Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

FORSÍÐUEFNI: ÆTTIRÐU AÐ ÓTTAST HEIMSENDI?

Heimsendir – ótti, hrifning og vonbrigði

Heimsendir – ótti, hrifning og vonbrigði

Hvernig hugsaðir þú um 21. desember 2012? Samkvæmt dagatali Maya-indíána átti heimurinn að gerbreytast þennan dag og margir trúðu að það myndi gerast. Við hverju bjóst þú? Varðstu kannski vonsvikinn, var þér létt eða stóð þér á sama? Var þetta bara enn ein heimsendaspáin sem rættist ekki?

Hvað á Biblían þá við þegar hún talar um ,endalok veraldar‘? (Matteus 24:3, Biblían 1981) Sumir óttast að jörðin farist í eldi. Aðrir eru spenntir að sjá hvað muni gerast við endalokin. Og margir hafa hreinlega fengið nóg af því að heyra að heimsendir sé nálægur. Gæti verið að slík viðbrögð byggist á því sem fólk ímyndar sér um heimsendi en ekki á staðreyndum?

Það gæti komið þér á óvart að sjá hvað Biblían segir um heimsendi. Í Biblíunni eru gefnar ástæður fyrir því að hlakka til endalokanna en þar er líka talað um vonbrigðin sem það gæti haft í för með sér að finnast endirinn hafa dregist á langinn. Hví ekki að skoða svör Biblíunnar við nokkrum algengum spurningum um heimsendi?

Mun jörðin farast í eldi?

BIBLÍAN SEGIR: „[Guð] grundvallar jörðina á undirstöðum hennar svo að hún haggast eigi um aldur og ævi.“ – SÁLMUR 104:5.

Jörðinni verður ekki eytt, hvorki með eldi né nokkru öðru. Biblían kennir að jörðin sé heimili manna að eilífu. Í Sálmi 37:29 segir: „Réttlátir fá landið til eignar og búa þar ævinlega.“ – Sálmur 115:16; Jesaja 45:18.

Eftir að Guð skapaði jörðina sagði hann að sköpunarverk sitt væri „harla gott“ og hann er enn þeirrar skoðunar. (1. Mósebók 1:31) Hann hefur alls ekki í hyggju að eyða henni heldur lofar hann að „eyða þeim sem jörðina eyða“ og vernda hana gegn varanlegum skaða. – Opinberunarbókin 11:18.

Þú hefur þó kannski furðað þig á því sem stendur í 2. Pétursbréfi 3:7: „Eins ætlar Guð með sama orði að eyða með eldi himnunum sem nú eru ásamt jörðinni.“ Segir ekki hér að jörðin verði brennd til kaldra kola? Í Biblíunni eru orðin „himinn“, „jörð“ og „eldur“ oft notuð í óeiginlegri merkingu. Til dæmis segir í 1. Mósebók 11:1 (Biblían 1981): „Öll jörðin hafði eitt tungumál og ein og sömu orð.“ Hér merkir orðið „jörð“ mannkynið sem þá var uppi.

Af versunum á undan 2. Pétursbréfi 3:7 sjáum við að himnarnir, jörðin og eldurinn eru táknræn. Í versi 5 og 6 er dregin upp hliðstæða við flóðið á dögum Nóa. Þáverandi heimi var tortímt en jarðarkringlunni var samt ekki eytt. Þess í stað eyddi flóðið illu og ofbeldisfullu mannkyni, það er að segja „jörðinni“. Það eyddi líka í vissum skilningi „himnunum“ – mönnum sem ríktu yfir fólkinu á þeim tíma. (1. Mósebók 6:11) Á sama hátt segir í 2. Pétursbréfi 3:7 að illvirkjum og spilltum stjórnvöldum verði útrýmt fyrir fullt og allt, rétt eins og þau yrðu brennd í eldi.

Hvað hefur heimsendir í för með sér?

BIBLÍAN SEGIR: „Heimurinn fyrirferst og fýsn hans en sá sem gerir Guðs vilja varir að eilífu.“ – 1. JÓHANNESARBRÉF 2:17.

„Heimurinn“ sem fyrirferst er ekki jörðin heldur sá mannheimur sem lifir ekki í samræmi við vilja Guðs. Eins og skurðlæknir sem fjarlægir krabbameinsæxli til að bjarga lífi sjúklings mun Guð ,tortíma‘ hinum illu svo að góðir menn fái að njóta lífsins til fulls á jörðinni. (Sálmur 37:9) Í þeim skilningi eru ,endalok veraldar‘ fagnaðarefni.

