Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Í skugga eldfjallsins

Í skugga eldfjallsins

Bréf frá lýðveldinu Kongó

Í skugga eldfjallsins

ÞEGAR sólin rís yfir borginni Goma skartar himinninn sínum fegurstu litum. Á hverjum morgni blasir Nyiragongofjall við okkur í allri sinni dýrð en það er eitt virkasta eldfjall heims. Stöðugur reykjarstrókur stendur upp úr opnum eldgígnum. Að næturlagi slær rauðum glampa á strókinn vegna endurkasts frá hraunkvikunni.

Á svahilí er fjallið kallað Mulima ya Moto – Fjall eldsins. Margir vina og nágranna okkar í Goma misstu allar eigur sínar í síðasta stóra gosi í Nyiragongo árið 2002. Sums staðar á svæðinu, þar sem ég og eiginmaður minn prédikum, göngum við með fram úfnu hrauni og ég ímynda mér að svona líti yfirborð tunglsins út. En fólkið er ólíkt storknuðu hrauninu. Það er mjög líflegt og hjörtu þess eru opin og mótækileg fyrir fagnaðarboðskapnum sem við boðum. Það er því ánægjulegt ævintýri að prédika í skugga eldfjallsins.

Það er laugardagsmorgunn og ég vakna með tilhlökkun í hjarta. Við hjónin, ásamt vinum okkar og öðrum trúboðum, ætlum að nýta daginn til að prédika í flóttamannabúðunum í Mugunga, rétt vestan við Goma. Margir sem búa þar hafa flúið undan árásum á heimabæi sína.

Við hlöðum bílinn biblíutengdum ritum á frönsku, kí-svahilí og kinjarúanda og leggjum síðan af stað. Þegar við hossumst á holóttum Sake-veginum sjáum við hvernig borgin lifnar við. Ungir menn ýta á undan sér þungt hlöðnum chukudus (handsmíðuð hlaupahjól úr tré sem notuð eru til að flytja vörur). Konur vafðar skærlituðum pilsum ganga tígulegar með fram veginum með stóra böggla á höfði. Yfirbyggð vélhjól flytja fólk til og frá vinnu eða á markaðina. Alls staðar má sjá brún og svört timburhús með blámáluðum listum kringum dyr og glugga.

Við stoppum við ríkisalinn í Ndosho þar sem við hittum trúsystkini okkar sem ætla að koma með okkur. Það snertir mig djúpt að sjá börn, ekkjur, munaðarleysingja og þá sem glíma við líkamlegar takmarkanir. Mörg þeirra hafa þjáðst mikið en hafa bætt líf sitt með því að fylgja meginreglum Biblíunnar. Framtíðarvon Biblíunnar brennur í hjarta þeirra og þau eru áköf í að deila henni með öðrum. Eftir stuttar umræður, þar sem við fáum tillögur um biblíuvers sem gætu reynst uppörvandi fyrir fólk sem við hittum, leggjum við öll 130 af stað í fimm smárútum og á einum fjórhjóladrifnum bíl.

Eftir um það bil hálftíma komum við á áfangastað. Hundruð lítil hvít tjöld hafa verið reist á hrauninu. Í miðjum búðunum er snyrtileg röð af almenningssalernum og sameiginleg þvottaaðstaða. Hvarvetna er fólk að elda, þvo, afhýða baunir eða að sópa fyrir framan tjöldin sín.

Við hittum mann sem er kallaður Papa Jacques og ber ábyrgð á hluta búðanna. Hann hefur áhyggjur af uppeldi barna sinna á þessum erfiðu tímum. Þegar við létum hann fá bókina Spurningar unga fólksins – svör sem duga var hann mjög ánægður, sagðist ætla að lesa hana og hóa síðan saman fólki í litlum hópum til að miðla því sem hann hefði lært.

Stuttu síðar hittum við konu sem er kölluð Mama Beatrice. Hún spyr okkur af hverju Guð leyfi þjáningar. Hún heldur að Guð hljóti að vera að refsa henni. Eiginmaður hennar var drepinn í stríðinu, dóttir hennar er einstæð móðir sem á erfitt með að ala upp barnið í tjaldbúðunum og syni hennar var rænt fyrir nokkrum mánuðum. Til hans hefur ekkert spurst.

Sorgarsaga Beatricear minnir mig á sögu Jobs og hvernig honum hefur örugglega liðið við að heyra allar þær slæmu fregnir sem honum bárust. Við sýnum henni af hverju við þjáumst og fullvissum hana um að þjáningar hennar séu ekki refsing frá Guði. (Job. 34:10-12; Jak. 1:14, 15) Við bendum henni einnig á hvaða breytingar munu eiga sér stað hér á jörðinni innan tíðar fyrir atbeina Guðsríkis. Nú er hún farin að brosa og segist vera staðráðin í að halda áfram að kynna sér Biblíuna og biðja Guð um að hjálpa sér.

Allir í hópnum eru ánægðir með daginn og okkur finnst Jehóva svo sannarlega hafa hjálpað okkur að uppörva þá sem við hittum og veita þeim von. Þegar við yfirgefum tjaldbúðirnar kveðja margir íbúanna okkur með því að veifa til okkar með blöð, smárit eða bækur í höndum.

Á leiðinni heim gefst tími til að rifja upp atburði þessa einstaka dags. Ég fyllist gleði þegar ég minnist hversu þakklátur Papa Jacques var, hvað það létti yfir Mömu Beatrice og þéttu handtaki gömlu konunnar sem tjáði sig aðeins með brosi. Ég hugsa einnig til unglinganna sem voru mjög þroskaðir miðað við aldur og spurðu skynsamlegra spurninga. Ég dáist af sterkri skapgerð þessa fólks sem getur enn þá brosað og hlegið þrátt fyrir ótrúlegar þjáningar.

Í þessum heimshluta verðum við vitni að einlægri viðleitni marga sem reyna að aðstoða þá sem þjást. Það var mikill heiður að fá að nota Biblíuna til að sýna fólki hvar finna megi varanlega lausn á vandamálum þeirra. Ég hef mikla ánægju af því að taka þátt í mesta hjálparstarfi sögunnar og vera meðal þeirra sem aðstoða fólk við að kynnast Guði.