Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig á að fræða börnin um Guð? – Hvaða aðferðir reynast best?

Hvernig á að fræða börnin um Guð? – Hvaða aðferðir reynast best?

Hvernig á að fræða börnin um Guð? – Hvaða aðferðir reynast best?

„Þessi orð, sem ég boða þér í dag, skulu vera þér hugföst. Þú skalt brýna þau fyrir börnum þínum. Þú skalt hafa þau yfir þegar þú situr heima og þegar þú ert á faraldsfæti, þegar þú leggst til svefns og þegar þú ferð á fætur.“ – 5. MÓSEBÓK 6:6, 7.

STUNDUM fallast foreldrum hendur því þeim finnst svo mikil ábyrgð að ala upp börnin. Og þegar þeir leita ráða er framboðið af leiðbeiningum svo mikið að það nánast kaffærir þá. Ættingjar og vinir eru oft ákafir að segja frá sínum hugmyndum. Bækur, tímarit og netsíður hafa líka að geyma yfirdrifið magn af leiðbeiningum sem oft eru misvísandi.

Biblían veitir foreldrum hins vegar ekki aðeins traust ráð varðandi hvað eigi að kenna börnunum heldur einnig hagnýtar leiðbeiningar um hvernig eigi að haga fræðslunni. Eins og fram kemur í biblíuversunum, sem vitnað er í hér að ofan, þurfa foreldrar að finna einhver ráð til að tala við börnin um Guð á hverjum degi. Hér að neðan er farið yfir fjórar tillögur frá Biblíunni sem hafa hjálpað þúsundum foreldra að fræða börnin sín um Guð.

1. Lærum af sköpunarverkinu. Páll postuli skrifaði: „Ósýnilega veru [Guðs], eilífan mátt og guðdómstign má skynja og sjá af verkum hans allt frá sköpun heimsins.“ (Rómverjabréfið 1:20) Foreldrar geta stuðlað að því að börnin líti á Guð sem raunverulega persónu með því að vekja athygli þeirra á sköpunarverki hans og hjálpa þeim síðan að koma auga á þá eiginleika Guðs sem þetta sköpunarverk ber vott um.

Jesús notaði þessa aðferð þegar hann kenndi lærisveinum sínum. Hann sagði til dæmis: „Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim?“ (Matteus 6:26) Jesús lagði hér áherslu á kærleika og umhyggju Jehóva. En hann gerði meira en það. Hann hjálpaði lærisveinunum að hugleiða hvernig Guð lætur þessa eiginleika í ljós gagnvart börnum sínum.

Hinn vitri konungur Salómon benti á viskuna sem Guð áskapaði maurunum og notaði þessi skordýr til að leggja áherslu á mikilvægan lærdóm. Hann skrifaði: „Farðu til maursins, letingi. Skoðaðu háttu hans og lærðu hyggindi. Þótt hann hafi engan höfðingja, engan yfirboðara eða valdsherra, þá aflar hann sér samt vista á sumrin og dregur saman fæðuna um uppskerutímann.“ (Orðskviðirnir 6:6-8) Þetta er áhrifamikil leið til að sýna hvað það er mikilvægt að setja sér verðug markmið og keppa síðan að þeim.

Foreldrar geta líkt eftir áhrifaríkum kennsluaðferðum Jesú og Salómons með því að gera eftirfarandi: (1) Spyrjið börnin að því hvaða plöntum og dýrum þau hafi áhuga á. (2) Aflið ykkur síðan frekari upplýsinga um þessi sköpunarverk. (3) Bendið á hvað þau kenna okkur um Guð.

