Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Finnst þér Guð hafa brugðist þér?

Finnst þér Guð hafa brugðist þér?

„AF HVERJU ÉG? Af hverju leyfði Guð að ég yrði fyrir þessu?“ Þessar spurningar sóttu á Sidnei sem er 24 ára og býr í Brasilíu. Hann slasaðist í vatnsrennibraut og hefur verið bundinn við hjólastól síðan.

Fólki getur fundist Guð hafa brugðist sér þegar það lendir í slysi, veikist alvarlega, missir ástvin eða þjáist af völdum náttúruhamfara eða stríðsátaka. Það er alls ekkert nýtt. Ættfaðirinn Job, sem sagt er frá í Biblíunni, varð fyrir hverju áfallinu á fætur öðru. Hann kenndi Guði ranglega um og sagði: „Ég hrópa til þín en þú svarar ekki, ég stend kyrr en þú verður mín ekki var. Þú ert orðinn grimmur við mig, ræðst gegn mér af alefli.“ – Jobsbók 30:20, 21.

Job vissi ekki hvers vegna hann þurfti að þola þessar raunir og skildi ekki heldur hvers vegna Guð kom ekki í veg fyrir þær. Sem betur fer upplýsir Biblían okkur um ástæðuna fyrir því að svona lagað gerist og segir hvernig við ættum að bregðast við því.

VAR ÞAÐ ÆTLUN GUÐS AÐ MENNIRNIR ÞJÁÐUST?

Í Biblíunni kemur eftirfarandi fram um Guð: „Fullkomin eru verk hans, því að allir vegir hans eru réttlæti. Trúfastur Guð og tállaus, réttlátur og réttvís er hann.“ (5. Mósebók 32:4, Biblían 1981) Fyrst Guð er „réttlátur og réttvís“ finnst okkur eflaust órökrétt og óskiljanlegt að hann hafi ætlað mönnunum að þjást eða leiði alls konar böl yfir þá til að refsa þeim eða göfga.

Biblían segir hins vegar, og talar þá um freistingar og prófraunir almennt: „Enginn má segja er hann verður fyrir freistingu: ,Guð freistar mín.‘ Hið illa getur eigi freistað Guðs og sjálfur freistar hann einskis manns.“ (Jakobsbréfið 1:13) Biblían kennir reyndar að mannkynið hafi búið við fullkomnar aðstæður í byrjun. Guð gaf Adam og Evu fagurt heimili, allar lífsnauðsynjar og innihaldsríkt hlutverk. Guð sagði við þau: „Verið frjósöm, fjölgið ykkur og fyllið jörðina, gerið ykkur hana undirgefna.“ Adam og Eva höfðu alls enga ástæðu til að finnast Guð hafa brugðist sér. – 1. Mósebók 1:28.

Lífsskilyrði fólks nú á dögum eru þó langt frá því að vera fullkomin. Mannkynið hefur þurft að þola alls konar bágindi í aldanna rás. Lýsing Biblíunnar er dagsönn: „Öll sköpunin stynur líka og hefur fæðingarhríðir allt til þessa.“ (Rómverjabréfið 8:22) Hvað gerðist?

AF HVERJU ÞJÁST MENNIRNIR?

Til að skilja orsakir þjáninganna skulum við fara aftur til þess tíma þegar þær hófust. Guð bannaði Adam og Evu að borða af „skilningstré góðs og ills“ sem táknaði að það væri réttur hans að ákveða hvað væri rétt og rangt. Uppreisnargjarn engill, síðar kallaður Satan djöfullinn, fékk þau til að brjóta gegn þessu banni. Satan sagði Evu að þau myndu ekki deyja ef þau óhlýðnuðust Guði og ásakaði Guð þar með um að hafa logið að þeim. Hann sakaði Guð líka um að meina þegnum sínum um þann rétt að ákveða sjálfir hvað væri gott og illt. (1. Mósebók 2:17; 3:1-6) Hann gaf í skyn að mannkynið yrði betur sett án yfirráða Guðs. Þessar ásakanir vöktu upp spurningu sem þurfti að svara: Var Guð hæfur stjórnandi?

