis í framkomu og með tímanum sýndi hann jafnvel áhuga á trú hennar. „Hann var svo indæll, svo ólíkur manninum mínum,“ segir hún. Áður en varði voru María og vinnufélagi mannsins hennar orðin hrifin hvort af öðru. „Ég hef ekki framið hjúskaparbrot,“ hugsaði hún með sér, „og hann hefur áhuga á Biblíunni. Kannski get ég hjálpað honum.“

6 María kom til sjálfrar sín áður en hún gekk svo langt að fremja hjúskaparbrot. (Galatabréfið 5:19-21; Efesusbréfið 4:19) Samviskan ýtti við henni og hún leiðrétti stefnu sína. Þetta atvik sýnir glöggt að „svikult er hjartað fremur öllu öðru, og spillt er það“. (Jeremía 17:9) Biblían hvetur okkur: „Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru.“ (Orðskviðirnir 4:23) Hvernig förum við að því?

‚Vitur maður felur sig‘

7. Hvaða biblíulegu ráð eru okkur til verndar ef við ætlum að hjálpa manneskju sem á í erfiðleikum í hjónabandinu?

7 „Sá, er hyggst standa, gæti . . . vel að sér, að hann falli ekki,“ skrifaði Páll postuli. (1. Korintubréf 10:12) Og í Orðskviðunum 22:3 segir: „Vitur maður sér ógæfuna og felur sig.“ Það er viturlegt að sjá fyrir aðstæður sem gætu verið ávísun á vandræði, í stað þess að hugsa með sér öruggur í bragði: „Það kemur ekkert fyrir mig.“ Gættu þess til dæmis að vera ekki eini trúnaðarvinur einhvers af hinu kyninu sem á við alvarlega erfiðleika að glíma í hjónabandinu. (Orðskviðirnir 11:14) Segðu honum að það sé best fyrir hann að ræða vandann við maka sinn, við öldungana eða við þroskaða kristna manneskju af sama kyni sem vill stuðla að varðveislu hjónabandsins. (Títusarbréfið 2:3, 4) Öldungarnir í söfnuði Votta Jehóva eru góð fyrirmynd að þessu leyti. Ef öldungur þarf að ræða einslega við systur í söfnuðinum gerir hann það á almannafæri, svo sem í ríkissalnum.

8. Hvers konar varúð er nauðsynleg á vinnustað?

8 Varaðu þig á aðstæðum á vinnustað og annars staðar sem gætu hvatt til of náinna kynna. Til dæmis gæti það boðið upp á freistingar að vinna fram eftir í náinni samvinnu við einhvern af hinu kyninu. Sem giftur einstaklingur ættirðu að gefa skýr skilaboð með orðum þínum og framkomu að þú sért hreinlega ekki til í nein ástarævintýri. Guðrækin manneskja vill alls ekki vekja óeðlilega athygli á sér með því að daðra eða vera ögrandi í klæðaburði eða útliti. (1. Tímóteusarbréf 4:8; 6:11; 1. Pétursbréf 3:3, 4) Það er skýr áminning fyrir þig og aðra að vera með myndir af maka þínum og börnum á vinnustað. Þannig geturðu minnt á hvað sé þér kærast. Vertu staðráðinn í að hvetja hvorki til siðlausra umleitana frá öðrum né umbera þær. — Jobsbók 31:1.

„Njót þú lífsins með þeirri konu, sem þú elskar“

9. Hvaða keðjuverkun getur orðið til þess að annar einstaklingur virðist afar heillandi?

9 Það er ekki nóg að forðast varasamar aðstæður til að varðveita hjartað. Ef gift manneskja verður hrifin af einhverjum utan hjónabandsins gæti það verið vísbending um að hjónin séu ekki vakandi fyrir þörfum hvort annars. Eiginkona fær ef til vill litla athygli frá manni sínum eða eiginmaður situr undir sífelldri gagnrýni. Allt í einu virðist önnur manneskja, annaðhvort á vinnustað eða í söfnuðinum, hafa til að bera alla þá kosti sem makann skortir. Innan skamms eru farin að myndast tilfinningatengsl og nýja sambandið er orðið ómótstæðilega freistandi. Þessi lævísa keðjuverkun staðfestir sannleiksgildi Biblíunnar þegar hún segir: „Það er eigin girnd, sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir.“ — Jakobsbréfið 1:14.