2. Líktu eftir viðhorfi Jesú til þeirra sem hann kenndi. Það sem Jesús hafði að segja var miklu merkilegra en það sem nokkur annar maður hefur haft fram að færa. Engu að síður notaði hann mikinn tíma til að spyrja aðra. Hann hafði mikinn áhuga á að vita hvernig þeir sem hann kenndi hugsuðu og hvaða skoðanir þeir hefðu. (Matteus 17:24, 25; Markús 8:27-29) Eins þurfa foreldrar að kenna börnum sínum margt sem er mjög mikilvægt. En til að það skili tilætluðum árangri þurfa þeir að líkja eftir Jesú og hvetja börnin til að segja frjálslega frá skoðun sinni.

En hvað er til ráða ef börnin sýna af sér slæma framkomu eða eru lengi að tileinka sér mikilvægan lærdóm? Skoðum hvernig Jesús kom fram við postulana. Þeir rifust stundum heiftarlega hver við annan og það tók þá langan tíma að skilja hve mikilvægt væri að vera auðmjúkur. Samt sem áður var Jesús þolinmóður og benti á nauðsyn þess að sýna auðmýkt. (Markús 9:33, 34; Lúkas 9:46-48; 22:24, 25) Foreldrar líkja eftir Jesú með því að leiðrétta börnin með þolinmæði og leiðbeina þeim aftur og aftur ef með þarf þangað til þau hafa meðtekið það sem foreldrarnir eru að kenna þeim. *

3. Vertu góð fyrirmynd. Foreldrar ættu að íhuga ráð Páls postula til kristinna manna í Róm. Hann skrifaði: „Þú sem fræðir aðra, hví fræðir þú ekki sjálfan þig? Þú prédikar að ekki skuli stela og stelur þó.“ – Rómverjabréfið 2:21.

Þessi ráð eru mjög þýðingamikil vegna þess að það sem foreldrar gera hefur mun meiri áhrif á börnin en það sem þeir segja. Þegar foreldrar fara eftir eigin ráðum eru börnin líklegri til að taka til sín leiðbeiningar þeirra.

4. Byrjaðu snemma að kenna barninu. Það fór einstaklega gott orðspor af Tímóteusi, trúboðsfélaga Páls postula, á heimaslóðum hans. (Postulasagan 16:1, 2) Það var meðal annars vegna þess að honum hafði verið kennt frá heilagri ritningu allt „frá blautu barnsbeini“. Móðir Tímóteusar og amma lásu ekki bara úr ritningunum fyrir hann heldur hjálpuðu þær honum að skilja sannleikann sem er fólginn í orði Guðs. – 2. Tímóteusarbréf 1:5; 3:14, 15.

Hvar geturðu fengið aðstoð?

Vottar Jehóva gefa út fjölda rita sem eru sérstaklega sniðin til að hjálpa foreldrum að kenna börnunum sannleikann um Guð. Sum eru skrifuð með ung börn í huga. Önnur geta hjálpað foreldrum og unglingum að eiga góð samskipti og ræða saman um hlutina. *

Áður en foreldrar geta frætt börnin sín um Guð þurfa þeir auðvitað sjálfir að vita svörin við erfiðum spurningum sem börnin gætu spurt. Hvernig myndirðu til dæmis svara spurningum eins og þessum: Hvers vegna leyfir Guð þjáningar? Hvað ætlast Guð fyrir með jörðina? Hvað gerist við dauðann? Vottar Jehóva myndu með ánægju aðstoða þig við að finna svör við þessum spurningum og fleirum til að þú og fjölskylda þín geti nálægt ykkur Guði. – Jakobsbréfið 4:8.

[Neðanmáls]

^ gr. 10 Hebreska orðið, sem þýtt er „brýna . . . fyrir“ í 5. Mósebók 6:7, felur í sér að endurtaka ákveðið atriði aftur og aftur.

^ gr. 15 Fyrir yngri börnin geta foreldrar notað bókina Lærum af kennaranum mikla, sem dregur fram það sem Jesús kenndi, eða bókina Biblíusögubókin mín sem segir á einföldu máli frá helstu sögum Biblíunnar. Fyrir unglingana geta foreldrar notað fyrra og síðara bindi bókarinnar Ungt fólk spyr – svör sem duga.