Satan kom með aðra ásökun. Hann sakaði mennina um að þjóna Guði í eigingjörnum tilgangi. Hann sagði við Guð: „Hefur þú ekki verndað hann [Job], hús hans og eignir á alla lund? ... En réttu út hönd þína og snertu allt sem hann á, þá mun hann vissulega formæla þér upp í opið geðið.“ (Jobsbók 1:9-11) Þótt Satan beindi ásökunum sínum að Job gaf hann óbeint í skyn að allir menn þjónuðu Guði af eigingjörnum hvötum.

HVERNIG SVARAR GUÐ ÁSÖKUNUM SATANS?

Hver var besta leiðin til að svara þessum alvarlegu ásökunum Satans í eitt skipti fyrir öll? Alvitur Guð var með bestu lausnina og hún á alls ekki eftir að valda okkur vonbrigðum. (Rómverjabréfið 11:33) Hann ákvað að leyfa mönnunum að ráða málum sínum sjálfir um skeið og láta tímann leiða í ljós hvort þeir væru betur settir án hans eða undir stjórn hans.

Ástandið í heiminum er ömurlegt og það er skýr sönnun þess að mönnunum hefur mistekist hrapallega að stjórna. Þeim hefur ekki tekist að koma á friði og öryggi og tryggja mönnum hamingju. Þeir eru einnig á góðri leið með að eyðileggja jörðina. Þetta staðfestir þau grundvallarsannindi, sem koma fram í Biblíunni, að það sé ekki „á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínum“. (Jeremía 10:23, Biblían 1981) Aðeins stjórn Guðs getur tryggt mannkyni varanlegan frið, hamingju og velsæld enda var það ætlun Guðs frá byrjun. – Jesaja 45:18.

Hvernig ætlar Guð þá að láta fyrirætlun sína með mennina ná fram að ganga? Eins og þú veist kenndi Jesús fylgjendum sínum að biðja á þessa leið: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:10) Þegar þar að kemur ætlar Guð fyrir tilstuðlan ríkis síns að útrýma öllu sem veldur þjáningum. (Daníel 2:44) Fátækt, sjúkdómar og dauði heyra þá sögunni til. Biblían segir hvað Guð ætlar að gera fyrir fátæka: „Hann bjargar hinum snauða, sem hrópar á hjálp.“ (Sálmur 72:12-14) Og hann ætlar líka að útrýma sjúkdómum því að í Biblíunni segir: „Enginn borgarbúi mun segja: ,Ég er veikur.‘“ (Jesaja 33:24) Jesús sagði um hina dánu sem Guð geymir í minni sínu: „Sú stund kemur þegar allir þeir sem í gröfunum eru munu heyra raust hans og ganga fram.“ (Jóhannes 5:28, 29) Eru þetta ekki dásamleg loforð?

Að styrkja þá trú að Guð uppfylli loforð sín hjálpar okkur að sigrast á þeirri tilfinningu að hann hafi brugðist okkur.

AÐ SIGRAST Á VONBRIGÐUM

Sidnei, sem minnst var á í byrjun greinarinnar, segir í viðtali 17 árum síðar: „Ég kenndi Jehóva Guði aldrei um slysið en ég verð að viðurkenna að í fyrstu fannst mér hann hafa brugðist mér. Suma daga er ég langt niðri og ég græt stundum þegar ég hugsa um líkamlega fötlun mína. En Biblían hefur hjálpað mér að skilja að slysið var ekki refsing frá Guði. Hún segir að ,tími og tilviljun hitti alla fyrir‘. Að biðja til Jehóva og lesa ákveðin vers í Biblíunni hefur styrkt mig í trúnni og hjálpað mér að vera jákvæður.“ – Prédikarinn 9:11; Sálmur 145:18; 2. Korintubréf 4:8, 9, 16.

Það hjálpar okkur að sigrast á þeirri tilfinningu að Guð hafi brugðist okkur ef við höfum í huga hvers vegna hann hefur leyft þjáningar og hvernig hann ætlar að þurrka út áhrif þeirra. Við megum vera viss um að ,Guð umbunar þeim er leita hans‘. Enginn sem reiðir sig á hann og son hans verður fyrir vonbrigðum. – Hebreabréfið 11:6; Rómverjabréfið 10:11.