10. Hvernig geta hjón treyst böndin milli sín?

10 Hjón ættu ekki að leita út fyrir hjónabandið til að fullnægja þörfum sínum — hvort heldur það er þörfin fyrir ástúð, vináttu eða stuðning í erfiðleikum — heldur ættu þau að leggja sig í líma við að treysta ástúðlegt samband sín á milli. Styrkið böndin með því að gera eitthvað saman. Rifjið upp hvað gerði ykkur ástfangin hvort af öðru. Reynið að endurvekja ástarylinn sem þið funduð fyrir í garð hvort annars. Rifjið upp góðar stundir sem þið hafið átt saman. Leggið málið fyrir Jehóva í bæn. Sálmaskáldið Davíð sárbændi Jehóva: „Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð, og veit mér nýjan, stöðugan anda.“ (Sálmur 51:12) Vertu ákveðinn í að ‚njóta lífsins með þeirri konu sem þú elskar, alla daga lífs þíns sem Guð hefir gefið þér undir sólinni‘. — Prédikarinn 9:9.

11. Hvernig getur þekking, viska og hyggni styrkt hjónabandið?

11 Þá má ekki gleyma því hvernig þekking, viska og hyggni geta styrkt hjónabandið. Orðskviðirnir 24:3, 4 segja: „Fyrir speki verður hús reist, og fyrir hyggni verður það staðfast, fyrir þekking fyllast forðabúrin alls konar dýrum og yndislegum fjármunum.“ Meðal þeirra ‚yndislegu fjármuna‘, sem fylla hamingjuríkt heimili, eru eiginleikar eins og ást, hollusta, guðsótti og trú. Til að tileinka sér þessa eiginleika þurfum við að hafa þekkingu á Guði. Hjón ættu því að vera duglegir biblíunemendur. Og hve mikilvæg er viska og hyggni? Til að takast á við dagleg vandamál þurfum við að hafa visku, það er að segja að vera fær um að beita biblíuþekkingu. Hygginn maður áttar sig á hugsunum og tilfinningum maka síns. (Orðskviðirnir 20:5) „Son minn, gef gaum að speki minni,“ segir Jehóva fyrir munn Salómons, „hneig eyra þitt að hyggindum mínum.“ — Orðskviðirnir 5:1.

Þegar „þrenging“ steðjar að

12. Af hverju kemur ekki á óvart að hjón lendi stundum í erfiðleikum?

12 Ekkert hjónaband er fullkomið. Biblían segir jafnvel að hjón hljóti „þrenging . . . fyrir hold sitt“. (1. Korintubréf 7:28, Biblían 1912) Áhyggjur, veikindi, ofsóknir og fleira getur reynt á hjónabandið. Þegar erfiðleikar steðja að þurfið þið að leita lausnar í sameiningu sem trúföst hjón og leggja ykkur fram um að þóknast Jehóva.

13. Hvaða spurninga gætu eiginmaður og eiginkona spurt sig?

13 En hvað er til ráða ef það er framkoma hjónanna hvort við annað sem reynir á hjónabandið? Það kostar áreynslu að leysa vandann. Ef til vill hafið þið smám saman vanið ykkur á að vera hranaleg í tali þannig að það er farið að einkenna samskipti ykkar. (Orðskviðirnir 12:18) Þetta getur haft mjög skaðleg áhrif eins og fram kemur í greininni á undan. Orðskviður segir: „Betra er að búa í eyðimerkur-landi en með þrasgjarnri og geðillri konu.“ (Orðskviðirnir 21:19) Eiginkona gæti spurt sig hvort lunderni hennar geri að verkum að eiginmanninum finnist erfitt að vera í návist hennar. Biblían segir eiginmönnum: „Elskið eiginkonur yðar og verið ekki beiskir við þær.“ (Kólossubréfið 3:19) Eiginmaður gæti spurt sig hvort hann sé kuldalegur í viðmóti þannig að konan freistist til að leita sér hughreystingar annars staðar. Að sjálfsögðu er ekkert sem afsakar kynferðislegt siðleysi. Það er hins vegar sorgleg staðreynd að slíkt getur átt sér stað og það er full ástæða til að ræða vandamál hreinskilnislega.

14, 15. Af hverju leysir það ekki vandamál hjóna að leita sér huggunar annars staðar?

14 Það leysir ekki vandamál hjóna að leita sér huggunar í ástarsambandi fram hjá hjónabandinu. Hverju myndi slíkt samband skila? Nýju og betra hjónabandi? Sumir ímynda sér það kannski. „Þessi manneskja hefur nú allt til að bera sem ég þarfnast,“ hugsa þeir með sér. En það er sjálfsblekking að hugsa þannig því að sá sem yfirgefur maka sinn — eða hvetur þig til að yfirgefa maka þinn — ber litla virðingu fyrir helgi hjónabandsins. Það er órökrétt að ímynda sér að slíkt samband skili sér í betra hjónabandi.

