Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁLÆGÐU ÞIG GUÐI

„Þú hefur ... opinberað það smælingjum“

„Þú hefur ... opinberað það smælingjum“

Viltu vita sannleikann um Guð – hver hann er, hvað honum líkar og hvað honum mislíkar og hver fyrirætlun hans er? Í orði sínu, Biblíunni, opinberar Jehóva Guð allan sannleikann um sjálfan sig. Það er samt ekki á færi allra sem lesa í Biblíunni að skilja þennan sannleika til fulls. Hvers vegna ekki? Vegna þess að skilningur á biblíusannindum er afar sérstakur og fáum gefinn. Lítum á það sem Jesús sagði um þetta mál. – Lestu Matteus 11:25.

Af versunum á undan sjáum við að Jesús ávítaði íbúa þriggja borga í Galíleu. Hvers vegna gerði hann það? Hann hafði unnið kraftaverk í þeirra þágu en þeir höfðu samt engan áhuga á að gerast lærisveinar hans. (Matteus 11:20-24) Þú hugsar kannski með þér: „Hvernig gat fólkið horft á Jesú gera kraftaverk en ekki trúað því sem hann kenndi og fylgt honum?“ Fólkið tók ekki við sér því að þrjóska og stolt höfðu fest rætur í hjarta þess. – Matteus 13:10-15.

Jesús vissi að það er einkum tvennt sem hjálpar okkur að öðlast skilning á sannindum Biblíunnar: Hjálp frá Guði og rétt hjartalag. Jesús segir: „Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum.“ Áttarðu þig á hvers vegna það er svona sérstakt að fá að skilja sannindi Biblíunnar? Jehóva, „Drottinn himins og jarðar“, getur með réttu hulið eða opinberað sannleikann þeim sem hann vill. En hann gerir það þó ekki af handahófi. Hvernig ákveður hann hverjum sannleikur Biblíunnar skuli opinberaður og hverjum ekki?

Jehóva hefur mætur á auðmjúkum mönnum en ekki dramblátum. (Jakobsbréfið 4:6) Hann hylur sannleikann „spekingum og hyggindamönnum“, það er að segja hálærðum mönnum og þeim sem virðast vitrir í augum annarra. Þeir treysta á eigin visku og vegna stolts sjá þeir ekki þörf á því að þiggja hjálp Guðs. (1. Korintubréf 1:19-21) Guð opinberar hins vegar „smælingjum“ sannleikann, það er að segja þeim sem leita hans í einlægni og eru auðmjúkir eins og börn. (Matteus 18:1-4; 1. Korintubréf 1:26-28) Jesús, sonur Guðs, þekkti þessar tvær manngerðir vel. Margir hámenntaðir og stoltir trúarleiðtogar skildu ekki boðskap Jesú en auðmjúkir fiskimenn gerðu það. (Matteus 4:18-22; 23:1-5; Postulasagan 4:13) Þó gerðust sumir, sem voru ríkir og vel menntaðir, fylgjendur Jesú vegna þess að þeir voru einlægir og auðmjúkir. – Lúkas 19:1, 2, 8; Postulasagan 22:1-3.

Snúum okkur aftur að spurningunni í byrjun greinarinnar: Viltu vita sannleikann um Guð? Ef svo er finnst þér eflaust hvetjandi að hugsa til þess að Guð er ekki hliðhollur þeim sem upphefja sjálfa sig og þykjast vitrir. Hins vegar hefur hann dálæti á fólki sem slíkir menn líta jafnvel niður á. Ef þú kynnir þér orð Guðs af réttum hvötum gætir þú verið í hópi þeirra sem fá þá dýrmætu gjöf frá Guði að skilja sannleikann um hann. Þá verður líf þitt hamingjuríkara og þú gætir öðlast „hið sanna líf“ – eilíft líf í réttlátum nýjum heimi sem Guð hefur lofað að komi innan skamms. * – 1. Tímóteusarbréf 6:12, 19; 2. Pétursbréf 3:13.

Tillaga að biblíulestri í janúar og febrúar

Matteus 1-28 Markús 1-8

^ gr. 4 Vottum Jehóva er það sönn ánægja að mega hjálpa þér að kynnast sannleikanum um Guð og fyrirætlun hans. Þeir bjóða upp á ókeypis biblíunámskeið og nota til þess bókina Hvað kennir Biblían?