Í sumum biblíuþýðingum er dregin upp þessi jákvæða mynd af ,endalokum veraldar‘ því að þar er orðalagið ýmist þýtt ,endalok heimskerfisins‘ eða „endir aldarinnar“. (Matteus 24:3, New World Translation; New International Version) Fyrst bæði jörðin og mannkynið komast lífs af er þá ekki skynsamlegt að álykta sem svo að nýr heimur eða nýtt heimskerfi taki við? Biblían gefur það skýrt til kynna því að hún talar um ,hinn komandi heim‘. – Lúkas 18:30.

Jesús segir að þá verði allt „endurnýjað“. Á þeim tíma mun hann búa mönnunum þær fullkomnu aðstæður sem Guð ætlaði þeim í upphafi. (Matteus 19:28) Þá munum við sjá:

Ef við gerum „Guðs vilja“, allt sem hann biður okkur um, þá þurfum við ekki að óttast heimsendi. Við getum öllu heldur hlakkað til þess tíma.

Er heimsendir í nánd?

BIBLÍAN SEGIR: „Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að Guðs ríki er í nánd.“ – LÚKAS 21:31.

Prófessor Richard Kyle bendir á í bók sinni The Last Days Are Here Again að „skyndilegar breytingar og félagslegur glundroði skapi andrúmsloft sem ýtir undir heimsendaspár“. Þetta á sérstaklega við þegar erfitt er að koma auga á hvað veldur þessum breytingum og glundroða.

En spámennirnir, sem Biblían talar um að hafi spáð um endalokin, voru ekki að reyna að útskýra torskilda atburði síns tíma. Þeir fengu öllu heldur innblástur frá Guði til að lýsa ástandi sem myndi benda til að heimsendir væri í nánd. Skoðaðu nokkra þessara spádóma og hugleiddu hvort þeir eru að rætast á okkar dögum.

Jesús sagði að þegar við sæjum „allt þetta“ myndum við vita að endirinn væri nærri. (Matteus 24:33) Vottum Jehóva finnst rökin fyrir því sannfærandi og boða þess vegna öðrum trúna í 236 löndum.

Verður enginn heimsendir fyrst svona margir hafa gert sér falskar vonir um komu hans?

BIBLÍAN SEGIR: „Þegar menn segja: ,Friður og engin hætta,‘ þá kemur snögglega tortíming yfir þá eins og jóðsótt yfir þungaða konu. Og þeir munu alls ekki undan komast.“ – 1. ÞESSALONÍKUBRÉF 5:3.

Biblían líkir endalokum veraldar við fæðingarhríðir. Sársaukinn sem verðandi móðir finnur fyrir er óumflýjanlegur og kemur skyndilega. Tímabilið áður en endirinn kemur er líka eins og meðganga. Kona sem gengur með barn finnur æ betur fyrir barninu og ýmsum merkjum um að fæðingin sé í nánd. Læknir gæti áætlað fæðingardaginn en þó svo að meðgangan dragist á langinn er móðirin fullviss um að barnið fæðist. Eins er það þegar fólk gerir sér falskar vonir um komu endalokanna, það breytir ekki þeirri staðreynd að tákn hinna ,síðustu daga‘ eru augljós. – 2. Tímóteusarbréf 3:1.

En þú gætir samt spurt: „Af hverju er þá ekki öllum ljóst að endalokin vofi yfir?“ Biblían segir að þegar endirinn sé í nánd geri margir lítið úr táknunum. Í stað þess að gera sér grein fyrir þeim miklu breytingum sem myndu eiga sér stað á „síðustu dögum“ myndu þeir hæðast að þeim sem trúa og segja: „Síðan feðurnir sofnuðu stendur allt við hið sama eins og frá upphafi veraldar.“ (2. Pétursbréf 3:3, 4) Með öðrum orðum sýna táknin skýrt fram á að við lifum núna á síðustu dögum, en margir loka samt augunum fyrir því. – Matteus 24:38, 39.

Við höfum nú farið yfir nokkra spádóma Biblíunnar sem sýna fram á að endalokin eru í nánd. * Langar þig ekki til að kynna þér málið betur? Við hvetjum þig til að hafa samband við Votta Jehóva og fá ókeypis biblíunámskeið. Námið getur farið fram þar sem þér hentar, á heimili þínu eða jafnvel í síma. Það eina sem þú þarft að sjá af er eitthvað af tíma þínum en þú gætir uppskorið ómetanleg verðmæti.

^ gr. 39 Nánari upplýsingar er að finna í bókinni Hvað kennir Biblían?, í kafla 9 sem ber heitið „Lifum við á ,síðustu dögum‘?“. Bókin er gefin út af Vottum Jehóva.