15 María, sem áður er getið, hugleiddi alvarlega hvaða afleiðingar það hefði að halda áfram á sömu braut, og hún gerði sér grein fyrir því að hún gæti bakað sér eða öðrum vanþóknun Guðs. (Galatabréfið 6:7) Hún segir: „Þegar ég fór að skoða tilfinningar mínar í garð vinnufélaga mannsins míns rann það upp fyrir mér að ég var að vinna á móti því að þessi maður ætti nokkurn möguleika á því að kynnast sannleikanum. Með því að syndga myndi ég hafa skaðleg áhrif á alla sem hlut áttu að máli og hneyksla aðra.“ — 2. Korintubréf 6:3.

Sterkasta hvötin til að vera trúr

16. Nefndu dæmi um eftirköst siðleysis.

16 Biblían aðvarar: „Því að hunangsseimur drýpur af vörum lauslátrar konu, og gómur hennar er hálli en olía. En að síðustu er hún beiskari en malurt, beitt eins og tvíeggjað sverð.“ (Orðskviðirnir 5:3, 4) Eftirköst siðleysis eru sársaukafull og geta verið banvæn. Þau geta meðal annars verið samviskubit, samræðissjúkdómar og miklar sálarkvalir hjá maka hins brotlega. Það er góð og gild ástæða til að hætta sér alls ekki út á þá braut sem getur leitt til ótryggðar í hjónabandi.

17. Hver er sterkasta hvötin til að vera maka sínum trúr?

17 Meginástæðan fyrir því að það er rangt að vera maka sínum ótrúr er sú að Jehóva fordæmir það en hann stofnaði hjónabandið og gaf manninum kynhvötina. Hann segir fyrir munn Malakís spámanns: „Ég mun nálægja mig yður til að halda dóm og mun skyndilega fram ganga sem vitni í gegn . . . hórdómsmönnum.“ (Malakí 3:5) Orðskviðirnir 5:21 segja: „Vegir hvers manns blasa við Drottni, hann gætir að öllum leiðum hans.“ (Biblíurit, ný þýðing 1998) Já, „allt er bert og öndvert augum hans. Honum eigum vér reikningsskil að gjöra.“ (Hebreabréfið 4:13) Sterkasta hvötin til að vera maka sínum trúr er sú vitneskja að kynferðislegt siðleysi í hvaða mynd sem er spillir sambandi okkar við Jehóva, og skiptir þá ekki máli hve leynt siðleysið fer eða hve litlar líkamlegar eða félagslega afleiðingar það virðist hafa.

18, 19. Hvað má læra af samskiptum Jósefs við konu Pótífars?

18 Jósef, sonur ættföðurins Jakobs, er gott dæmi um að löngunin til að eiga frið við Guð er sterk hvatning til að vera trúr. Hann hlaut náð í augum Pótífars, sem var hirðmaður faraós, og fékk ábyrgðarstöðu í húsi hans. Jósef var „vel vaxinn og fríður sýnum“ og það fór ekki fram hjá eiginkonu Pótífars. Daglega reyndi hún að táldraga hann en án árangurs. Hvernig tókst Jósef að standast umleitanir hennar? Í Biblíunni segir: „Hann færðist undan og sagði við konu húsbónda síns: ‚Sjá, húsbóndi minn . . . fyrirmunar mér ekkert nema þig, með því að þú ert kona hans. Hvernig skyldi ég þá aðhafast þessa miklu óhæfu og syndga á móti Guði?“ — 1. Mósebók 39:1-12.

19 Jósef var ókvæntur en hann hélt sér siðferðilega hreinum með því að neita að eiga í tygjum við konu annars manns. Orðskviðirnir 5:15 segja kvæntum mönnum: „Drekk þú vatn úr vatnsþró þinni og rennandi vatn úr brunni þínum.“ Gættu þess að láta það ekki henda þig, ekki einu sinni óviljandi, að verða hrifinn af einhverjum öðrum en maka þínum. Leggðu þig í líma við að glæða ástina í hjónabandi þínu og leggðu hart að þér að leysa hver þau vandamál sem koma upp. Já, „gleddu þig yfir eiginkonu æsku þinnar“. — Orðskviðirnir 5:18, Biblíurit, ný þýðing 1998.

Hvað lærðir þú?

• Hvernig gæti kristinn maður orðið hrifinn af einhverjum öðrum en maka sínum án þess að ætla sér það?

• Hvernig er hægt að sporna gegn hættunni á ástarsambandi fram hjá hjónabandi?

• Hvað ættu hjón að gera þegar þau eiga í erfiðleikum?

• Hver er sterkasta hvatningin til að vera maka sínum trúr?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 27]

Vinnustaðurinn getur því miður orðið vettvangur ástarsambanda fram hjá hjónabandi.

[Mynd á blaðsíðu 29]

„Fyrir þekking fyllast forðabúrin alls konar . . . yndislegum fjármunum.“